23.08.1917
Efri deild: 37. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1073 í B-deild Alþingistíðinda. (691)

12. mál, vegir

Frsm (Jóhannes Jóhannesson):

Jeg get að mestu leyti látið mjer nægja að skírskota til aths. við frv. þetta og nál. samvinnunefndar samgöngumála á þgskj. 516, sem jeg vona að hv. deildarmenn hafi lesið og íhugað. 1. gr. frv. hljóðar um breytingu á akbrautalagningu í Húnavatnssýslu. Í aths. við stjórnarfrv. er gerð grein fyrir, hvers vegna þessi breyting er sjálfsögð, og í nál. er skýrt, hvers vegna lögleiða verður breytinguna nú þegar. Að því er 2. gr. frv. snertir, þá liggur nauðsynin á þeirri breytingu, sem hún ræðir um, ekki eins í augum uppi, og hún er áreiðanlega ekki eins brýn. Núverandi landsverkfræðingur hefir ekki rannsakað vegarstæði þau, sem hjer gætu komið til greina, og hann hefir ekki heldur getað gert áætlanir um kostnað á brúm, sem reisa þyrfti í sambandi við breytingu þá á legu þjóðvegarins um sýsluna, sem gr. gerir ráð fyrir, og hann lítur svo á, að þessi breyting megi bíða til næsta þings. Hæstv. atvinnumálaráðherra og háttv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) hafa einnig báðir tjáð sig sammála honum í þessu atriði. Nefndin leyfir sjer því að leggja til, að 1. gr. frv. verði samþ., en 2. gr. feld að þessu sinni.