31.07.1917
Efri deild: 18. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1143 í B-deild Alþingistíðinda. (781)

18. mál, húsaleiga í Reykjavík

Sigurður Eggerz:

Háttv. þm. Ak. (M. K.) virðist hafa mikla tilhneigingu til þess að nota sterk ummæli um það, er jeg kann að segja, eins og nú, þar sem hann notar orðið »öfgar«. En jeg held, að ef háttv. þm. Ak. (M. K.) væri kunnugur hjer í bæ, þá mundi hann taka í sama streng og jeg, því að aðaltilgangur laganna er sá, að hindra það, að þeir, sem minni máttar eru, sjeu húsnæðislausir. Og þessum aðaltilgangi frv. er ekki unt að ná, ef brtt. á þgskj. 212 verður samþ.

Oss, er búum hjer í Reykjavík, er öllum kunnugt um það, hvílík vandræði voru með húsnæði hjer síðastl. 14. maí. Þá hefðu fátækir menn alls ekki risið undir því að greiða húsaleiguna, ef húseigendur hefðu mátt hækka hana að vild sinni — eða ekki fengið húsnæði. (M. K.: Það var ekki það, sem jeg sagði). Nei, en það er afleiðing af till., því að þegar eins mikið kapp er og þá var um að fá húsnæði, þá hefir það enga þýðingu, þótt húsaleigunefnd segi, að eigi megi taka hærra verð en það, er hún tiltekur, fyrir íbúðina. Þeir, sem í vandræðum eru og hvergi hafa höfði sínu að að halla, mundu þá leigja á bak við nefndina, og því kæmi hámark hennar ekki til greina.

Af þessum ástæðum og fleirum er það aðalatriði laga þessara að tryggja það, að þeir, sem fátækir eru og verst staddir hjer í bæ, geti fengið húsnæði.

Ástandið hjer í þessum efnum er hræðilegt. Í einu húsi, sem landið á hjer í bænum (í Suðurgötu), liggur berklaveik stúlka og þar búa um 10 manns. Auk þess er það mesta rottubæli, og það svo, að menn þora ekki að skilja þar eftir ungbörn ein — búast við, að rotturnar drepi þau. Á öðrum stað, inni á Laugavegi, búa 3 fjölskyldur í pakkhúsi, og geta allir sjeð, hvernig það muni vera.

Því verður ekki neitað, að ákvæði laganna eru nokkuð ströng gagnvart húseigendum, en það er brýn nauðsyn til þess, að fjöldi manna hafi húsaskjól. Og ef brtt. háttv. þm. Ak. (M. K.) verður samþ., þá mundu margir húseigendur reyna að komast út um þær smugur, sem þar eru opnaðar.

Athugasemd mín er því engar öfgar; hún byggist á þeirri þekkingu, sem jeg hefi á málinu, og það ætti enginn að kunna hjer um betri skil en fógeti bæjarins. Um 14. maí síðastl., sem var flutningsdagur, var svo mikill troðningur í skrifstofu minni af húsnæðislausu fólki, að þar var varla hægt að þverfóta.

Að lyktum vil jeg taka það fram, að jeg lít svo á, sem húsaleigunefndin hafi farið vel með starf sitt, enda hafa mjög litlar kvartanir komið fram yfir gerðum hennar.