30.08.1917
Neðri deild: 47. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Þorsteinn Jónsson:

Jeg vil minnast örfáum orðum á brtt. á þgskj. 647, fyrir hönd samgöngumálanefndar. Það er efni till., að lagt verði síðara ár fjárhagstímabilsins til brúargerðar á Hofsá alt að 16,000 kr., gegn því, að ? kostnaðarins komi annarsstaðar frá. Eins og menn muna bárum við þm. N.-M. fram frumv. um það hjer í þinginu fyrir nokkru, að landið kostaði brýr á Hofsá og Selá í Vopnafirði að ? hlutum. Þessu frv. var vísað til samgöngumálanefndar, og eftir að hafa athugað það komst hún að þeirri niðurstöðu að láta frv. ekki ganga fram, en leggja til að veita í fjárlögum þessa upphæð, 16,000 kr., til brúar á Hofsá síðara árið. Get jeg lýst yfir því, sem annar flutnm. frumv., að jeg sætti mig við, að frumv. nái ekki fram að ganga ef þessi fjárveiting verður samþykt; Samgöngumálanefndir beggja deilda samþyktu þetta á fundi sínum með öllum atkv. gegn 2. Þær þóttust sjá, að nauðsyn þessarar brúar væri brýn, þar sem þessi á er ein meðal verstu vatnsfalla, og þriðja stærsta á öllu Austurlandi, og auk þess á þeirri leið, þar sem mestur er fólksstraumur milli Norðurlands og Austurlands, og rennur um annað fjölmennasta hjerað Austurlands. Auk þess er það, eins og jeg hefi tekið fram áður hjer í deildinni, að árlega hlýst mikið tjón af því, að áin er óbrúuð. Í henni ferst árlega margt af sauðfje, þar sem hjeraðsmenn austan árinnar verða að reka fje sitt yfir hana vor og haust, er þeir reka á afrjettina og af henni aftur. En um það leyti, er þeir reka á afrjettina á vorin, er áin ófær, og verður þá annaðhvort að reka fjeð á sund eða ferja það yfir, en ferjustaðir eru afarslæmir. Er það yfir 6000 fjár, sem yfir hana er rekið á hverju vori. Þeir, er versla í Vopnafjarðarkaupstað, verða að reka á sund eða ferja sláturfjeð yfir hana á haustin. En það eru ekki einungis íbúar Vopnafjarðarhjeraðs, heldur og margir Úthjeraðsmenn, sem reka fje þangað og bíða tjón af völdum árinnar.

Annars var jeg búinn að taka fram áður helstu ástæður fyrir brúargerð þessari, og skal ekki taka þær upp aftur, en vil geta þess, að meiri hluti fjárveitinganefndar er brtt. hlyntur. Auðvitað getur svo farið, að engar brýr verði bygðar á næsta fjárhagstímabili, þar sem efni er dýrt og sumpart með öllu ófáanlegt, og fer þá auðvitað um þessa brú sem aðrar.

Jeg sje, að hjer liggja fyrir brtt. um brýr, sjerstaklega á Norðurlandi. Ekki færri en tvær stórbrýr í þeim landshluta voru ákveðnar í fjárlögunum við 2. umr., brýrnar á Hjeraðsvötnin og Eyjafjarðará, svo að jeg vænti, að háttv. deild telji efasamt, hvort rjett sje að veita nú fje til fleiri stórbrúa á Norðurlandi, en telji sanngjarnt, að Austfirðingar beri eitthvað úr býtum í þessu tilliti, þar sem Alþingi hefir aldrei veitt fje til stórbrúa á Austurlandi, nema Lagarfljótsbrúarinnar.

Þá hefi jeg flutt brtt. á þgskj. 670, um að hækka styrk til Sigfúsar Sigfússonar á Eyvindará. Jeg tók fram við 2. umr., hver væri ástæðan til, að honum væri veittur styrkur, og er hún sú, að þessi maður hefir varið mestum tíma sínum til að safna alþýðlegum íslenskum fræðum, og heldur því enn áfram á gamals aldri. Þingið hefir oft sýnt og sýnir nú enn, að það er örlátt á styrki til rithöfunda og slíkra manna. Vil jeg síst lasta það, en finst þingið jafnan smátækara, ef rithöfundurinn er ekki í lærðra manna tölu, heldur alþýðlegur fræðimaður, sem unnið hefir baki brotnu fyrir lífsuppeldi sínu, og varið frístundum sínum frá vinnu í þarfir þjóðlegra fræða. Hækkunin er svo lítil, að jeg vona, að menn samþykki aðaltill., um 200 kr. hækkun, eða þá að minsta kosti varatill., um 100 kr. hækkun.

Þriðja brtt., sem jeg er einn af flutningsmönnum að, er á þgskj. 678, og fer fram á utanfararsyrk til Jóns Sveinssonar, lögræðinema, til að leggja stund á fjármál. Óskar hann þess að geta notið þessa styrks, er hann hefir væntanlega lokið lögfræðiprófi að vori komanda. Jeg hefi talað við háttv. 2. þm. Árn., prófessor Einar Arnórsson, kennara hans, og er hann einn meðflutningsmaður að till. Telur hann hann mjög efnilegan mann, og rjett af þinginu að styrkja hann. Jeg skal geta þess, að jeg þekki þennan mann persónulega. Hann er óvenjulega duglegur maður. Hann hefir komist þetta áleiðis við nám, bláfátækur, af eigin ramleik, og aldrei notið neins styrks, nema venjulegs námspiltasyrks. Síðustu árin hefir hann stundað útgerð á Austfjörðum á sumrin og rekið hana af miklum dugnaði.

Það hefir mikið verið talað um það að lagfæra þyrfti bankana, og þætti mjer því líklegt, að þeim, sem hæst tala um það, væri það líka áhugamál að stuðla að því, að þekking aukist í landinu á þeim málum, og veittu því þessum manni styrk til að kynna sjer þau fræði.

Jeg skal að lokum geta þess, að fái Jón Sveinsson þennan styrk, þá hefir hann hugsað sjer að fara til Ameríku til að afla sjer haldgóðrar fjármálaþekkingar.