27.07.1917
Efri deild: 16. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1132 í B-deild Alþingistíðinda. (768)

18. mál, húsaleiga í Reykjavík

Forsætisráðherra (J. M.):

Það gleður mig að heyra undirtektir háttv. nefndar um þetta atriði, þar sem hún ætlar að athuga það nánar.

Jeg get sagt nefndinni það, að þetta er einmitt mjög þýðingarmikið atriði, og það er rjett af henni að bera sig saman við borgarstjóra um það.

En úr því nefndin vill athuga þetta nánar, væri þá ekki rjett að taka málið út af dagskrá, svo að nefndin gæti, áður en breytingin er samþykt, borið sig saman við borgarstjóra? Það mun hafa verið föst venja hjer á þinginu um mál, er snerta Reykjavík jafnmikið og þetta frv. gerir, að þingið hefir ráðfært sig við borgarstjóra, áður en þau hafa verið afgreidd. Og hjer er ekki — í sjálfu sjer — heldur um neitt annað en sveitarstjórnarmál að ræða, sem sett er með ráði löggjafarvaldsins.