30.08.1917
Neðri deild: 47. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í B-deild Alþingistíðinda. (64)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Framsm. fjárveitinganefndar (Bjarni Jónsson):

Það er best að jeg taki við þar sem hinn háttv. frsm. (M. P.) hvarf frá. Jeg ætla ekki að gera annað en að skýra stuttlega brtt. fjárveitinganefndar við þann kafla fjárlaganna, sem mjer hefir verið falið að hafa framsögu að, og drepa svo með fám orðum á brtt. einstakra manna, um leið og jeg sest niður.

Brtt. nefndarinnar eru á þgskj. 722. Sú fyrsta, sem mjer við kemur er 10. liðurinn. Það er till. um að hækka þóknun fyrir verklega kenslu í yfirsetukvennafræði. Þessi hækkun var borin fram við 2. umr., en fórst þá fyrir einhver misgrip. Nú kemur hún aftur dálítið lægri, og vona jeg, að jafnvel sparsemdarmenn verði nú með henni, fyrst um svona litla upphæð er að ræða.

Um 11. liðinn þarf jeg ekki að fara mörgum orðum. Mönnum er það ugglaust kunnugt, að Jónas heitinn Jónsson var allra manna best að sjer um alt það, sem að kirkjusöng lýtur. Hann hafði notið þingstyrks um nokkur ár, til þess að safna sálmalögum og kirkjusöngs. Nú er hann eins og menn vita, nýdáinn og lætur eftir sig allmikið safn af alls konar söngvum. Ekkja hans gefur landinu kost á að kaupa safnið fyrir þetta verð, ekki af því, að hún sje í vandræðum með að selja það, því að nógir verða til að kaupa það fyrir þetta verð eða jafnvel meira, heldur af því að hún vissi, að það var vilji Jónasar heitins, að landið nyti þeirra verka, sem hann hafði safnað. Nefndin fekk tvo sjerfróða menn í þeirri grein til að líta á safnið, þá Sigfús Einarsson og Pál Eggert Ólason. Þeir telja safnið hæfilega virt, eins og Jónas ljet eftir sig í skrá, sem safninu fylgir. Með í kaupunum á að fylgja mikið handrit um sálmasöng, eftir Jónas sjálfan. Mundi handrit þetta eitt fyrir sig verða keypt háu verði, en á nú að fylgja ókeypis. Þeir segja, sem safnið skoðuðu, að þetta handrit sje að minsta kosti 3000 kr. virði eftir venjulegum ritlaunum, 30 kr. fyrir hverja prentaða örk, sem auðvitað er altof lítil borgun fyrir svona verk. Þess skal getið, að Jónas heitinn var búinn að semja drög að öllu safninu, þótt ekki væri fullgert nema út að D.

Þetta var 11. liðurinn. Þá kemur að 12. lið, til utanfarar handa þjóðmenjaverðinum. Svo stendur á till. þessari, að þjóðmenjavörðurinn, Matthías Þórðarson, sendi umsókn um þennan styrk. Í umsókninni skýrir hann frá því, að hann viti til þess, að víðsvegar í söfnum, bæði í Kaupmannahöfn og í Noregi, liggi ýmsir íslenskir munir, sem ekki verði komið lagi á, fyr en einhver Íslendingur, sem er fróður um þessa hluti, hjálpar til þess. Jeg veit að þetta er satt, að minsta kosti hvað Noreg snertir. Jeg hefi sjálfur sjeð íslenska muni á söfnum í Osló, sem þeir, er safnanna gættu, vissu ekki einu sinni fyrir víst hvaðan voru. Er jeg þó ekki vel að mjer í þessum efnum.

Annað atriði var það þó, sem þjóðmenjavörðurinn lagði meiri áherslu á. Það er um viðhald fornmenja á söfnum. Eins og menn vita, er mjög erfitt að geyma muni, sem grafnir eru úr jörðu. Þeim hættir við að ryðga og geta ónýtst á skömmum tíma. Munir þessir verða ekki bættir, því að ekki er hægt að búa til nýja forngripi. Nú er altaf verið að endurbæta aðferðir til að varðveita þessa muni, en þjóðmenjaverðinum er ekki unt að fylgjast með tímanum í þeim efnum, nema hann fari sjálfur og sjái, hvernig að er farið á söfnum erlendis. Það er því nauðsynlegt fyrir safnið, að þjóðmenjavörðurinn fari utan, til að læra nýjustu aðferðir til að geyma gamla muni. Jeg vona að allir þingmenn sjái, að þetta verði stórvinningur fyrir safnið, að hægt verði að varðveita dýra muni, og þar sem um fjársparnað er að ræða, greiða auðvitað allir atkvæði með þessari tillögu.

Þá kem jeg að 13. liðnum, sem er styrkur til íslenskrar orðabókar. Ætla jeg að biðja menn að hlýða vel á orð mín meðan jeg tala um þennan lið.

Mönnum er kunnugt um, að þessi fjárveiting til íslenskrar orðabókar varð til fyrir nokkrum árum. Maðurinn, sem falið var að inna þetta verk af hendi, er nú dáinn, en verkið er svo að segja nýbyrjað, Nú verða því mannaskifti að verkinu, ef því verður haldið áfram, og er þá rjettur tími til að taka ákvarðanir um það, hvernig verkinu skuli hagað í framtíðinni. Nefndin þóttist ekki bær um að koma með ákveðnar tillögur um það upp á sitt eindæmi. Var því afráðið að skjóta því undir dóm heimsspekideildar háskólans. Þar hefir málið verið rætt á fundi, og komst deildin að þeirri niðurstöðu, að sjálfsagt væri, að orðabókin væri vísindaleg og hið besta til hennar vandað. Nefndinni hefir svo borist svar heimspekideildarinnar með brjefi þessu, sem jeg vil leyfa mjer að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

»Að gefnu tilefni var tekið fyrir á fundi heimsspekideildar háskólans í dag málaleitun frá fjárveitinganefnd neðri deildar, hvort æskilegra væri, að tekið væri þegar til að semja vísindalega orðabók yfir íslenska tungu eða veita styrk til alþýðlegrar orðabókar.

Kennarinn í íslensku, dr. phil. Björn M. Ólsen, telur sjálfsagt, að byrjað sje sem allra fyrst á samningu vísindalegrar orðabókar yfir íslenskt mál, með því, að jafnan megi gera útdrátt úr henni við alþýðu hæfi.

Deildin er þessu fyllilega samþykk og skorar því á þingið að veita hæfilega upphæð, svo sem 8000. kr. hvort árið, til þess að byrja á starfinu.

Þetta leyfi jeg mjer virðingarfylst að tilkynna háttvirtri fjárveitinganefnd til þóknanlegrar athugunar.«

Ágúst H. Bjarnason.

Þetta eru tillögur háskóladeildarinnar. Samkvæmt þeim fjelst nefndin á, að það skyldi vera til vísindalegrar orðabókar, sem styrkurinn væri veittur, og leggur til, að nú verði veittar 6000 kr. hvort árið, til að byrja á starfinu. Jeg vil leyfa mjer að benda háttv. deildarmönnum á álitsskjal dr. Björns Bjarnasonar frá Viðfirði um samningu íslenskrar orðabókar. Skjal þetta hefir legið frammi á lestrarsalnum. En af því að jeg veit ekki, hvort þingmenn hafa allir kynt sjer það nægilega, þá ætla jeg að leyfa mjer að lesa upp þann kaflann úr því, sem lýsir verkefni vísindalegrar orðabókar. Sá kafli hljóðar á þessa leið:

»Vísindalegri orðabók íslenskrar tungu

verður að ætla það verkefni að rekja aldur og æfiferil orðanna, að svo miklu leyti, sem unt er að komast fyrir það efni, sýna sögulega framþróun málsins öld eftir öld, frá fornu fari til þessa dags. Hún á að komast sem lengst í því að sýna:

1. Nútíðarframburð orðanna.

2. Formbreytingar þeirra (í hljóði, beygingu, kynferði o. s. frv.).

3. Aldur þeirra, þ. e. hve nær þau koma fyrst fram í bókmentunum, hve nær þau hverfa eða hvort þau lifa enn í dag.

4. Verksvið þeirra og heimilisfang.

5. Þýðingar þeirra í sögulegri röð, tilgreina ef unt er, hve nær þýðingarbreyting hefir orðið og af hvaða orsökum (sálarfræðilegum eða menningarsögulegum).

6. Sifjabönd orðanna.

7. Afstöðu þeirra í setningum.

8. Ætterni þeirra, er af útlendum toga eru spunnin, hve nær og hverja leið þau eru komin inn í málið, og með hvaða menningarstraumum.«

Þetta er í stuttu máli verkefni bókarinnar, sem dr. Björn lýsir hjer vel og greinilega. Jeg býst ekki við að þurfa að minna háttv. þingmenn á það, að varla er meira þjóðnytjaverk til en slík orðabók, og því er sjálfsagt og skylt að styðja að því, að sem fyrst og sem best verði að henni unnið. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að engin germönsk tunga önnur hefir geymt eins vel forna fjársjóðu og andarauð forfeðranna, eigi að eins lífspeki og fegurðarhreim hins norræna kynstofns, heldur og allra germanskra þjóða, og að engin þjóð af vorum kynstofni á svo greiða gagnvegi til fortíðar sinnar sem vjer, til hávamála sinna og hetjuljóða, fræknleiks, fegurðar og mannvits undanfarinna kynslóða um margar þúsundir ára.

En hitt er líka jafnkunnugt, að engin þjóð hefir unnið jafnlítið að sínu máli eins og Íslendingar. Forfeðurnir hafa unnið alt. Þeir fá okkur málið í hendur, lítt skert eða óskert, og nú er það okkar skylda, að láta eftirkomöndunum eitthvað eftir, — eitthvað, sem geti geymst, eitthvað, sem varðveitist betur en hið lifandi orð, sem nú er óðum að sýkjast, eftir því sem sníkjumenningin læðist inn á fleiri og fleiri svið þjóðlífsins og grefur dýpra og dýpra að rótum hins hreina íslenska máls. En þar sem hjer er að ræða um fróðleik og vitsmuni okkar ágætu forfeðra, sem eru dýrustu perlur íslensku þjóðarinnar, þá verður aldrei um of vandað til varðveislu þeirra.

Ætti nú að ráðast í að gera hæfilegt band til að draga þessar perlur á, þá verður ekkert annað til þess valið, er betur sami, en einmitt slík orðabók. Fjárveitinganefndin er því ásátt um að styðja þetta verk. Að vísu er nefndinni það ljóst, að þessar 6000 kr. er ekki nægilegt fje til að vinna að orðabókinni með þeim krafti, sem æskilegt væri, og að ekki hefði veitt af allri upphæðinni, sem heimsspekideild háskólans stakk upp á, en nefndin sjer sjer ekki fært, eftir atvikum, að leggja til að hærri styrkur verði veittur en þetta, enda mun vera hægt að byrja á verkinu fyrir þetta fje. Nefndin leggur ekki neitt til um það, hverjir eigi að vinna þetta verk. Þó skal þess getið, að umsókn hefir komið frá þrem mönnum um orðabókarstyrkinn. Dr. Björn Bjarnason frá Viðfirði, sem flestir munu kannast við, því bæði hefir hann ritað bækur og auk þess verið á hann minst á undanförnum þingum. Hann er fróðleiksmaður hinn mesti, lærður málfræðingur og iðjumaður mikill. Enginn efast um, að hann sje mætavel fallinn til þessa orðabókarstarfs. Annar maðurinn, sem umsókn hefir sent, er Jóhannes Lynge, prestur á Kvennabrekku. Margir munu hafa heyrt hans getið. Hann er líka fróðleiksmaður á íslenska tungu. Jeg þekki manninn mjög vel. Í skóla var hann tveimur árum á undan mjer, en þó varð hann kennari minn, þegar jeg var að búa mig undir að ganga inn í skólann, og einhvernveginn atvikaðist það þannig, að mjer varð að gefa 6 í íslensku við inntökuprófið. Var það eingöngu því að þakka, hve sýnt honum var um að kenna þá námsgrein. Ef Jón Þorkelsson rektor og aðrir kennarar hans væru nú á lífi, þá mundu þeir geta vottað það, að hann var góður í íslensku á þeim árum. Þriðja umsóknin er frá ungum manni, Þórbergi Þórðarsyni að nafni. Hefir hann um undanfarin ár stundað íslenskunám hjer við háskólann og kennari hans, Björn M. Ólsen, prófessor, mælir hið besta með honum. Hann hefir sýnt það, með byrjunarorðasafni, sem hann hefir þegar safnað, að hann er vel að sjer. Jeg þekki dálítið til piltsins. Hann hefir sótt grískutíma hjá mjer, til þess að geta notað gríska tungu við nám sitt í samanburðarmálfræði. Jeg get því mælt með þessum unga manni.

Þessir menn hafa allir sótt. Auðvitað verður það stjórnin, sem ræður hverjir og hvernig að bókinni verður unnið. Jeg geri ráð fyrir, að þegar taki til starfa fleiri en einn maður. Mjer þótti því oflítið að veita ekki nema 6000 kr. til bókarinnar. Jeg vildi heldur halda mjer við 8000 kr., eins og heimspekideildin lagði til. Þá hefðu 2 menn getað tekið til starfa strax, og getað keypt sjer aðstoð eftir því, sem nauðsyn krefði.

Jeg þykist nú hafa tekið ljóst fram það, sem hægt er að segja um þennan lið. En ef einhverjum þykir ekki nógu skýrt frá sagt, þá er honum heimilt að leggja fyrir mig spurningar, og er mjer ljúft að leysa úr þeim, eftir því sem jeg best ber skyn á. — Jeg hverf þá frá þessum lið í von um, að allir greiði atkvæði með honum. Jeg er þess fullviss, að þetta þing verður lengi lofað, ef það samþykkir þessa fjárveitingu.

Um brtt. 722, 14. er það að segja, að nefndin varð ásátt um það, að rjettara mundi að veita þessum manni styrk þann, sem stórstúkan hefir haft. Er sú ályktun bygð á því, að nokkuð af þessum styrk mun hvort sem er eiga að ganga til að launa þessum manni störf hans í þarfir reglunnar. Nefndin er ekki fallin frá því, að engin ástæða sje til að styrkja þennan fjelagsskap í bannlandi, en þykir rjett að virða mann, sem barist hefir fyrir hugsjón sinni alla æfina.

Þá kem jeg að brtt. 722, 15. Það er einn af þeim liðum, sem varð að bíða 3. umr. Hann er um styrk til Frímanns Arngrímssonar til að safna steinum og jarðtegundum til iðnaðarafnota. Vill hann gera tilraunir með ýmsar leirtegundir til tígulsteinagerðar og leirkerasmíða. Þessa manns hafa flestir vafalaust heyrt getið, þótt líklega sje hann ekki mikið þektur. Jeg átti tal við hann nýlega og sannfærðist um, að hann er miklum gáfum gæddur. Maðurinn er hniginn á efra aldur og hefir borist undarlega áfram um dagana. Hann hefir ávalt verið fátækur, en brotist áfram af eigin ramleik, farið víða um lönd og stundað nám við ýmsa skóla, bæði í Vesturheimi og í Frakklandi.

Með umsókn sinni hefir hann sent vottorð frá ýmsum skólum vestan hafs. Sjest af vottorðum þessum, að hann hefir gengið í undirbúningsskóla í Ottawa haust 1879, stundað nám við háskólann í Toronto 1883 og 1884 og lokið burtfararprófi þaðan í stærðfræði, grísku, latínu, ensku, efnafræði, grasafræði, dýrafræði, steinafræði og jarðfræði. Árið 1885 stundaði hann nám við háskólann í Manitoba, og lauk burtfararprófi þaðan í jarðfræði, jarðeðlisfræði, dýrafræði, lífrænni efnafræði, stjarnfræði, veðurfræði, efnarannsóknafræði, flokkaðri grasafræði, vefjafræði og kristallafræði.

Af þessu má sjá, að maðurinn hefir góð vottorð og að hann muni margfróður, svo að líklegt sje, að af styrknum geti leitt gagn. Væntir því nefndin, að deildin taki þessari brtt. vel. — Maðurinn hefir enn, þótt roskinn sje, brennanda áhuga á því að láta gott af sjer leiða.

Brtt. 722, 16., um fjárveiting til vatnsvirkja, er sett inn að tilmælum vegamálastjóra og landsstjórnarinnar. Liðurinn hafði óvart slæðst burt með öðru sökum fyrirhugaðrar hleðslu að Þverá.

Brtt. 722, 17. stendur í sambandi við 14. lið, samþykkist með honum, en verður tekin aftur, ef sá verður eigi samþyktur.

Þá hafði gleymst við 2. umr. að taka upp fjárveitingu til prestsekkju einnar, sem nú er gert í brtt., 722, 18. Hafði því máli verið vísað áður til biskups og prestsekknasjóðs, en þar er ekki um fje að ræða til þess, að hægt sje að bæta úr þessu.

Brtt. 722,19., um 300 kr. styrk á ári til Magnúsar Einarssonar, var frestað við 2. umr., en nú hefir nefndin samþykt hana í einu hljóði.

Brtt.722,20 er alveg sjálfsögð veiting og hefir áður staðið í fjárlögunum, en nú var tíminn útrunninn, sem heimildin náði til, en konan eignalaus og þarf þessa því með, einkum vegna barna sinna, eins og skiljanlegt ætti að vera, svo að ekki þurfi um það fleiri orð.

Þá skal jeg snúa mjer að brtt. einstakra þingmanna.

Á þgskj.689 er brtt. frá hv.l. þm. Húnv. (Þór. J.), er fer fram á það, að bæta unglingaskólanum á Hvammstanga inn í unglingaskólana, sem tilgreindir eru í 14. gr. B, XIV. Meiri hluti nefndarinnar er á móti þessari brtt., en jeg hefi þar nokkuð sjerstaka aðstöðu. Mín skoðan er sú, að hækka beri styrkinn til allra skólanna, en fara öfuga leið, þannig, að kaupstaðirnir fái minst, en skólar í sveitum mest. Þessu hefi jeg ekki fengið um þokað á undanförnum þingum, heldur hafa kaupstaðaskólarnir fengið hærri styrk, og er þó vitanlegt, að hægara er að halda skóla í kaupstöðum en í sveitum, því að í kaupstöðum geta menn búið heima hjá sjer, en til sveita þurfa að vera heimavistir. Hvítárbakkaskólinn hafði verið hafinn yfir alla skóla og lengi hlotið fjárveiting án eftirlits, en því fekst þó breytt eftir rekistefnu á 3 þingum, þannig, að sá skóli var lagður undir eftirlit landsstjórnarinnar, hvernig sem því er háttað; um það er mjer ókunnugt.

Þá var næst skeytt inn skólanum undir Núpi í Dýrafirði og hann tekinn í guða tölu, og nú er farið fram á að taka þennan nýja skóla á Hvammstanga einnig upp í greinina. Loks hefi jeg lagt til að taka skólann í Hjarðarholti í Dölum einnig með, og sýnist mjer rjett, að báðir þessir skólar verði þá teknir upp, með því að ekki verður sjeð, að hinir standi þessum framar. Jeg skal geta þess, að það, sem jeg segi um þessa skóla, er frá eigin brjósti, en ekki fyrir hönd nefndarinnar, og þótt farin sje öfug leið við þá, sem jeg vil, þá verður ekki við því spornað, og er þá að reyna að gera sem best úr því, sem orðið er.

Jeg mun þá ekki fara fleiri orðum um þetta, enda býst jeg við, að háttv 1. þm. Húnv. (Þór. J.) geri grein fyrir till. sinni og gjaldi þá líku líkt, það er tekur til minnar till.

Á þgskj. 671 fer háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) fram á 500 kr. styrk á ári handa Hólmfríði kenslufrú Árnadóttur, til kvöldskólahalds. Meiri hluti nefndarinnar er á móti þessari brtt., en jeg hefi áskilið mjer mitt atkvæði óbundið, því að jeg þekki til þessa skóla og veit, að vandað er til kenslunnar í öllum greinum, en skólinn er sjerstaklega ætlaður þeim sem ekki geta gengið í aðra skóla; fyrir því hallast jeg að þessari brtt.

Á þgskj. 680 leggur alkunnur aðalmentafrömuður þessarar deildar, háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) til, að hætt verði við að gefa út fornbrjefasafnið, sem hingað til hefir þótt þurfa og menn enn munu vilja gefa út, þótt líklegt sje, að mörgum muni snúast hugur, er hann flytur ræðu sína um það. Sama er um alþingisbækurnar og dómasöfnin, sem hann sjálfsagt sýnir fram á, að nauðsynlegt sje að hætta við. Jeg hefi altaf haldið, að þessar útgáfur væru til fróðleiks og gagns, og sömu skoðunar hafa menn verið á undanförnum þingum.

Í 5. lið á sama þgskj. er farið fram á að fella niður 1000 kr. styrk á ári til þýðinga íslenskra skáldrita á Norðurlandatungur. Jeg gerði grein fyrir því við 2. umr., að hjer væri að eins um sjálfsagða kurteisi að ræða gagnvart þeim ágætismönnum meðal bræðraþjóða vorra, er vilja leggja fram styrk til þýðinga úr sínum málum á íslenska tungu, sem alt miðar að því að efla nánari samgöngur milli þjóðanna í þessum efnum. Það er undarlegt, að jafnmikill og ágætur mentafrömuður sem hv. 2. þm. Rang. (E. J.) skuli gera þessa till., og hann mun komast að raun um það, þegar hann nú bráðlega sækir þessar mentaþjóðir heim og kemur á fund forgöngumanna þessa fyrirtækis, sem jeg og aðrir munu veita honum meðmæli til, að hann hefði ekki átt að leggjast á móti þessum styrk.

Meiri hluti nefndarinnar leggur á móti brtt. á þgskj. 650, en óbundin eru atkvæði nefndarmanna. Hjer er um gott verk og nauðsynlegt að ræða, sem nú mun vera nær hálfnað. Jeg er meðmæltur till.

Þá er brtt. á þgskj. 663, um 2000 kr. styrk fyrra árið til Sigurðar Þórðarsonar, til söngnáms á Þýskalandi. Nefndin hefir einum rómi fallist á þessa brtt. Menn mun sjálfsagt reka minni til þess, að nefndin lagði við 2. umr. til þess að hækka styrkinn til skálda og listamanna úr 12 þús. kr. upp í 16 þús. kr., mest vegna þessa manns og annara, sem hún ætlaðist til, að þá fengi að njóta hækkunarinnar. En nú var sú till. feld, og sá þá nefndin sjer ekki annað fært en að aðhyllast þessa till. Þessi maður er nú í Þýskalandi og, eins og menn vita, er nú ekki auðgert að komast þaðan, og þessi maður á ekki nema fátæklinga að. Annars er það að segja um styrkinn til skálda og listamanna, að nefndin telur illa farið, hvernig atkvæði fjellu við síðustu umr., með því að líklega verður stjórnin nú í vandræðum með upphæðina. Það hefir verið tekin upp sú regla, að nefna ekki menn, sem njóta skyldu þessa styrks, en stjórnin hefir þó í athugasemdum við frv. nefnt einn mann og virðist ætla honum 1200 kr. hækkun, en ætla má, að hún ætli öðrum til viðbótar 500 kr., svo að eftir verða þá 300 kr. óráðstafað af hækkuninni. Út af þessu vill nefndin láta þess getið, að hún vill ekki láta menn standa ójafnt, sem áður hafa staðið jafnt. Mig furðar nú á því, að stjórnin skuli ekki hafa farið fram á hærri upphæð, t. d. 20 þús. kr., því að altaf er hægt að skilja eftir af peningafúlgunni, en hitt verður ekki bætt, ef menn missast frá þessu nytsemdarstarfi, eða geta ekki haldið því áfram. Jeg vil í þessu sambandi minna á Þorstein Erlingsson, sem var brjóstveikur og neyddist til þess að hafa ofan af fyrir sjer með tímakenslu og kyrsetum, sem vafalaust hafa spilt heilsu hans. Þessa læt jeg að eins getið, til þess að mín skoðun sjáist greinilega, þótt þingið vilji ekki ganga þá braut.

Þá eru ýmsar smátill., sem jeg tek allar í einu. Nefndin er andvíg brtt. á þgskj. 710, en atkvæði þó óbundin, að minsta kosti um varatill., sem hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) væntanlega gerir grein fyrir.

Hækkun á styrk til Sigfúsar Sigfússonar getur nefndin ekki fallist á; þóttist hafa þar gert hreint fyrir sínum dyrum. Sama er að segja um styrk til Steins Þórðarsonar. Beiðnin lá fyrir nefndinni, en hún gat ekki fallist á hana. Sama gegnir um styrk til Jóns Sveinssonar, að meiri hlutinn getur ekki aðhylst hana. En jeg er nú meðflytjandi þeirrar brtt. með öðrum, sem jeg ætla að geri grein fyrir henni, einkum aðalflutnm. (Þorst. J.) og háttv. 2. þm. Árn. (E A.). Nefndin mælir á móti brtt. á þgskj. 672 og 673; sú hefir legið fyrir nefndinni, en hún ekki sjeð sjer fært að taka hana upp, með því að hún vildi ekki gera sig að dómara í máli, sem hún hefir ekki nægilegt vit á. Nefndin hefir ekki heldur fallist á brtt. á þgskj. 643, um húsabætur á Hallormsstað, ekki heldur, að hús þar sjeu svo kolfallin, að ekki fái hangið uppi í fáein ár enn.

Brtt. á þgskj. 644, um styrk til dýralækningabókar, vill nefndin ekki aðhyllast nú, ekki af því að hún telji ekki málið nauðsynlegt, eða sje á móti því síðar meir, heldur telur hún ekki hægt að sinna þessu nú.

Sama máli gegnir um till. frá háttv. þm. Barð. (H. K.) á þgskj. 694. Þar á móti hefir hún aðhylst till. sama þm. á þgskj. 692, sem endurveiting, en ætlast þó ekki til að notuð verði, meðan það verðlag helst á útlendum efnivið, sem nú er. Með sama fororði felst nefndin á styrk til bátabryggju á Blönduósi, sem eins er ástatt um. Þar á móti getur nefndin ekki fallist á brtt. sama þm. á þgskj. 696; nefndin þóttist í þeirri fjárveitingu hafa farið svo langt sem hún sá sjer fært.

Á þgskj. 679 er farið fram á að greiða Gísla presti Kjartanssyni 800 kr. styrk. Nefndin hafði áður lagt til að veita honum 1000 kr., og er því samþykk þessari till.

Brtt. á þgskj. 711 fer eftir atkvgr. um þær till., sem nefndin hefir gert við þennan lið.

Þá er brtt. á þgskj. 685 um að athugasemdin við 19. gr. orðist svo: »Af þessari upphæð skal greiða lögreglustjórum kostnað þann, er þeir kunna að hafa við lögreglueftirlit, svo sem með fiskveiðum í landhelgi, við banngæslu o. fl.«.

Þetta er að innihaldi til engar breytingar frá því, sem er, því að athugasemdin sjálf segir einmitt, að fjeð eigi að vera til löggæslu. En nefndin lítur svo á, sem það geti verið dálítið hættulegt að veita þetta til banngæslu nú. Enda heyri jeg nú, að þessi till. sje tekin aftur.

Svo er næst brtt. á þgskj. 645, frá þeim háttv. þm. S.-M. (Sv. Ó. og B. St.), um að veita Búðahreppi alt að 60 þús. kr. lán til rafstöðvarbyggingar.

Nefndin hefir ekki sjeð sjer fært, að mæla fram með þessari till. Hún hefir gert sjer það að reglu, að neita slíkum lánbeiðnum, sem ætluð eru til fyrirtækja, sem ekki er byrjað á, þangað til svo vel árar hjer á landi, að slíkt væri vel gerandi. Þessi lánbeiðni verður því að bíða betri tíma.

Alt öðruvísi er ástatt um lánbeiðni háttv. þm. Barð. (H. K.) til Patrekshrepps. Það fyrirtæki, sem þar er um að ræða, er svo langt komið áleiðis, að það horfir til stórvandræða fyrir hreppinn, ef það verður ekki fullunnið. Þessar tafir, sem orðið hafa á verkinu, eru að kenna stríðinu, eins og fleira, og eru til mikils tjóns fyrir þá. Af því að svo stendur á sem hjer, telur nefndin rjett að veita þetta lán, þótt það sje fjarri henni, að gera það að nokkru kappsmáli.

Þá hefi jeg í fám orðum minst lítilsháttar á þessar till. einstakra þm. og þær undirtektir, er þær hafa hlotið hjá nefndinni. Jeg skal því ekki fjölyrða meir nú, en gefa mönnum kost á að mæla með sínum eigin till. Ef jeg svo sje að þess gerist þörf, þá mun jeg gera athugasemd við það, sem þeir kunna að segja seinna.

En það er ein till. ennþá, sem jeg mun ekkert skifta mjer af við umr., en það er till. á þgskj. 735. Það var svo til ætlast, að þessi till. kæmi frá nefndinni, en það hefir nú farist fyrir. Þessi till. fjallar um Kennaraskólann.

Eins og mönnum sjálfsagt er kunnugt þá hefir dr. Björn Bjarnason frá Viðfirði haft veitingu fyrir embætti við þennan skóla, en sökum heilsuleysis hefir hann ekki getað stundað kensluna sjálfur, en annar gert það í hans stað. Nú hygg jeg, að megi telja víst, samkvæmt athugasemd stjórnarinnar við fjárlögin, að dr. Björn Bjarnason muni eiga að taka við orðabókinni, og verði gerður þar að höfuðritstjóra, svo að þá losnar þessi kennarastaða. Nefndin telur nú rjettlátt, að sá sem embættið fær, fái líka að halda þeirri persónulegu launaviðbót, sem dr. Björn hefir haft. Mun það vera meiningin, að Sigurður Guðmundsson taki við lægra embættinu, en Ólafur Daníelsson flytjast upp. — Þetta hafði alveg gleymst hjá nefndinni, og ef það kemur ekki inn í háttv. Ed., þá verður að koma með það við eina umr. hjer síðar. Að vísu er alveg nægilegt, ef hæstv. stjórn vill lýsa yfir því hjer, að þessi brtt. sje óþörf, að hún sjái sjer fært að haga þessu eins og til er ætlast án þess.