08.08.1917
Efri deild: 25. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1064 í B-deild Alþingistíðinda. (671)

10. mál, fiskiveiðasamþykktir og lendingasjóður

Frsm. (Karl Einarsson):

Jeg get að mestu látið mjer nægja að vísa til nefndarálitsins um mál þetta, og það því fremur, þar sem flestar brtt. nefndarinnar eru að eins orðabreytingar. Nefndin hefir gert till. sínar með það fyrir augum að gera frumvarpið greinilegra, og, að því er oss virðist, betur orðað.

Þó hefir nefndin gert nokkrar efnisbreytingar á frv., og skal jeg lauslega geta þeirra.

Fyrsta efnisbreytingin, er nefndin hefir gert, er við 3. gr., 3. brtt. nefndarinnar, þar sem nefndin leggur til, að orðin »kaupstaðir og kauptún« til enda greinarinnar falli burt. Nefndin leggur til, að svo verði gert, vegna þess að hún telur, að það geti verið athugavert, að kaupstaður eða kauptún geri samþykt fyrir sig. Það getur hagað svo til, að fleiri verstöðvar sæki á sömu miðin, og gæti þá orðið ósamræmi á milli samþyktanna, sem ekki væri æskilegt. Það getur skeð, að það hefði mátt undanskilja sum af ákvæðum fiskiveiðasamþyktarinnar, svo sem um gjaldið, en slík ákvæði er vel hægt að setja í samþyktirnar.

Önnur efnisbreytingin, sem nefndin ber fram, er við 7. gr. Oss þykir gjald það, sem frumvarpið heimilar, ofhátt fyrir smábáta, en hins vegar treysti nefndin sjer ekki til að flokka bátana. Nefndin hefir því lagt til, að gjaldið sje lækkað.

Loks leggur nefndin til, að heimild sú, sem er í 8. gr. frv., um að ákveða megi á tímabilinu frá 30. nóvember til 31. mars, að eigi megi sleppa hákarlsskrokkum í sjó, verði feld burt. Jeg er persónulega ókunnugur því atriði, og get því ekki borið um það, hvort þetta er rjett gert eða ekki, en eftir upplýsingum þeim, er við höfðum fengið, töldum vjer rjettara að fella ákvæðið niður.

Jeg vona svo, að háttv. deild samþykki frv. með breytingum nefndarinnar.