31.07.1917
Efri deild: 18. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í B-deild Alþingistíðinda. (780)

18. mál, húsaleiga í Reykjavík

Magnús Kristjánsson:

Jeg hygg, að það þýði lítið að kappræða þetta, og ætla mjer það ekki.

Jeg skildi ekki vel ummæli háttv. 2. landsk. þm. (S. E.), þar sem hann var að tala um brtt. mína, og sagði, að ef hún væri samþykt, þá væru lögin orðin þýðingarlaus. Það er rjett eins og það væri ekkert nýtilegt í lögunum nema þetta, sem farið er fram á að fella niður. Jeg skil ekki hvað eru öfgar, ef þetta er það ekki.

Jeg sagði, að margt nýtilegt væri í lögunum, og þótt háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) vildi ekki trúa mjer, þá ætti hann þó að geta sjeð það, ef hann hefði lesið lögin.

Þetta nægir væntanlega um öfgar þessa háttv. þm. (S. E.).

Hæstv. atvinnumálaráðherra leist mjer vilja gera helst til mikið úr þessari brtt., því að hann taldi, að hún mundi rýra gildi laganna, ef samþykt yrði. En jeg hefi fært rök fyrir því, að svo muni ekki verða. Og þótt húseigandi geti sagt upp leigjendum og nánustu vandamenn húseiganda flutt í íbúðirnar, þá sje jeg ekki, hverju það mundi breyta, því að vitanlega þyrftu þeir, sem í íbúðirnar flyttu, einhversstaðar húsnæði.

Ekki get jeg fallið frá því, að lögin geti verkað gagnstætt því, sem þeim er ætlað, enda eru þess dæmi áður. Sem dæmi þess vil jeg nefna reglugerð, dagsetta 11. apríl, er hæstv. atvinnumálaráðherra gaf út. Jeg verð að álíta, að sú reglugerð hafi verkað í gagnstæða átt við það, sem henni var ætlað, ef landsstjórnin hefði ekki orðið til þess að gefa nánari skýringu á henni. Um það, hvort sú skýring hefir verið gefin fyrir utan að komandi áhrif, skal jeg láta ósagt að þessu sinni.