27.07.1917
Efri deild: 16. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1135 í B-deild Alþingistíðinda. (771)

18. mál, húsaleiga í Reykjavík

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Hæstv. forsætisráðherra tók það fram, hver væru tildrögin að lögum þessum, sem sje vaxandi vandræði manna með að fá íbúðir, sem boðlegar geti talist og sæmandi siðuðum mönnum. Engum getur því dulist, að frv. þetta á skilið góðar undirteknir, því að miklar vonir eru um, að það nái tilgangi sínum.

Háttv. þm. Ak. (M. K.) drap á það, að hjer væri gengið ofnærri eignarrjetti manna. Það er ekki alveg rjett með farið, því að hjer er fremur um umráðarjett að ræða, og er það gömul saga, að hann sje skertur að meira eða minna leyti með löggjöfinni. Lög þessi eru í rauninni ekkert annað en ábúðarlöggjöf fyrir bæinn, tilsvarandi við ábúðarlög í sveitum.

Sami háttv. þm. (M. K.) hjelt því fram, að lög þessi hefðu lítið gagn gert. Þar til er því að svara, að mjer er kunnugt um, að þau hafa komið að miklum notum, og má segja, að húsaleigunefndinni hafi tekist vel sitt starf.

Um 7. brtt. er það mitt álit, að ef orðin »til eigin íbúðar« verða feld aftan af, þá verði greinin með öllu gagnslaus. Þýðingarmesta atriðinu er þá kipt burt og ákvæðið gert svo rúmt, að kringum það má fara á alla vegu. Álít jeg, að nefndin hafi gengið þar svo langt sem unt var í því að milda ákvæðið, án þess að skerða gildi þess.

Vil jeg því eindregið mæla á móti því, að orð þessi verði feld burt.