30.08.1917
Neðri deild: 47. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í B-deild Alþingistíðinda. (69)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Einar Jónsson:

Jeg er nú svo heppinn, að nafn mitt er ekki bendlað við nema einar 3 brtt., sem mönnum að vísu hafa farist æði misjafnlega orð um. Skal jeg því fara um þær nokkrum orðum.

Þannig stendur á með till. á þgskj., 640, að eftir þeim upplýsingum, sem hv. fram. (M.P.) hefir gefið mjer í ræðu sinni, þá munum við taka hana aftur nú. Háttv. fram. (M. P.) hefir sem sje skýrt frá því, að í 13. gr. fjárlaganna sje einmitt fjárveiting, sem sje ætluð að nokkru leyti til að lagfæra Kambaveginn og færa til veginn úr Smiðjulaut. Svo að jeg skal ekki tala um það frekar. En það voru hjer 2 brtt., sem jeg og háttv. 2. þm. S.-M. (B. St.) fluttum, og háttv. frsm. síðari kafla fjárlaganna (B. J.) hefir ekki fallið sem best í geð. En áður en jeg fer frekar út í það vildi jeg mega spyrja háttv. þm. Dala. (B. J.), hvort hann hafi ekki lesið 4. gr. þingskapanna, þar sem mælt er fyrir, hvernig þingmenn skuli nefndir. Jeg hefi orðið var við það, að hann kallar mig ýmsum »bínöfnum«, í staðinn fyrir að kenna mig við mitt kjördæmi, eins og skyldugt er. Í svipinn man jeg eftir 3 nöfnum, sem hann hefir látið sjer sæma að nefna mig, sá góði mann. Hann hefir ýmist kallað mig »siðameistara« deildarinnar, Cicero, eða þá mentafrömuð. Þetta eru að vísu alt ljómandi falleg nöfn, og jeg get fyrirgefið það þess vegna. En eftir því sem þingsköpin mæla fyrir þá er þetta aldeilis óleyfilegt.

Þingsköpin koma beint í veg fyrir að gera þetta. En það er ekkert varið í að ræða þetta, ef hann laumast burt þegar jeg bið um orðið. Jeg gæti líka líkt honum við ýmsa menn, þótt hann sje ekkert líkur þeim. Sókrates þykir mjer offallegt, Neró ofljótt, en jeg gæti t d. sagt, að hann sje nokkura konar Jóhannes skírari, þótt ekki skíri hann í Jórdan, heldur í orðaflaumi einum; en af því, að hann er íslenskur maður og þjóðlegur, vil jeg helst líkja honum við íslenskan mann. Má þá líkja honum við mann, sem margir hafa heyrt getið, og hjet Sölvi Helgason. Hann þóttist hafa vit á öllum sköpuðum hlutum milli himins og jarðar, en var ekkert vitrari en aðrir og skeikaði stundum, rjett eins og hv. þm. Dala. (B. J.).

Háttv. þm. Dala. (B. J.) var að grenslast eftir, hvers vegna við háttv. 2. þm. S.-M. (B. St.) komum fram með brtt. á þgskj. 680. Jeg ímynda mjer helst, að fyrir báðum okkur hafi vakað, að hjer væri dálítið sparað, og auk þess vakti það fyrir mjer að minsta kosti, að þessum liðum mætti að skaðlausu fresta, og í slíkri dýrtíð lægi ekkert á að samþykkja þá. Hjer sparast þó nokkur þúsund kr., og í slíku árferði, sem nú er, má láta sig muna um minna, og ekki síst ef svo mætti líta á, sem þessir liðir væru að sumu leyti óþarfir. Annars býst jeg við, að þessir liðir verði látnir standa, eins og vanalega er um styrki til einstakra manna, enda er mjer ekkert sjerstakt áhugamál um liðina 12—16 í 15. gr. En um síðasta liðinn, 73. lið, er alt öðru máli að gegna. Það er um styrk til Bjarna míns frá Vogi, til þýðingar á Goethes Faust. Jeg áleit, að eftir úrslitum þess máls á þingi í vetur hefði stjórnin enga minstu heimild haft til að setja þessa styrkveitingu í fjárlögin. Þá var rætt um þingsályktunartill. frá 5 mönnum um að veita B. J. frá Vogi 1200 kr. á ári til þýðingar á Goethes Faust, af upphæð þeirri, er ætluð er skáldum og listamönnum. Var þá samþykt rökstudd dagskrá þess efnis, að veita þetta fje af skálda- og listamannastyrknum, en alls ekki ætlast til að taka það annarsstaðar frá. Jeg skal ekki þreyta háttv. deild með því að lesa upp till. eða dagskrána, en vona að menn sjái, að jeg fer hjer með fullrjett mál.

Það lítur út fyrir, að þegar átti að afhenda Bjarna Jónssyni þetta fje til þýðingarinnar, þá hafi skálda- og listamannastyrkurinn verið upp etinn, nema einar 400 kr. Því hafa verið teknar upp í fjáraukalögin 800 kr. til að fylla upphæðina. Jeg ljet þá upphæð í fjáraukalögunum í friði, því að jeg áleit hana svo til komna. En í fjárlögum get jeg ekki látið hana í friði, því að þar stendur hún í fullu heimildarleysi. Þegar svo greinilega stendur í þingsályktunartill. og dagskránni, að styrkinn skuli veita af skálda- og listamannastyrknum, verð jeg að álíta óheimilt að taka hann upp hjer. (Atvinnumálaráðherra: Það var ekki nema tillaga.) Það var dálítið meira, eftir þeim aths. er fylgdu, og er mjög undarlegt, að stjórnin skuli hafa misskilið það. Jeg mótmæli því, að þessi liður sje hafður hjer í fjárlögunum, og er þá betra að hækka skálda- og listamannastyrkinn. Hjer er að eins um það að ræða, að svo framarlega sem skálda- og listamannastyrkurinn endist til að upptylla þarfir þeirra, er úthlutunarnefndinni þykir eiga að bera fje úr býtum, kemur Bjarni Jónsson frá Vogi þar til greina má ske sem hver annar hæfur maður, en reynist upphæðin oflág, þá er það ráðið að hækka hana, en ekki að flytja einstaka menn inn í fjárlögin að óþörfu.

Við háttv. 2. þm. S.-M. (B. St.) höfum leyft oss að bera fram varatillögu, til þess að tryggja þó það, að eitthvað verði gætt að, hvort Bjarni gerir eitthvað að þýðingunni eða ekki. Jeg er ekki svo vel að mjer í þeim efnum, að jeg viti, hvort 150 kr. á örk er sanngjörn ritlaun, en þegar litið er á það, að venjulegt mun að borga 30 kr. fyrir svipuð verk, þá virðast 150 kr. yfrið nóg borgun fyrir örkina. Annars er jeg ekki bær að dæma um það, en vil leggja áherslu á það, að hvorki Bjarni Jónsson nje aðrir, sem falið er verk að vinna, komist hjá að vinna það, eins og dæmin hafa sýnt að ýmsir menn hafa gert, sem ár eftir ár hafa notið styrks af opinberu fje.

En svo að jeg lengi ekki umræður meir en jeg þarf, vil jeg minnast örfáum orðum á brtt. á þgskj. 679, sem við háttv. 2. þm. S.-M. (B. St.) höfum einnig flutt. Hún er við 18. gr., að veita síra Gísla Kjartanssyni 800 kr. í eftirlaun. Jeg get ekki leynt því, að mjer sárnaði við 2. umr., er þessi eini styrkþegi í 18. grein var feldur burt Maður þessi var og er sómamaður, hefir mist heilsuna, er mjög fátækur, og þeir, sem þekkja til, munu ekki telja eftir honum, þótt hann sje styrktur að þessu leyti, sjerstaklega ef þess er gætt, að eftir 18. gr. er mörgum þeim veittur styrkur, sem að vísu eiga heiðursverðlaun skilið, en eru stórríkar persónur, og hafa styrksins ekki minstu þörf. Það verður að taka tillit til þess, hvort maðurinn er illa staddur efnalega, eða hefir alls enga þörf fyrir styrk. Vona jeg, að þessi upphæð verði vel þegin, þótt hún hafi fyrir óhapp lækkað um 200 kr. frá því, sem fyrst var til ætlast, og þótt ekki sje meiri en 800 kr., býst jeg við, að manninum verði mikill styrkur að og þinginu heiður, en enginn ósómi, að hafa hlaupið hjer undir bagga.

Hjer hafa komið fram ýmsar brtt., en þær vil jeg ekki rekja, til að tefja ekki tímann, og mun jeg sýna með atkvæði mínu afstöðu mína til þeirra allra.