11.08.1917
Efri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1048 í B-deild Alþingistíðinda. (620)

6. mál, þóknun til vitna

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Þetta frv. var fyrst borið fram hjer í þessari háttv. deild, en nú hefir háttv. Nd. fjallað um málið, og frá henni er það nú komið hingað aftur. Háttv. Nd. hefir gert nokkrar breytingar á frv., og hefir nefndin athugað þær og fallist á þær að mestu að efninu til, en hefir að eins breytt orðalagi lítið eitt.

Breytingarnar, sem háttv. Nd. hefir gert á frv., eru þessar:

1. Fyrirsögn frv. hefir verið stytt, og hefir nefndin fallist á það.

2. Óstefndum vitnum er ætluð þóknun, ekki síður en stefndum. Nefndin hefir líka fallist á það, þó svo, að vitni sæki dómþing að tilhlutun málsaðila, en ekki af sjálfshvötum.

3. Ferðakostnaður hefir verið lækkaður, og enginn ætlaður fyrir minni vegalengd en 10 km. á landi eða 5 km. á sjó. Nefndinni þykir þetta heldur langt farið, en henni líkaði vel ákvæðin í frv. um laun hreppstjóra og vill láta taka þau upp í þetta frv.

4. Vitni er áskilinn rjettur til þess, að þóknun sje ákveðin í sama þinghaldi og það hefir vitni borið. Nefndin hefir einnig fallist á, að þetta sje til bóta, en vill orða nokkuð á annan veg.

Jeg skal að öðru leyti ekki fjölyrða um þetta, en jeg leyfi mjer að leggja það til, að háttv. deild samþykki brtt. nefndarinnar.