30.08.1917
Neðri deild: 47. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Björn Kristjánsson:

Jeg á hjer brtt. á þgskj. 710. Hún er svo til komin, að á þinginu 1915 var veitt fje til að koma upp húsi yfir listasafn Einars Jónssonar, myndhöggvara. Þessi upphæð, sem veitt var, var 10 þús. kr. Nú kom það þegar í ljós, að ekki voru tiltök að byrja á byggingunni með svo lítilli upphæð. Þá var það, að nokkrir menn, sem áhuga höfðu á þessu máli, fóru þess á leit við stjórnina, að byrjað yrði á verkinu, ef 10 þús. kr. fengjust í viðbót við fjárveitinguna. Stjórnin varð við þessum tilmælum, með því skilyrði, að 20 þús. kr. kæmu annarsstaðar frá. Nú söfnuðust þessir peningar, og gekst yfirdómslögmaður Oddur Gíslason fyrir þessum samskotum. Þrátt fyrir þetta komst húsið ekki upp, af því að landssjóður tók efnið til annars. Samt sem áður gera gefendurnir enga kröfu til að fá fjeð aftur, en þeir eiga sanngirniskröfu til þess. Þess vegna hefi jeg komið fram með þessa breytingartillögu. Aðalkrafa mín er sú, að alt fjeð verði borgað aftur. Flestir gefendur gáfu 500 kr. hver, en einn gaf 7000 kr. og annar 1000 kr. Varatillaga mín er þá, að þessum tveimur mönnum verði borgað til baka, öðrum 6500 kr. en hinum 500 kr., svo að þeir leggi jafnt til og aðrir. Jeg geng raunar út frá því sem vísu, að sá maðurinn, sem gaf 7000 kr., tæki ekki sjálfur við peningunum, en myndi afhenda þá Einari Jónssyni. Jeg hefi heyrt sagt, að fjárveitinganefndin sje mótfallin aðaltillögu minni, en vona, að hún sje samþykk varatillögunni.

Þá á jeg hjer líka aðra tillögu á sama þgskj., sem. fer fram á, að Sigurður Eiríksson, regluboði, fái 500 kr. í fjárlögunum, í stað þess, að hann hefir áður haft 300 kr. Þessi maður er nú orðinn aldraður, er heilsubilaður og fátækur, en dýrt að lifa nú, eins og allir vita. Jeg vona, að enginn hafi á móti þessari tillögu, þar sem aðrir líkir styrkir hafa nú verið hækkaðir nokkuð svipað þessu.

Jeg rek mig hjer á aðra tillögu, þar sem ætlast er til þess, að stórstúkan missi allan styrk, en að Sigurður fái í þess stað 1000 kr. Jeg verð að vera á móti þessari tillögu, bæði af því, að jeg vil, að stórstúkan fái þann styrk, sem hún hefir haft, og líka af því, að jeg veit, að Sigurði er engin þökk á þessu. Jeg vona, að allir verði minni tillögu samþykkir, því að það er alkunnugt, að þessi maður hefir unnið mestan hluta æfi sinnar í almennings þarfir.

Þá á jeg hjer enn eina brtt., um að læknirinn í Keflavík fái styrk til að halda aðstoðarlækni yfir vetrarvertíðina. Í hjerað hans sækir um þann tíma fjöldi af fátækum sjómönnum, og er þar því ærið að starfa fyrir lækninn, en ekki eins mikið í aðra hönd. Læknirinn hefir orðið undanfarin ár að taka aðstoðarlækni um þennan tíma á eigin kostnað, enda er maðurinn orðinn gamall. Jeg skal geta þess, að jeg hefi borið þetta undir landlækni, og hefir hann fremur lagt á móti því, að þetta væri veitt, en það mun vera af því, að hann álítur lækninn hafa nóg efni til að borga þetta fje úr eigin vasa. Þar til er því að svara, að það myndi vera fjárhagslegur hagnaður fyrir landið að veita þennan styrk, fremur en að læknirinn segði af sjer embætti, því að þá fengi hann eftirlaun, sem eru um 1000 kr. eða meira.

Jeg skal ekki gera tillögur nefndarinnar að umræðuefni í þetta sinn. En af því, að fáir munu þekkja Frímann B. Arngrímsson, þá skal jeg nota tækifærið til þess að mæla með styrkveitingunni til hans. Þótt maðurinn sje einkennilegur, þá veit jeg, að hann er mjög gáfaður og fjölfróður. Jeg þekti til hans fyrir mörgum árum þegar hann var í Edinborg, og vissi, að hann var þá sístarfandi við efnafræðistörf og mjög áhugasamur við verk sín. Jeg teldi það mjög æskilegt, að þessi maður sem hefir óverðskuldað soltið mikinn hluta æfinnar, fengi nú einhvern tíma að njóta hæfileika sinna, og að hann geti starfað í næði að áhugamálum sínum, þjóðinni til nytsemdar. Þá mun það sannast, að hann lætur enn eitthvað gott af sjer leiða. Því miður er styrkurinn altof lítill til þess, að nokkuð verulegt verði fyrir hann gert.

Jeg skal svo ekki minnast á fleira að þessu sinni.