07.08.1917
Efri deild: 24. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í B-deild Alþingistíðinda. (734)

17. mál, slysatrygging sjómanna

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg skil aths. hv. þm. Ísaf. (M. T.) mjög vel. Og ef til vill hefði verið rjettast að orða svo í frv., að bætur skuli vera greiddar fyrir öll slys, er leiddu af atvinnunni sjálfri. En þetta hefir ekki verið sett inn í frv. sökum þess, hve örðugt er að segja um, hvaða slys hafi leitt beinlínis af atvinnunni. Að öðru leyti var þessi aths. hans alveg rjett, og í raun og veru í fullu samræmi við anda laganna.

Þá er hitt atriðið, að systkin fái að njóta góðs af bótunum. Það er hugsanlegt, að sú breyting yrði til bóta, þó að jeg efist um, að rjett sje að taka tillit til annars en beinnar línu upp og niður. Tilfellin eru ekki mörg þar sem sjerstaklega væri ástæða til þessa, en hins vegar er það kunnugt, að bætur hafa oft lent hjá systkinum, þar sem engin ástæða var til þess. Þau hafa ef til vill aldrei notið neins styrks frá hinum látna manni og alls ekki átt von á neinum bótum og alls ekki þurft þeirra með. Jeg býst við, að mjer sje eins kunnugt um þetta atriði og hverjum öðrum. Tilfellin hafa verið svo mörg hjer í Reykjavík, og mjer er vel kunnugt um, hverjir hafa hlotið skaðabæturnar. Mín reynsla, sem áreiðanlega er fult eins mikil og háttv. framsm. (M. K.), bendir því ótvírætt í þá átt, að frv. stjórnarinnar sje það rjettlátasta, sem bent hefir verið á í þessu máli.