27.08.1917
Neðri deild: 44. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í B-deild Alþingistíðinda. (750)

17. mál, slysatrygging sjómanna

Matthías Ólafsson:

Það er ekki vegna þess, að jeg ætli að leggja móti þessu frv., að jeg skrifaði undir nál. með fyrirvara, heldur gat jeg í raun og veru ekki fallist á neina breytingu á frv., af því að jeg óttaðist, að málið yrði þá dregið á langinn og kæmist ekki fram. En jeg vona, að slíkt komi nú ekki fyrir.

Jeg er engan veginn með þessu frv. af því, að mjer líki það að öllu leyti; þvert á móti hefi jeg margt og mikið við það að athuga. En þó er það miklu betra en það, sem vjer höfum nú við að búa, og fyrir því mun jeg greiða því atkvæði. Af því að jeg vil ekki bera neina ábyrgð á því, sem miður fer í frv., vil jeg lýsa skoðun minni á þeim atriðum, sem jeg vildi gjarnan hafa öðruvísi.

Um orðunina hefi jeg ýmislegt að segja; álít, að oft orki tvímælis, hvernig skilja skuli. Í fyrstu gr. er talað um farm á íslenskum skipum, og í 2. málsgrein um fiskimenn á vjelbátum. Þetta mætti skilja svo, að vjelbátar væru ekki íslensk skip. Reyndar kemur það síðar fram, að hjer er átt við vjelbáta, 12 smálesta og minni. Hefði þá verið skýrara í 2. gr. »fiskimenn á vjelbátum, 12 smál. eða minni«.

Þá er það atriði í 2. gr., að senda skuli hreppstjóra eða bæjarfógeta þar sem báturinn gengur skrá yfir skipverja, jafnskjótt sem ráðið hafi verið. Þetta verður aldrei nokkurn tíma framkvæmt eftir lögunum. Eftir frv. ætti að senda skrána og iðgjaldið þegar, er mennirnir eru ráðnir, en það er oftast gert mörgum mánuðum áður en menn eru lögskráðir á skipin, en jeg er sannfærður um, að í framkvæmdinni verður það ekki fyr en á þeim degi, er skipverjar koma á vettvang.

Þá hefi jeg altaf haldið því fram, að þeir menn sjálfir, er líftrygðir eru, ættu að gjalda iðgjaldið alt, en verið á móti því, að svo mikið væri greitt af útgerðarmönnum. Þegar þeir hafa ekki meiri hag af því en aðrir borgarar, ber þá engin skylda til að vátryggja mennina, og það því síður, sem hlutfallið milli þess, sem háseti og útgerðarmaður bera úr býtum við útgerðina, er sæmilegt. Jeg hefi sýnt, að þeir taki fyllilega nægan hlut af aflanum.

Þá er það alveg nýtt, að landssjóður skuli borga nokkuð. Jeg er á móti því af þeirri sömu ástæðu, að jeg álít, að hverjum manni sje vorkunnarlaust að sjá fyrir sjer og sínum.

Hins vegar er mjög gott að bæta mönnum fyrir slys, og einkanlega stór bót að því að hækka það, sem greitt verður eftirlátnum vandamönnum, ef dauði hlýst af slysinu.

Þrátt fyrir alla galla á frv. mun jeg þó hiklaust greiða því atkvæði, því að jeg tel það til stórbóta, miðað við það, sem verið hefir, og jeg býst við, að úr göllunum verði bætt, er þeir koma í ljós.