27.07.1917
Efri deild: 16. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1132 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

18. mál, húsaleiga í Reykjavík

Magnús Kristjánsson:

Jeg fæ ekki betur sjeð en að lög þessi hljóti að ganga fullnærri eignarrjetti manna ef þau verða samþykt. Þingið hefir að vísu ekki altaf verið viðkvæmt í þeim sökum, en að öllu má ofmikið gera.

Býst jeg helst við, að svo muni fara um þessi lög, sem önnur þau, er hafa að geyma ofströng ákvæði, að þau verði mest á pappírnum, og óframkvæmanleg þegar til kemur. Og allir munu kannast við það, að nóg sje til af slíkum lögum, þótt ekki sje við bætt. Finst mjer hjer heldur engin brýn nauðsyn til að grípa til þess óyndisúrræðis að gera húseigendur rjettlausa; hitt þykir mjer sennilegra, að fleiri leiðir sjeu til, til þess að bæta úr vandræðum þeim, sem stafa af húsnæðisskorti hjer í Reykjavík.

Ef jeg man rjett, þá er til ákvæði í sveitarstjórnarlögunum, sem mælir svo fyrir, að enginn megi flytja til bæjar eða kaupstaðar, nema hann hafi áður tilkynt það yfirvaldinu þar á staðnum, og hafi hann þá útvegað sjer húsnæði. Hefði nú ákvæði þessu verið fylgt, þá þykir mjer von til, að minna mundi vera húsnæðisleysi hjer nú. Að minsta kosti tel jeg fulla ástæðu til að gæta vel þessa ákvæðis hjer eftir.

Þá er eitt stórathugavert við lög þessi. Það er, að hætt er við, að þau fari sjálf í gagnstæða átt við það, sem til er ætlast, þegar til framkvæmdanna kemur. Því að ekki mun það hvetja neinn til húsabygginga, að menn sjeu sviftir rjetti og yfirráðum sinna eigin húsa, því að heita má, að slíkt sje gert með lögum þessum, þótt þeir fái af náð að halda einhverjum litlum hluta eða afkima af sínum eigin híbýlum. Oft mun þó standa svo á, að húseiganda sje umhugað um að veita ættingjum sínum eða vandamönnum húsnæði. Lög þessi eru því óneitanlega nokkuð hörð aðgöngu, því að ekki er það viðkunnanlegt að lifa í þeirri von, að þeim verði ekki framfylgt, þótt jeg hins vegar sje þess fullviss, að sú sje ástæðan fyrir því, að ekki hefir þegar risið óánægja út af þeim.

Brtt. nefndarinnar eru flestar að eins orðabreytingar. Helsta efnisbreytingin er 7. brtt. við 2. gr. frv. Brtt. sú virðist þó heldur veigalítil, þegar þess er gætt, að nálega sömu ákvæði standa í niðurlagi 2. gr. frv. Ákvæði brtt. þessarar eru líka helst til þröng og mundu fyrst verða til bóta nokkurra ef feld væru burt síðustu orðin: »til eigin íbúðar«.

Bendi jeg á þetta í þeirri von, að hin háttv. nefnd taki það til athugunar, áður en málið er leitt til lykta.