27.07.1917
Efri deild: 16. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1128 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

18. mál, húsaleiga í Reykjavík

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Jeg sje ekki ástæðu til þess, við framsögu þessa, að bæta miklu við það, er segir í nál.

Nefndin ræður háttv. deild til að samþ. frv. Nefndin finnur að vísu, að málið er mjög vandasamt, og veit, að það hefir verið kvartað yfir ýmsu, er snertir þessi lög; einkum hafa húseigendur kvartað yfir því þrennu, að með lögunum væri það fyrirbygt, að þeir gætu selt hús sín, og að þeir gætu ekki losað sig við hvimleiða leigjendur, þótt þeir vildu, og í þriðja lagi, að þeir gætu ekki tekið hús sín til eigin íbúðar, þótt þeir þyrftu þess með.

En úr öllum annmörkum er ekki hægt að bæta svo, að eigi væri hagurneins fyrir borð borinn, eða lögin yrðu að engu gagni, og mætti þá eins afnema lögin með öllu.

Nefndin hyggur, að lögin geri töluvert gagn, flutningar verði minni og færri verði húsnæðislausir, og þá um leið ekki úr eins miklum vandræðum að ráða; og þar sem þau hafa gilt um stund, og menn eru farnir að venjast að nokkru þeim reglum, er þau setja, þá telur nefndin varhugavert að kippa þeim í burt. Það mun og víst vera, að fátækari húsaleigjendur finni sig tryggari undir þessum lögum en ella.

Þó hefir nefndin orðið sammála um, að rjett væri að rýmka að nokkru um rjett húseigenda frá því, sem er í frv., og því ber hún fram breytingu á 2. gr. frv.

2. gr. frv. er, eins og háttv. deild sjer, skift í tvær málsgreinar. Fyrri málsgreinin er um uppsögn á húsnæði eftir að lögin eru komin fram, og bannar uppsagnir, nema vanskil sjeu á húsaleigu eða leiguskilmálar að öðru leyti vanhaldnir. En hjer vill nefndin bæta við ákvæði um það, að ef húseigandi sjálfur þurfi á húsnæðinu að halda til eigin íbúðar, þá megi hann segja upp húsnæðinu, og um þetta efni er 7. brtt. nefndarinnar.

Síðan málsgrein 2. gr. er um uppsagnir, sem fram voru komnar áður en lögin komu til framkvæmda, og þar er uppsögn húseigenda gild, ef hann sannar fyrir húsaleigunefnd, að hann þurfi á íbúðinni að halda til eigin íbúðar.

Það getur raunar oft verið álitamál, hvort eigandi þarf á húsinu öllu að halda eða ekki. Segjum t. d., að maður eigi hús, sem búa í 4 fjölskyldur, og hann hefir sagt þeim öllum upp og vill taka sjálfur alt húsið til íbúðar. Með þessu móti getur hann bægt mörgum úr húsinu, þótt hann hafi ekki þörf þess alls, og svo má ske, ef hann vill fara kringum lögin, leigt út frá sjer aftur. En jeg álít, að þetta geti ekki komið til, vegna þess, að húsaleigunefndin hefir óskoraðan rjett til að meta það og dæma, hversu mikið húsnæði húseigandi sjálfur þarfnast, og leyfir honum þá ekki meira húsnæði en hann hefir þörf fyrir. Með því getur hann ekki bygt fleirum út en nauðsyn krefur. Og haldi húsaleigunefndin áfram að starfa á sama grundvelli og með sama skilningi og verið hefir, þá kemur þessi grein ekki neitt í bága við það.

Við 3. gr. hefir nefndin gert lítils háttar efnisbreytingu. Þar er bannað að rífa íbúðarhús; þó getur bæjarstjórnin veitt undanþágu frá því, ef húseigandi tryggir, að hann veiti að minsta kosti jafnmikið húsnæði til íbúðar. Þessu vill nefndin breyta svo með 11. brtt. sinni, að bæjarstjórnin geti heimtað þessa tryggingu um íbúðir, en sje ekki skyld til þess.

Aðrar brtt. nefndarinnar eru orðabreytingar, sem miða til betra máls eða skýrara.