21.08.1917
Sameinað þing: 4. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1052 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

6. mál, þóknun til vitna

Einar Arnórsson:

Enginn skyldi halda, að jeg ætli mjer að fara að yrðast við háttv. þm. Ísaf. (M. T.), með því líka, að engin brtt. er komin frá allsherjarnefnd Ed. við frv. Hún er því auðsæilega á sama máli og allsherjarnefnd Nd. í þessu efni. Og að fleiri hafi skilið till. allsherjarnefndar Ed. eins og jeg, sannar, að einn þm. í Ed. benti einmitt á þetta, en því var þá ekki sint þar, enda var málið þá til 3. umr.

Hinu mótmæli jeg, að nefndarálit allsherjarnefndar Nd. sje bygt á misskilningi. Misskilningurinn er eingöngu af hálfu allsherjarnefndar Ed. Hún virðist ekki hafa athugað, hvað felst í hugtakinu »vitni«.

Í frv. er það tekið fram, hverjum beri þóknun. En allir lagamenn vita, að það er ekki nóg að koma á þingstaðinn ótilkvaddur til þess að bera vitni. Eftir vorum rjettarfarsreglum getur enginn borið vitni í einkamálum, nema málsaðili krefjist þess og dómari leyfi það, og í opinberum málum að eins að tilhlutun dómara.

Annars skal jeg ekki fjölyrða um þetta atriði, og þar eð um engan skoðanamun á milli nefndanna er að ræða, vona jeg, að hv. Alþingi samþykki frv. Þess vegna býst jeg við, að jeg sjái ekki ástæðu til að yrðast frekar við hv. þm. Ísaf. (M. T.) út af þessu, þótt hann standi upp til þess að bera blak af allsherjarnefnd Ed. Mjer er það næg játning frá hans hendi og nefndarinnar í Ed., að engin breytingartillaga við frv., eins og Nd. gekk síðast frá því, er fram komin.