07.08.1917
Efri deild: 24. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1098 í B-deild Alþingistíðinda. (731)

17. mál, slysatrygging sjómanna

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Jeg verð að biðja háttv. þingdeild afsökunar á því, þótt jeg geti ekki verið mjög stuttorður. Það hefir verið beint svo mörgum skeytum til nefndarinnar, að það hlýtur að taka töluverðan tíma að svara þeim, og ef andmælendum mínum þykir jeg tala langt mál, þá mega þeir kenna sjálfum sjer um það.

Jeg ætla mjer þá fyrst að víkja máli mínu að háttv. þm. Snæf. (H. St.); það er í raun og veru fljótgert, því að þar var litlu að svara öðru en því, er hæstv. forsætisráðherra tók fram.

Þá vil jeg geta þess, máli þessu til skýringar, að þessi háttv. þm. (H. St.) hefir komið svo fram í samvinnu þeirri, er jeg hefi átt við hann um vátryggingu sjómanna, að það hefir sannfært mig um það, að hann hefir litið fremur smáum augum á málið. Það má svo heita, sem hann hafi verið þröskuldur í vegi fyrir framgangi þess á undanförnum þingum; hann hefir líklega borið svo mjög fyrir brjósti hag einhverra manna á Snæfellsnesi og viljað forða þeim frá greiðslunni. Jeg man það, að þegar við unnum saman 1913, þá strandaði alt á því, að ekki var við það komandi, að nokkurt gjald yfirhöfuð væri lagt á nokkurn mann, sem sjávarútveg stundar á smærri förum (H. St.: Þetta er tómt bull), en — verður skiljanlegt, er þess er gætt, hvernig sjór er stundaður í kjördæmi þm.

Háttv. þm. Snæf. (H. St.) gerði svo mikið úr því, hve mikil meinloka það væri hjá nefndinni, að umkomulausir ættingjar manns, sem fyrir slysi yrði, fengi nokkrar skaðabætur, ef hann slasaðist ekki á skipsfjöl. Og hann kom með það dæmi, hvort nokkur sanngirni væri í því að greiða skaðabætur fyrir mann, sem hrapaði í klettum. Jeg verð að segja það, að hann gat ekki komið með heppilegra dæmi til þess að eyðileggja málstað sinn. Maðurinn getur verið sendur frá skipi til þess að ná í ís eða snjó, svo að hægt sje að frysta beituna, og getur maðurinn þá orðið fyrir slysi á því ferðalagi. Háttv. þm. (H. St.) ætti að hafa vit á því, að slíkar ferðir eru farnar í þarfir útgerðarinnar, og oft ekki síður vegna hagsmuna skipshafnarinnar. Nú á eftir grundvallarreglu hæstv. forsætisráðherra og háttv. þm. Snæf. (H. St) að svifta nákomin skyldmenni þessa manns skaðabótunum. Þarna geta menn sjeð, á hve góðum rökum þessi regla er bygð, og hversu rjettmætt það er að viðhafa óviðurkvæmileg orð í garð nefndarinnar.

Þá er annað, sem iðulega kemur fyrir, að maður verður fyrir slysi við að setja út skip. Það er vinna, sem líka er í þarfir skipseiganda eða útgerðarmanns, og á mjög illa við að útiloka mann frá skaðabótum í slíkum tilfellum.

Enn fremur sagði háttv. þm. Snæf. (H. St.), að svo liti út, sem það væri ver farið en heima setið, að þetta mál hefði farið til nefndarinnar.

Þetta ber alt að sama brunni; það er það sama og hæstv. forsætisráðherra sagði, að eins með nokkuð öðrum orðum, svo að það er ekkert púður, sem hann hefir fundið upp með þessu. En af því að háttv. þm. Snæf. (H. St.) kom ekki með neitt, sem beinlínis snerti málið, vil jeg ekki eyða fleirum orðum um þá ræðu. Jeg skal að eins geta þess, að það, sem nefndinni hefði orðið fundið til foráttu eftir hugsanagangi hans, var það, að hún hækkaði gjaldið úr 10 aurum upp í 20 aura á sumum útgerðarmönnum. En jeg verð að koma að því aftur, þegar jeg svara hæstv. forsætisráðh., svo að jeg skal ekki tala frekar um það að sinni.

Jeg hafði alls ekki búist við því af hæstv. forsætisráðherra, að hann mundi láta vanþóknun sína á starfi nefndarinnar í ljós með jafnsterkum orðum og hann gerði. Jeg hefði ekki getað búist við því frá honum, eftir að nefndin hefir athugað málið jafngaumgæfilega, og jeg held að jeg verði að leyfa mjer að segja það, að ef óvilhallir menn ætti að gera upp á milli þekkingar stjórnarráðsins og nefndarinnar á málinu, þá sje ekki víst, að nefndin yrði fyrir neinum halla. Jeg geri ráð fyrir, að stjórnarráðið hafi lítið starfað að þessu máli; það hafi fengið einhvern ungan mann, vel að sjer í tölvísi og fleiru þess háttar til þess að semja frumvarpið. En það þarf áreiðanlega meira til þess að ganga vel frá frumvarpi, sem grípur jafnmikið inn í líf þjóðarinnar sem þetta. Og jeg hygg, að nefndarmenn sjeu alveg eins vel bærir að dæma um þetta mál eins og hver ráðherra fyrir sig, eða eins og sá maður, sem stjórnarráðið hefir fengið til að semja frv., sem að öllum líkindum vantar alla lífsreynslu í slíku máli. Með þessu tel jeg fullsvarað því, að nefndinni hefir verið brugðið um þekkingarskort í þessu máli.

Hæstv. forsætisráðherra var að tala um það, að hann hefði getað skilið það, ef nefndin hefði tekið upp alt aðra stefnu en þá, er stjórnarráðið hefði fylgt, sem sje þá, að leggja alt á útgerðina sjálfa; en það var engin von, að nefndin treysti sjer til að gera það, úr því að stjórnarráðið sjálft treystist ekki til þess. En nefndin gerði annað, hún lækkaði gjaldið á nokkrum útgerðarmönnum til þess að fá vit og samræmi í flokkunina. (Forsætisráðh : Þar sem síst skyldi).

Þá var eitt, sem mig furðaði stórkostlega á; hæstv. forsætisráðherra lagði þá spurningu fyrir nefndina, hvernig hún hugsaði sjer það ef maður stryki af skipi og yrði fyrir slysi á þeirri strokuferð, hvort þá ætti að greiða skyldmennum hans skaðabætur. Jeg hygg, að um leið og maðurinn strýkur af skipi, þá hafi hann rofið skipsráðninguna og rjettur til skaðabóta því fallinn af sjálfu sjer, og þessi ástæða sje því veigalítil.

Jeg þarf ekki að fara mjög mikið inn á það, sem haldið hefir verið fram, að nefndin hafi raskað grundvelli frv., því að jeg hefi áður svarað því atriði í ræðu háttv. þm. Snæf. (H. St.).

Nefndin hefir ekki gert sig seka í neinu því, er geti ruglað grundvelli frumvarpsins, eða geti bakað sjóðnum frekari útgjöld en þau, sem sjálfsögð eru og óhjákvæmileg, til þess að telja megi, að hann geri skyldu sína. Jeg get ekki sjeð, að það sje annað en einmitt þetta, að hún hefir viljað, að lögin yrðu sem mannúðlegust í framkvæmdinni í alla staði, að nákomnir ættmenn þyrfti ekki að vera sviftir skaðabótum, jafnvel þótt með einhverjum málafærslukrókum væri hægt að heimfæra það eftir lögunum, að ekki þyrfti að greiða þær. Ef einhver maður hefði greitt iðgjöld sín í þennan sjóð, ef til vill í 30—40 ár, þá vildi nefndin ekki, að ættmenn hans, sem lifðu hann, þyrftu að verða af skaðabótunum, vegna ómannúðlegra og óviðeigandi ákvæða í lögum þessum.

Menn hljóta að skilja það, að þessu máli víkur dálítið öðruvísi við heldur en vanalegri líftryggingu. Menn, sem tryggja líf sitt í almennu, útlendu lífsábyrgðarfjelagi, geta átt það víst, að upphæðin verði borguð að þeim látnum; en hjer er því svo fyrir komið, að menn geta orðið að borga meira en bæturnar geta orðið, án þess að þeir, eða skyldmenni þeirra, fái nokkru sinni einn eyri af því.

Það er því afarmikill munur á því, hvort maður er trygður í fjelagi, sem hann veit að fyr eða síðar verður að standa skil á því, sem greitt hefir verið, eða hann borgar í sjóð, sem miklu meiri líkur eru til að aldrei þurfi að greiða nokkurn eyri aftur.

Jeg býst við, að nefndin geri það ekki að miklu kappsmáli, hvort ákvæðið um hækkun á landssjóðsábyrgðinni verður látið standa, eða hvort það verður felt, en allar hinar brtt. eru henni kappsmál, vegna þess, að við nákvæma yfirvegun hefir hún komist að þeirri niðurstöðu, að þær sjeu til mikilla bóta. Og einkennilegt væri það, ef hv. deild neitaði þeim um fylgi sitt, jafnvel þótt hún viti það, að stjórninni er þetta eitthvað á móti skapi.