07.08.1917
Efri deild: 24. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í B-deild Alþingistíðinda. (739)

17. mál, slysatrygging sjómanna

Frsm. Magnús Kristjánsson:

Umræðurnar eru nú orðnar nokkuð langar um þetta mál, svo að jeg skal reyna að vera stuttorður, en mig langar einungis til þess að nefna dæmi, mínum málstað til stuðnings, fyrst að menn eru á annað borð farnir að minnast á dæmi úr lífinu.

Þess er þá fyrst að minnast, að þetta afleita ákvæði um, að foreldrar eigi ekki að fá bætur fyrir syni sína, nema þau hafi verið á framfæri hins látna. Því að sannleikurinn er nú sá, að foreldrar senda varla syni sína til sjósókna nema af brýnni þörf. En þá er vanalega litið svo á, að þeir sjeu á framfæri foreldranna, en ekki öfugt. Og ef þeir falla frá, þá standa foreldrarnir oftast stuðnings- og bótalausir eftir. Þetta hefir nefndin ekki viljað. Henni finst það muni vera nóg hugraun fyrir foreldra að missa börn sín, þó að ekki sje stuðlað að því, að þau þurfi að fara á vonarvöl á eftir. Sama er að segja um þann órjett að svifta systkinin rjettinum til að fá bætur. Jeg get minst á það dæmi, er roskinn maður, sem á son á tvítugsaldri, kvænist í annað sinn. Hann deyr síðan frá konunni og fjórum börnum í ómegð, en ef sonurinn, sem hefir unnið fyrir systkinum sínum, druknaði, þá virðist öll sanngirni mæla með því, að þessi börn fái bætur eftir bróður sinn. En til þess er ekki ætlast í frv. En annars held jeg, að menn mundu ekki gera þetta að svo miklu kappsmáli, ef þeir gerðu sjer það ljóst, hversu rangt það er að vera að spekúlera í því að komast hjá að greiða bæturnar. Stefna nefndarinnar er alveg gagnstæð þessu, en vitanlega ræður háttv. deild, hvernig hún tekur í þetta mál.

Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) mintist á það, að nefndin tæki aftur tvær brtt. sínar við þessa umræðu. Nefndin hefir ekki haft tækifæri til þess að tala sig saman um þetta atriði, svo að jeg get ekki tekið brtt. aftur upp á mitt eindæmi. Það er alveg óvíst, að nokkuð græðist á því, að nefndin tæki málið aftur til íhugunar, því að hún mun ekki falla frá þeim grundvelli, er hún álítur rjettan vera.

Menn hafa ekki athugað það, að í lögunum er ógerningur að setja nákvæm ákvæði um það, eftir hvaða reglum slysatryggingin verður goldin. Jeg geri ráð fyrir því, að samþykt yrði reglugerð um það, hvernig framkvæma eigi lögin. Væri nær að kveða á um þessi vafaatriði þar. En að nefndin taki inn í frv. jafnnákvæma sundurgreining get jeg ekki fallist á. Jeg hefi ekki haft tækifæri til þess að bera undir nefndina áskorun háttv. þm. Ísaf. (M. T.) og get því ekki orðið við tilmælum hans um að taka aftur þær 2 brtt., er hann fór fram á að teknar verði aftur. Býst ekki við, að umræðurnar hafi sannfært nefndina um nauðsynina á því. Annars er hægt að taka þetta til íhugunar til 3. umr.