21.08.1917
Neðri deild: 39. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í B-deild Alþingistíðinda. (7)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg býst, við að fjármálaráðherrann (B. K.) muni svara því, sem honum kann að þykja athugavert við skýrslu hv. frsm. fjárhagsnefndar (M. G.), og sleppi jeg því að tala um hana. Aftur á móti ætla jeg lítillega að minnast á ræðu hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), en get þó verið fremur stuttorður, því að skýringar á mörgu því, sem hann mintist á, eru að finna í skýrslu þeirri, er stjórnin hefir þegar sent háttv. bjargráðanefnd, og á betur heima, að um það sje rætt þegar um störf hennar verður að ræða.

Skal jeg svo snúa mjer að einstöku atriðum í ræðu hv. þm. V. Sk. (G. Sv.). Hann talaði nokkuð um það, hvernig stjórnin hefði til orðið, en jeg finn enga þörf á að ræða um það nú; það hefir áður verið gert; og ekki er heldur víst neitt athugavert við það, hvernig háttv. þm. (G. Sv.) skýrði frá afstöðu sinni til stjórnarinnar.

Háttv. þm. (G. Sv.) kvað margt hafa verið fundið að þessari stjórn, bæði í þinginu og utan þings. Þetta er svo sem vitaskuld. Annað hefði mátt undrum sæta um stjórn, sem orðið hefir að framkvæma svo margt vandasamt sem þessi stjórn. Við, sem stjórnina skipum, höfum aldrei búist við öðru en að miklar aðfinslur kæmu.

Það er satt, sem háttv. þm. (G. Sv.) sagði, að margar af gerðum stjórnarinnar verða að liggja undir dómi seinni tíma, með því að ekki er hægt að fella neinn fullgildan dóm um þær að svo stöddu En ekki vil jeg viðurkenna, að hægt sje að ásaka stjórnina um vanrækslu, svo að á nokkurri sanngirni sje bygt. Það má ef til vill segja, að hún hefði átt að gera eitthvað öðruvísi en hún hefir gert; um það verða dómarnir misjafnir. En þrátt fyrir alt og alt má þó segja það nú, að þótt má ske hafi um stund vantað einhverjar nauðsynjar á einstöku stað, þá hafi það ekki leitt til verulegra vandræða, og allir hingað til komist bærilega af. Veit jeg það að vísu, að um tíma var skortur á einstöku nauðsynjavörum, einkum kolum, salti og olíu. En þess er að gæta, að svo að segja sama daginn var sökt fyrir landsstjórninni þrem skipum, sem áttu að flytja hingað kol og salt, og um sömu mundir voru tekin af henni tvö skip, sem hún hafði fengið til að ná steinolíu. Hitt mætti ef til vill sýnast undarlegt, að landsstjórnin hefir stundum keypt öllu dýrari vörur en kaupmenn, og gert þó stærri kaup en þeir. En orsök þess er þó auðskilin, ef að er gáð. Af stjórninni hefir verið heimtað að birgja landið að vörum, hvað sem það kostaði; hún hefir því orðið að sæta hverju færi að ná skipum á leigu, þótt dýr hafi verið. En kaupmenn hafa aftur á móti getað sætt lagi og fengið fyrir það ódýrari skip, einkum seglskip, en þau gat stjórnin ekki tekið á leigu til að flytja þær vörur, sem mikið lá á; það var ekki á það hættandi. Auk þess getur það hafa komið fyrir, að kaupmenn hafi stöku sinnum náð betri kaupum, af því að þeir máttu bíða eftir tækifærinu, en það mátti stjórnin ekki, og að jafnaði mun stjórnin hafa komist að eins góðum kaupum og kaupmenn á sama tíma.

Jeg held, að það þurfi ekki annað en að nefna þetta, til að sýna, hve eðlilegt það er, þótt kaupmenn hafi stundum getað selt vörur ódýrara en landsstjórnin. Landsstjórnin sjálf hefir stundum fengið vörur töluvert ódýrari með einu skipi en öðru, en sá munur hefir verið jafnaður og meðalverð verið sett á vöruna. Landsstjórnin hafði t. d. á sama tíma á leigu nýlegt skip, sem hún varð að vátryggja fyrir 1½ miljón króna, og annað skip nálega eins stórt, sem ekki var vátrygt fyrir meira en ½ miljón króna. Þegar þess er gætt, að vátryggingargjaldið hefir stundum numið alt að ?6 af skipsverðinu eða meira, þá sjest, hvílíkur feikna munur hefir verið á því fyrir þessi tvö skip. En ástandið var um þær mundir þannig, að stjórnin þorði engu tækifæri að sleppa til þess að ná í skip

Það mun reynast örðugt að sýna fram á, að landsstjórnin hafi keypt vörur dýrara en kaupmenn hafa keypt þær á sama stað og tíma; hitt mun láta sönnu nær, að hún hafi sætt fult svo góðum kaupum, enda hefir hún keypt mikið af vörum sínum fyrir milligöngu þess verslunarhúss, sem reynst mun hafa einna best til kaupa á þessum tímum, og það er allsendis ósannað, að aðrir hefðu getað keypt betur, þótt það hafi oft verið borið út.

Þá er eitt atriði, sem erfitt er að færa sönnur á, hvort stjórnin eigi nokkra sök á eða ekki; það er um það, hvort skip landsstjórnarinnar hafi tafist um skör fram í Ameríku í vetur, vegna vanrækslu hennar að senda mann í tíma til Ameríku. Það er að vísu satt, að ferð fjell þangað rjett eftir að stjórnin hafði tekið við völdum. En þá var útlitið þannig, að ekki virtist brýn þörf að senda mann þangað þegar í stað.

Skipið, sem ferðina fór, var fremur ljelegt, og mátti búast við, að menn mundu fremur tregir að fara með því á lakasta tíma árs. Þó neita jeg því ekki, að ef strax hefði verið brugðið við að fá manninn, þá hefði hann má ske fengist; um það mun enginn geta sagt með vissu. En eins og jeg sagði þá sýndist ekki full ástæða til að senda mann þá, því að enginn vissi þá annað en að skip fengju þá að ganga óhindrað til Ameríku og frá, enda læt jeg það alveg ósagt, hvort það hefði nokkuð getað stytt töf skipanna, þótt sendimaður stjórnarinnar hefði setið í Ameríku. Undir eins og stjórnin frjetti, að tregða væri að verða á með útflutninga frá Ameríku, þá fór maður fyrir hana og Eimskipafjelagið í sameiningu, til að greiða fyrir flutningum. En það er ekki rjett hjá háttv. þm. (G. Sv.), að maður þessi muni ekki hafa verið sendur með samþykki allrar stjórnarinnar. Hann gerði það að vísu fyrir mín orð og eftirgangsmuni mína að taka að sjer erindi landsstjórnarinnar, en það var með fullu samþykki samverkamanna minna, og jeg vil kveða sterkara að um mann þennan en háttv. þm. (G. Sv.) gerði. Hann sagði, að maður þessi hefði verið sæmilegur, en jeg segi, að hann hafi verið einna best til fararinnar fallinn af þeim, sem völ gat verið á, enda gerði hann mikið gagn í för sinni. Að hann var ekki lengur í þjónustu stjórnarinnar kom til af því, að hann gaf ekki kost á því.

Í sambandi við þessi ámæli háttv. þm. (G. Sv.) til stjórnarinnar fyrir að hafa ekki sent mann fyr, skal jeg geta þess, að aðrar Norðurlandastjórnir sendu sendimenn til Ameríku ekki eins fljótt eins og við. Að vísu hafa þær þar sína stjórnarsendimenn, en svo kom að lokum, að eigi þótti nægja að láta þá eina vinna að samningunum, og þá fyrst var gripið til að gera út sjerstaka sendimenn.

Það er sem sagt ekki rjett, að þessi maður hafi verið sendur með hangandi hendi, því að við vorum allir sammála um að senda hann, Það sem háttv. þm.(G.Sv.) segir um þann manninn, er seinna var sendur, að ekkert gagn sje í honum og ekki hafi verið sæmilegt að senda hann, þá held jeg, að háttv. þm. hafi þar sagt meira en hann getur staðið við. Eftir þeim skeytum að dæma a. m. k., sem nú berast að vestan, verður ekki annað sjeð en að þessi maður geri mikið gagn, enda lítur nú vel út og er það hans starfi að þakka. Eftir skeytum að dæma, bæði frá honum og öðrum, lítur út fyrir, að hann hafi unnið mikið á og ómögulegt annað að sjá en að hann reynist vel. Þar sem háttv. þm. segir, að Ísland og Gullfoss hafi komið heim hálftóm, þá er það rangt, því að Ísland var með fullfermi, en eitthvað 100 tonn vantaði til, að Gullfoss væri fullfermdur, en það kom til af því, að hann varð að fara fyr en til stóð, til þess að komast úr höfn áður en útflutningsbannið gekk í gildi, þ. 15. júlí. Að vísu var sagt í einhverju blaði, að skipin hefðu ekki verið fullfermd, en það var leiðrjett seinna.

Háttv. þm. (G. Sv.) sakar ekki stjórnina um útvegunarleysi á steinolíu og kolum, og er það mjög sanngjarnt, en hann taldi hana hafa reitt sig um of á viðkomandi fjelög, er hafa haft þessar vörur á boðstólum. Steinolíuleysið og kolaleysið kom nú reyndar ekki svo mjög af því, heldur hinu, að skipum þeim, sem stjórnin hafði í förum, var sökt eða þau tekin af henni.

Þá taldi háttv. þm. skipakaup stjórnarinnar óhagstæð. Ef nokkur ásökun er ósanngjörn, þá er það þessi. Jeg held, að stjórnin hafi komist að svo hagfeldum skipakaupum, sem hægt er með nokkurri sanngirni að búast við. Það er að minsta kosti áreiðanlegt með 2 fyrstu skipin, því að þegar eftir að búið var að kaupa þau var boðið í þau miklu meira verð. Um síðasta skipið skal jeg geta þess, að á því þótti gott kaup í Kaupmannahöfn, og sá maður, sem seldi stjórninni það, ljet fyrir litlu meira verð en hann keypti það fyrir. Jeg get ekki viðurkent, að stjórnin eigi ámæli skilið fyrir það, að skipakaupin drógust lítið eitt. Það kom til tals með eitt danskt skip, sem þá var á Spáni, en skipið var skuldbundið til að sigla fyrir Englendinga, og var ekki betra en Willemoes. Það getur verið, að kaup á þessu skipi hafi farist fyrir vegna þess, að stjórnin vildi ekki gefa sendimanni sínum þegar í byrjun umboð til að kaupa skip fyrir hvaða verð sem var. Það er jafnvel óvíst, hvort kaupin hefðu tekist, þótt hann hefði haft fult umboð, en annars var það enginn skaði, að þau fórust fyrir. Jeg held, að ef háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hefði haft fyrir því að kynna sjer skýrslu um skipakaupin, sem gefin hefir verið bjargráðanefnd, hefði honum ekki fundist skipakaup stjórnarinnar óhagstæð, því að jeg staðhæfi, að þau sjeu svo góð, sem hægt er að búast við með nokkurri sanngirni. Já, háttv. þm. sagði, að mönnum hafi þótt margt fara í handaskolum hjá stjórninni út á við, án þess að hann vildi sjálfur nokkurn dóm á það leggja, en þó hefði mönnum þótt kenna enn meira fálms inn á við. Það verður auðvitað altaf, þegar svo stendur á sem í vetur, að dómarnir verða misjafnir, einkum ef ekki er hægt að skifta alveg jafnt, og stjórnin reynir að láta helst vörur þangað, sem þörfin er mest. Það hefir verið fundið að því, að ofmikið af vörum hafi verið flutt inn á Húnaflóa, en það var gert af íshræðslu, því að útnorðurströnd landsins getur, sem kunnugt er, lokast alveg af ís. Um þetta mætti náttúrlega deila fram og aftur. Jeg get ekki viðurkent, að þetta hafi verið neitt fálm. Við reyndum að vísu að koma vörunum þangað, sem við álitum brýnasta þörfina, og það var altaf falið sveitarstjórnunum að skifta heima í hjeruðunum, og þá sneri stjórnin sjer altaf til sýslumanna og bæjarfógeta, sem umboðsmanna landsstjórnarinnar. Hvort þetta hefir mistekist. Ja, það getur verið. Sveitarstjórnirnar eru misjafnar; sumar hafa þótt gera oflítið, en aðrar ofmikið. Þar sem háttv. þm. (G. Sv.) spyr, hvers vegna hafi verið talið, hve miklar birgðir menn áttu, þá get jeg ekki sagt vel um það; það var gert meðan jeg var erlendis. Annars virðist mjer sú ráðstöfun ofur eðlileg. Þar sem háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) er svo trúaður á, að tekjuskýrslur sjeu altaf gefnar rjettar, þá finst mjer það undarlegt, að þessi sami háttv. þm., sem álítur, að menn gefi altaf rjettar skýrslur um tekjur sínar, skuli álíta, að á þessum skýrslum sje ekkert að byggja. Hitt, sem háttv. þm. sagði, að þetta hefði verið óþarft og nær að spyrja menn að, hvað þeir þyrftu, þá var þess ekki þörf, því að það er hægt að sjá af hagskýrslunum, sem við bygðum á.

Þá fann háttv. þm. að því, að landssjóðsversluninni hafi verið blandað saman við eina deild stjórnarráðsins. Það er rjett, að svo hefir verið frá því fyrsta, og jafnvel blandað saman við 2 deildir. Þegar núverandi stjórn tók við völdum, var henni þegar ljóst, að þessu þyrfti að breyta, en það var ekki hægt á einu augnabliki. Við vorum búnir að ákveða að aðskilja verslunina frá stjórnarráðinu löngu áður en þing kom saman, en jeg skal játa það, að það komst ekki til framkvæmda fyr en rjett fyrir þing. Það má deila um, hvort ekki hefði átt að vera búið að gera þetta fyr, en það er enginn hægðarleikur að greina þetta sundur á augnabliki. Það var búið að ákveða að gera það áður en bjargráðanefndirnar fóru að eiga við það mál, svo að það þurfti ekki að koma með þá till., sem samþykt var.

Þá kvartaði háttv. þm.V.-Sk. (G.Sv.) undan því, að stjórnin hefði verið kaupmönnum andstæð. Það kannast jeg alls ekki við, því að stjórnin hefir greitt fyrir þeim eins og hún hefir getað. Það var einu sinni misskilin auglýsing frá stjórninni, en það var leiðrjett, svo að það kom ekki að sök. Stjórnin hefir altaf reynt að flytja vörur fyrir kaupmenn á skipum sínum, þegar hún hefir getað, og reynt að greiða fyrir þeim á alla lund. Hún hefir jafnvel látið sínar vörur sitja á hakanum fyrir vörum kaupmanna, því að hún hefir orðið því fegin, að kaupmenn hafa flutt vörur til landsins og þannig losað stjórnina við að ráðast í stærri vörukaup en ella og sparað henni að hleypa landinu í meiri skuldir vegna vörukaupa. Út í það, sem háttv. þm. sagði um blöðin, ætla jeg ekki að fara. Sem sagt, jeg held, að kaupmenn hafi enga ástæðu til að kvarta undan stjórninni. Það skyldi vera, ef sýslumenn og sveitarstjórnir hafa ráðstafað vörunum beina leið til sveitanna og gengið fram hjá kaupmönnum, en það finst mjer, að þeir hafi haft fullan rjett til. Stjórnin hefir alls ekki gengið á rjett kaupmanna, þótt hún hafi selt vörur, sem lítið var til af, eftir seðlum eða skamtað þær.

Jeg býst við, að fjármálaráðherra (B.K.) svari þeirri athugasemd háttv. þm. V.-Sk (G. Sv.), að stjórnin hafi vanrækt að sjá fjárhag landsins borgið. Jeg hefi oft sagt, að jeg áliti, að stjórnin yrði ekki ásökuð fyrir það, þótt hún leggi ekki fyrir frv. um marga nýja skatta, því að jeg hefi litið svo á, að ekki væri ósæmilegt að bjarga sjer frá tekjuhallanum með lánum. Mjer hefir virst þessar tilraunir þingsins til að útvega meiri skatta vera meira og minna fálm. Það er að eins eitt frv., sem stjórnin hafði hugsað sjer að koma fram með, og það er frv. um tekjuskatt, og þá ef til vill í öðru formi en háttv. fjárhagsnefnd. Það kom til tals milli okkar að reyna að ná í skatt af sjerstökum dýrtíðargróða, eins og víða annarsstaðar á sjer stað, því að hann er stundum ranglátur eða þá svo mikill, að af honum mætti taka. Það gengur í líka átt og tekjuskattsfrumvarpið, og verður næstum því eðlilegra, eins og nú stendur á. Hitt er mikið spursmál, hvort rjett er að leggja á aðra nýja skatta eða tolla, enda fann háttv. þm. (G. Sv) ekki að því, að stjórnin hefir ekki komið með ný skatta- eða tollafrumv. Hann kvaðst vel skilja, að stjórnin hefði treyst á lán, en mjer virtist hann finna að því, að hún hefði ekki skýrt beinlínis frá því, að svo hefði verið. Náttúrlega er hægt fyrir hann að fá lánsheimild í fjárlögunum, eða nota lánsheimild landsverslunarinnar.

Jeg skal svo vera stuttorður um einstök atriði, sem háttv. þm. fann að. Mjer finst það ekki hafa verið neitt glapræði af stjórninni, þótt það hafi komið fyrir, að hún hafi sett góðan mann í stað hæfs, og álít ekki, að hún þurfi að bera neinn kinnroða fyrir það.

Þá talaði háttv. þm. um, að það væri óheppilegt, að stjórnin gæti ekki haldið mönnum við verslunina. Já, það er erfitt að fá góða menn, það er alveg rjett, en jeg sje ekki ástæðu til að fara lengra út í það mál, því að mjer þykir leitt að vera að draga einstaka menn, sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sjer, inn í þessar umræður. Jeg mun skýra nánar frá þessu atriði síðar og gef þá fullkomna skýringu á því, en taldi betra að fara ekki langt út í það mál að svo komnu. Að eins vil jeg geta þess um þennan mann, sem nú er nýráðinn, að hann er í mjög miklu áliti, þótt ungur sje. Hann hefir fengið sjerstakan styrk til að kynna sjer einmitt þessi mál, sem sje allar dýrtíðarráðstafanir á Norðurlöndum. Hann var áður á skrifstofu stjórnarráðsins í Kaupmannahöfn, og var þar í mjög miklu áliti.

Jeg þykist að svo komnu máli ekki þurfa að svara háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) frekar, og læt því hjer staðar numið. Að öðru leyti er jeg honum þakklátur fyrir hóglegar aðfinslur og þykist ekki að svo stöddu þurfa að gefa frekari skýringar.