27.07.1917
Efri deild: 16. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

18. mál, húsaleiga í Reykjavík

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Út af ummælum hæstv. forsætisráðherra skal jeg taka það fram, að nefndin hefir ekki átt tal við bæjarstjórn Reykjavíkur eða borgarstjóra.

Nefndin leit svo á, sem breyting sú, er hún ber fram, væri ekki svo víðtæk, að það væri ástæða til að ráðfæra sig við borgarstjóra, enda geri jeg ráð fyrir, að bæjarstjórnin hefði ekkert á móti þessari breytingu, og þótt svo væri, mundi nefndin eigi að síður hafa lagt það til, því að það virðist svo sjálfsagt, að eigandi fái sjálfur að búa í eigin húsi sínu. Og þar sem bæjarstjórnin hefir viðurkent, að þeir, er sagt höfðu upp fyrir 14. maí síðastl., mættu gera þetta, virðist liggja næst, að henni hafi beint skotist yfir að gera þá jafnrjettháa, er segðu upp eftir 14. maí.

En þar sem hæstv. forsætisráðherra var að tala um það, að menn utan Reykjavíkur gætu eftir þessu keypt hús í Reykjavík og bolað þeim burt, er byggju þar, þá er rjett að fyrirbyggja það, og mætti athuga það til 3. umr. Það mætti setja inn ákvæði, sem útilokaði það, t. d. með því að binda uppsagnarrjettinn við það, að maður hefði verið búsettur í Reykjavík ákveðinn tíma, eða hefði verið eigandi húss eða orðið það fyrir einhvern ákveðinn tíma, svo að ekki væri hægt að kaupa húsin ofan af fólki. En hitt er sjálfsagt, að sá, sem er löglega og heiðarlega eigandi að húsi, geti á löglegan máta flutt í húsið, ef hann þarf þess.

En nefndin mun athuga þetta nánar til 3. umræðu.