04.07.1917
Efri deild: 2. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1063 í B-deild Alþingistíðinda. (669)

10. mál, fiskiveiðasamþykktir og lendingasjóður

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Svo er um þetta frumvarp, sem stjórnin hefir lagt fyrir þingið, að það er nýkomið út, og hafa þingmenn því lítið kynt sjer það að líkindum. En þar eð það er nú að eins til 1. umr., þarf lítið um það að ræða, enda fylgir allgóð greinargerð fyrir ástæðunum, vegna hvers það er, fram komið.

Í frv., þessu er safnað saman ýmsum eldri lagaákvæðum, er mál þetta snerta. Þau ákvæði eru sjö að tölu eða rúmlega það. Aðalkosturinn við frv., ef það nær fram að ganga, er sá, að þá verður hægra að leita að því, er hjer skiftir máli. Að þess sje full þörf sjest best á því, hve oft hefir verið fjallað um málið.

Jeg sje enga ástæðu til þess að fara út í einstakar greinar frv. að þessu sinni. Geta má þess, að breytingin er ekki mikil, sem af því mundi leiða. Markverðustu ákvæðin eru um lendingasjóði og lendingagjald. En, eins og jeg hefi tekið fram, er nægur tími til þess að athuga þetta síðar. Stjórnarráðið áleit, að nauðsyn bæri til, að frv. þessu líkt næði fram að ganga. Vil jeg gera það að tillögu minni, að frv. verði vísað til sjávarútvegsnefndar.