05.07.1917
Efri deild: 3. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1127 í B-deild Alþingistíðinda. (762)

18. mál, húsaleiga í Reykjavík

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Eins og háttv. þingmenn eflaust hafa athugað þá er þetta frv. lagt fyrir samkvæmt stjórnarskipunarlögunum, því að hjer er um bráðabirgðalög að ræða, sem lengi hafa verið á döfinni, aðallega hjá bæjarstjórn þessa bæjar. Lögin eru staðfest 14. maí síðastl. og komu þá um leið til framkvæmdar.

Jeg held, að ekki sje ástæða til að fara langt út í ástæðuna til þess, að þetta frv. kom fram og var samþykt. Það var hin vaxandi húsnæðisekla hjer í bænum, er var orsök þess.

Samkvæmt lögunum var strax skipuð húsaleigunefnd, og mjer er kunnugt um, að hún hefir mikið að gera, og einnig um það, að þótt ýmsir í fyrstu litu ekki hýru auga til laganna, þá hafa menn alveg sætt sig við þau.

Jeg óska, að frv. þetta gangi til 2. umr.