11.09.1917
Neðri deild: 57. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1070 í B-deild Alþingistíðinda. (686)

10. mál, fiskiveiðasamþykktir og lendingasjóður

Frsm. (Björn Stefánsson):

Hæstv. forseti gat þess, að framhaldsnefndarálit væri ekki komið fram, og er það rjett, en til þess eru tvær ástæður. Í fyrsta lagi tókum við svo seint eftir þeirri breytingu, sem háttv. Ed. hefir gert, að tíminn var orðinn nokkuð naumur, og í öðru lagi var það ekki annað en pappírseyðsla að fara að prenta álit okkar, úr því að við leggjum til að samþ. frv. óbreytt.

En sökum þess, að jeg býst við, að mönnum sje ekki fullljóst, hvað á milli deildanna ber, þá skal jeg leyfa mjer að fara um það nokkrum orðum.

Eins og háttv. deildarmenn vita er þetta mál borið fram af stjórninni og lagt fyrir háttv. Ed. Við hjer í deildinni gerðum á því nokkrar breytingar frá því, sem háttv. Ed. hafði afgreitt það. En þessar breytingar okkar hefir háttv. Ed. ekki getað fallist á. Við höfðum lagt til, að lendingasjóðsgjaldið yrði miðað við hundraðsgjald af aflanum og ekkert annað, en Ed. vill aftur á móti miða gjaldið við lestarrúm skipanna og hlutatölu.

Þessa breytingu teljum við ekki sanngjarna, af því að það er ekki víst, að ágóðinn af útgerðinni standi altaf í hlutfalli við stærð skipsins. Sömuleiðis mælir það á móti till. háttv. Ed., að því stærri sem skipin eru, því meira vitagjald og hafnargjald verða þau að greiða; getur því orðið ósanngjarnt, að þau verði einnig harðara úti hjer. Sömuleiðis mælir það á móti skoðun háttv. Ed., að víða er útgerðinni hagað svo, að útgerðarmennirnir fá allan aflann, en greiða hásetum sínum einungis mánaðarkaup, svo að aflinn er alls ekki talinn í hlutum. Þegar svo er ástatt, þá getur orðið ágreiningur um það, hve marga hluti aflann skuli telja.

Enn fremur er það eðlilegast, að lendingasjóðurinn njóti þess, ef fiskveiðarnar ganga vel, og hafi þá hærri tekjur en ella.

Þetta hefir Ed. ekki viljað fallast á. Hún vill miða við lestarrúm og hlut. Þótt við álítum, að brtt. hennar spilli frv., leggjum við þó til, að það verði samþ., eins og það nú er orðið, heldur en að öll sú vinna, fyrirhöfn og kostnaður, sem hefir gengið til þess að sameina öll þessi gömlu lög og láta frv. ganga gegnum 4 umr. í hvorri deild, verði að engu, enda er fyrirhafnarminna síðar að bæta úr þessum eina aðalgalla, sem á frv. er nú, heldur en að draga þá saman í eina heild 7 eldri lög frá tímabilinu 14. des. 1877 til 22. okt. 1912. Það væri ótækt, ef sú vinna, sem farið hefir í að draga það saman, færi alveg til ónýtis. Það væri og engu auðveldara að koma því að seinna, sem við lögðum aðaláhersluna á, þótt frv. væri nú felt, nema síður sje. Jeg vona, að háttv. deild verði nefndinni samdóma um, að samþ. skuli frv. óbreytt, eins og það kemur frá Ed., þótt gallað sje