31.07.1917
Efri deild: 18. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1139 í B-deild Alþingistíðinda. (776)

18. mál, húsaleiga í Reykjavík

Magnús Kristjánsson:

Jeg hefi þegar gert grein fyrir brtt. mínum við 2. umr. Nú vill svo vel til, að jeg sje eigi betur en að nefndin fallist á þessar till. mínar, og ætti það að nægja til þess, að þær nái fram að ganga. Býst því ekki við, úr því að svo er ástatt, að jeg þurfi að mæla mikið með þeim. En ef frv. væri látið ná framgangi, eins og það er, þá hygg jeg, að það myndi verka í gagnstæða átt við það, sem til er ætlast. Það myndi draga úr áhuga manna og framkvæmdum um húsabyggingar og frekar þrengja kosti þeirra, sem minni máttar eru. Það væri helst í hinum óveglegri húsum, sem íbúðir yrðu hafðar til leigu, en stórefnamennirnir í veglegu höllunum myndu, að líkindum, verða látnir í friði með íbúðir sínar, jafnvel þótt þær væru langt úr hófi í alla staði. Íbúðirnar í húsum þeirra yrðu taldar ofdýrar fyrir fátæklinga og eigi í neinu rjettu hlutfalli við efnahaginn.

Jeg vona, að það sje öllum ljóst, að það má ekki taka um of fram fyrir hendur manna, og þessar brtt. eru til þess að bæta frv. Þær gera það að verkum, að húseigendur geta ráðstafað eða leigt hús sín nánustu vandamönnum sínum eða öðru kunnugu fólki, sem þeir gætu felt sig við að búa með, gæti haft brýna þörf fyrir húsnæðið. Og jeg hygg, að þetta verði til þess, að allir felli sig betur við lögin.

Til þess að fyrirbyggja misskilning skal jeg taka það fram, að jeg get viðurkent, að þessi lög hafa gert gagn að ýmsu leyti, og ættu að geta gert það framvegis, ef vel verður nú frá þeim gengið. Þau hafa gert gagn með því, að sjeð er betur en áður um, að íbúðirnar sjeu sæmilegar í alla staði, og svo með því að sjá um, að leigan á íbúðunum fari ekki fram úr öllu hófi. Og þetta er aðalverk húsaleigunefndarinnar.

Verði brtt. þær, er jeg ber fram, samþyktar, verð jeg að telja lögin viðunandi.