30.08.1917
Neðri deild: 47. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í B-deild Alþingistíðinda. (76)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Sigurður Sigurðsson:

Að þessu sinni á jeg hjer eina brtt., sem jeg er einn um, og við aðrar tvær er jeg riðinn með öðrum. Þessi brtt., á þgskj. 640, hefir á vissan hátt fengið góðar undirtektir hjá háttv. nefnd, eftir því sem framsm. hennar (M. P.) hefir skýrt frá. Jeg tel svo vera, þar sem áætlað er, að varið skuli af fje því, sem ætlað er til Suðurlandsbrautarinnar, nokkru til að færa úr stað veginn úr Smiðjulaut á Hellisheiði og brúa árnar í Ölfusinu. Tel jeg þetta sama sem að sá hluti tillögunnar sje samþyktur. Þótti mjer vænt um að heyra, að háttv. framsm. (M. P.) bygði orð sín um vegfærsluna á áliti landsverkfræðingsins, og eins um hitt, að álit landsverkfræðingsins sje og tilætlun, að Kambavegurinn sje síðar færður úr stað. Er því ekki vert að káka meir við þann veg en nauðsyn krefur, úr því að það liggur við borð að flytja hann til, og tókum við því tillöguna aftur.

Hin brtt., sem jeg á hjer, er á þgskj. 644, og fer hún fram á, að styrkur sá, sem staðið hefir í tveim síðustu fjárlögum, til að gefa út dýralækningabók, fái enn að standa. Bókin er þegar fullsamin, en hefir ekki verið gefin út af því, að öll bókaútgáfa er nú svo dýr. Hins vegar hefði jeg kosið, að styrkurinn fengi að standa í fjárlögunum, svo að hægt yrði að gefa út bókina á fjárhagstímabilinu, ef til batnaðar breytist. Háttv. framsm. (B. J.) minnir mig á, að jeg muni muna eftir því að koma styrk þessum inn í næsta fjárlagafrv. Vera má, að svo verði. En hitt er óvíst, að jeg og háttv. framsm. (B. J.) lifi til 1919, því að ekki er víst, að þeir lifi jafnan lengst, sem hjúum eru leiðastir, og þá má vel vera, að aðrir gleymi að bera fram tillöguna, og vil jeg því ekki eiga á hættu, að tillögunni sje slept nú. Jeg skil ekki í því, hvers vegna háttv. nefnd vildi ekki taka hana upp, og jeg fulltreysti því, að háttv. deild samþykki hana nú, þegar hún er komin fram.

Um till. á þgskj. 693, frá háttv. þm. Mýra. (P. Þ.), er það að segja, að jeg tel hana á góðum rökum bygða, því að óvíða eru verri vegir hjer á landi en á Mýrunum. En með því að samskonar tillaga var við 2. umr. feld fyrir okkur þingmönnum Árnesinga, má búast við, að þessi tillaga sje einnig dauðadæmd.

Á þgskj. 647 er tillaga um að brúa Hofsá í Vopnafirði. En jeg sje, að einnig eru komnar fram tillögur um að veita fje til brúargerða á Miðfjarðará, Hjeraðsvötn og Svarfaðardalsá. Þykir mjer þetta undarlegt nú í þessu árferði, og ekki annað sýnilegt en að þær sjeu bornar fram til höfuðs tillögunni á þgskj. 647. Það er ekki útlit fyrir, að á næsta fjárhagstímabili muni verða fært að vinna að brúargerðum, þótt nauðsynlegar sjeu, og mun því rjettast að fella allar tillögurnar, enda er mjer ekki grunlaust um, að sumar þeirra sjeu bornar fram í þeim tilgangi, og til að draga hinar í gröfina með sjer.

Þá kem jeg að brtt. á þgskj. 710, um að hækka fjárveitinguna til listasafnshúsbyggingarinnar, og um endurgreiðslu til þeirra manna, sem lagt hafa fram fje, eða lofað því, til húsbyggingarinnar. Mjer kemur þetta undarlega fyrir, að þeir menn, sem hafa lofað fje eða gefið til húsbyggingarinnar, skuli nú ætla að kippa að sjer hendinni og ætlast til, að landssjóður endurgreiði þeim framlög sín. Þetta minnir mig á orð Guðmundar ríka, er tilrætt varð á Alþingi um, hvað gera skyldi við fje það, er skotið var saman til bóta fyrir víg Höskuldar Hvítanessgoða, og er margir lögðu til, að fjenu skyldi skilað þeim aftur, er fram höfðu lagt; þá mælti Guðmundur: »Þá skömm kýs ek mjer eigi til handa, at taka þat aftur, er ek gefið hefi, hvárki hjer nje annarsstaðar«. Var góður rómur gerður að þessum orðum Guðmundar, enda reglan gullvæg og eftirbreytnisverð.

Jeg hefi oftast getað orðið samferða háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) og fylgt honum að málum, sjerstaklega þegar um styrki til einstakra manna hefir verið að ræða. En nú get jeg ekki fylgt honum í till. hans á þgskj. 680, og hefði honum, þeim góða manni, verið ráðlegra að vera nú í samvinnu við mig, sem fyr. Það er að eins síðasta tillagan, sem jeg gæti ljeð fylgi mitt. En við vitum báðir, að hún er ódrepandi, eins og hann er ódauðlegur í Dalasýslu, maðurinn, sem hún beinist að, háttv. þm. Dala. (B. J.).