07.08.1917
Efri deild: 24. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í B-deild Alþingistíðinda. (729)

17. mál, slysatrygging sjómanna

Halldór Steinsson:

Hæstv. forsætisráðherra hefir rakið flest það, er jeg vildi sagt hafa.

Frumv. það, er hjer um ræðir, er talsverð bót á vátryggingarlögunum frá 1909, og með því tekin fram flest þau ákvæði, sem undanfarin þing álitu nauðsynleg til endurbótar á nefndum lögum. Það má ef til vill segja, að frv. fari ofskamt. En þess ber þá að gæta, að hjer verður að fara varlega, til þess að íþyngja ekki sjóðnum eða þeim, sem iðgjöldin koma niður á. Frv. þetta hefir nú verið athugað, og um för þess þangað verð jeg að segja, að þar er ver farið en heima setið. Nefndin vill gera margar breytingar á frv. Sumar þeirra eru orðabreytingar, sem jeg get felt mig við. En um efnisbreytingarnar er það að segja, að flestar þeirra stórspilla frumvarpinu. Jeg skal minnast á þrjár hinar helstu.

Fyrst er sú brtt. gerð við 3. gr., að fyrir 8 komi 12, 10 komi fyrir 20 og 15 fyrir 25. Jeg get felt mig við þessar breytingar, að því er kemur til 8— 12 smálesta báta. En brtt. fer lengra; hún vill láta vátryggingarhækkunina ná alla leið niður til róðrarbáta, og það finst mjer afleitt. Því að 8 smál. bátar þola betur þessi útgjöld en róðrarbátar.

Jeg varð hissa, er frsm. (M. K.) taldi 19. brtt. ekki stórvægilega breytingu. Mjer finst hún einmitt vera mjög stórvægileg. Eftir frv. á að greiða fyrir slys, sem hljótast af atvinnurekstri sjómanna. En samkvæmt brtt. nefndarinnar á maðurinn að vera trygður fyrir hverskonar slysum, sem hann verður fyrir á tryggingartímabilinu. Með þessari brtt. finst mjer vera farið fram hjá tilgangi frv., sem að eins gerir ráð fyrir að tryggja menn gegn slysum, sem hljótast af sjávaratvinnu þeirra. Jeg get ekki sjeð t. d., að komið geti til mála að bæta sjómann, sem hrapaði í kindaleit uppi í fjalli. Slíkt slys kæmi ekkert við atvinnu hans sem sjómanns. Jeg býst við, að gera megi ráð fyrir hærri tryggingu landssjóðs og hærri iðgjöldum, ef þessi brtt. verður samþykt. En hvorugt finst mjer gerlegt.

Þá er næst 24. brtt., sem á við 5. gr. og kveður svo á, að systkin hins látna eigi rjett til skaðabóta. Þessa brtt. álít jeg spilla frv. Það var og er mín skoðun, að það væri til bóta, að þetta ákvæði var felt úr lögunum frá 1909 í frv. stjórnarinnar. Eftir eðli málsins virðist ekki geta komið til mála að aðrir erfi hinn látna en þeir, sem hafa verið á framfærslu hans eða framfært hann að einhverju leyti. Slíkt kemur að vísu fyrir um systkin, en það er mjög sjaldgæft. (K. E.: Mjög algengt). Nei, það er ekki mjög algengt. Jeg þekki vel til þessara mála af eigin reynslu, því að í Snæfellsnessýslu hafa nú á síðari árum verið mjög tíðar drukknanir, og jeg hefi iðulega orðið fyrir því að innheimta vátryggingargjaldið og afhenda það aðstandendum. Ef það hefir komið fyrir, að systkin hins látna hafi fengið skaðabætur, hefir þeim komið það algerlega á óvart, og talið þetta hvalreka, sem þau áttu ekki von á.

Sem sagt, brtt. nefndarinnar stefndu flestar að því að gera frv. óaðgengilegt, og vona jeg því, að þær verði feldar, því að slysatryggingarmálið sjálft er svo mikilsvert, að þær mega ekki verða því að falli.

Þessar brtt. nefndarinnar tel jeg að spilli frv., og fer mikið eftir því, hvernig atkvgr. um þær fellur hjer í hv. deild, hvort jeg ber fram brtt. við þriðju umr. frv. eða ekki.