30.08.1917
Neðri deild: 47. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg þarf ekki að tala langt mál. Enda er það ekki nema lítið af brtt., sem jeg get sagt að komi mjer við, eða mínu starfi í ráðuneytinu.

Út af ummælum háttv. þm. Stranda. (M. P.) um landsspítalann, þá get jeg lýst yfir því, að jeg er ekki mótfallinn þeirri breytingu, sem nefndin hefir gert á veitingunni. Mjer er nær að halda, að stjórninni veitist auðvelt að fá menn til að starfa í þessa átt, og upphæðin, sem nefndin vill veita, mun vera nægileg.

Jeg get enn fremur tekið undir með hv. þm. Stranda. (M. P.) viðvíkjandi því, sem hann sagði um Vífilstaðahælið; það er efalaust full þörf fyrir sjerstaka barnadeild þar í framtíðinni, þótt ekki verði mögulegt að koma því í kring að svo stöddu. Mjer þykir sennilegt að 3. brtt. fjárveitinganefndar sje á góðum rökum bygð. Það mun þess vert, að styrkja slík sjúkrasamlög sem þessi, og þá rjett að telja þetta sem byrjunarstyrk, en ekki binda það til langframa. Sömuleiðis mun það vera rjett, eins og nefndin fer fram á, að hækka styrkinn til hörundsberklasjúklinga.

Þá kem jeg að 10. lið á þgskj. 722, um þóknun til yfirsetukvenna. Jeg er á móti því að hækka þetta eins og farið var fram á við 2. umr. En mjer finst heppilegt, að upphæðin verði tvöfölduð; hitt, að þrefalda, finst mjer vera fullhátt.

Aftur á móti finst mjer varla fært að samþ. 11., 12. og 13. liðinn á sama þgskj. Það má að vísu vera, að alt þetta sje nauðsynlegt. En eins og nú er ástatt, þá finst mjer fjárhagurinn ekki vera þannig, að það sje heppilegt, að bæta á hann þessum útgjöldum. Mjer dettur ekki í hug, að bera brigður á, að sönglagasafn Jónasar heitins Jónssonar sje þess virði, sem tiltekið er, en jeg álít ekki rjett, að samþykkja veitinguna nú. Það gæti verið umtalsmál að kaupa safnið og borga það smátt og smátt, ef það er talið nauðsynlegt. En jeg er því ekki nógu kunnugur, til að geta sagt, hvort svo sje.

Hvað snertir utanferð þjóðmenjavarðar, þá tel jeg heppilegra, að það verði látið bíða fyrst um sinn.

Fjárveitinganefndin vill veita 6000 kr. til samningar íslenskrar orðabókar, en eins og fjárhag landsins er farið, tel jeg rjettara að samþykkja það, sem stjórnin hefir lagt til.

Þá er brtt. 722, 19. Hún fer fram á 300 kr. til Magnúsar Einarssonar á Akureyri. Með þessu vildi jeg mæla eindregið. Um till. einstakra þingmanna, finn jeg ekki ástæðu til að segja neitt. Nefndin hefir þegar lýst afstöðu sinni til þeirra, og er, að því er mjer skilst, þeim heldur mótfallin. Enda ætti hv. deild að þykja full ástæða til að fara gætilega í að auka útgjöldin í fjárlögunum, og gæta þess, hversu tekjurnar eru miklar.