06.09.1917
Efri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1126 í B-deild Alþingistíðinda. (759)

17. mál, slysatrygging sjómanna

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Háttv. Nd. hefir fallist á meðferð þessarar háttv. deildar á málinu. Engar brtt. hafa þar komið fram við þau atriði, sem mestur var ágreiningur um hjer í deildinni, og virðist mjer það full sönnun þess, að tillögur sjávarútvegsnefndar hafi verið á fullum rökum bygðar.

Hins vegar hefir háttv Nd. bætt inn í frv. einni grein, sem nú er 4. grein. Sjávarútvegsnefnd er að vísu ekki í alla staði ánægð með þessa nýju grein, aðallega vegna þess, að hún er ekki í sem bestu samræmi við 1. gr. Þar er sem sje gert ráð fyrir, að tryggingarskylda manna á vjelbátum og stærri róðrarbátum nái að eins til þeirra, er fiskveiðar stunda eina vertíð á ári eða lengur. En hin nýja 4. grein kveður svo á, að skylt sje að tryggja sjómann, sem gengur í skiprúm annars í forföllum hans eða fjarveru, þótt um skemri tíma sje að ræða en eina vertíð. Þrátt fyrir þetta virtist sjávarútvegsnefnd ekki rjett að gera greinina að ágreiningsefni.Nú er orðið áliðið þingtímans, og með því að nefndinni þykir málið mikilvægt, vill hún ekki eiga það á hættu, að það dagi uppi. Ræður hún því hv. deild til að samþykkja frv. óbreytt, eins og það kom frá háttv. Nd.

Þá vil jeg geta þess, að smávillur hafa komist inn í frv., sem leiðrjetta þarf í prentsmiðjunni. í 1. og 2. gr. er vitnað í 5. og 8. gr., en vegna breytinganna á greinatölunni eiga þær tilvitnanir við 6. og 9. gr.

Enn fremur stendur í 4. gr., 2. málsgrein: »skrásetningarstjórn«, í stað »skrásetningarstjóra«. Nefndin væntir þess, að þessar villur verði leiðrjettar í prentsmiðjunni.