31.07.1917
Efri deild: 18. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í B-deild Alþingistíðinda. (784)

18. mál, húsaleiga í Reykjavík

Frsm, (Kristinn Daníelsson):

Þar sem háttv. þm. Snæf. (H. St.) sagði, að ef lögin yrðu samþ., þá legðu þau hömlur á viðskiftalíf manna, þá skal jeg ekki neita því, en það er neyðarúrræði, til að ná þeim tilgangi, sem lögin vilja vinna að fyrir almennings heill.

Og það eru oft lagðar meiri hömlur á viðskiftalífið en hjer er gert. Þannig eru eignir t. d. teknar eignarnámi í þarfir. almennings. Það er almenningsheillin, sem á að ráða, og háttv. þingdm. eiga nú að skera úr því með atkvæði sínu, hvort hjer sje ekki um brýna almenningsþörf að ræða.

En ef það á að nægja til þess að geta sagt upp leigjendum, að einhver hafi að nafninu til fengið afsal fyrir húseign, þá hverfur aðalgagn laganna. Það verða að vera einhver tímatakmörk um það, svo að ekki verði unt að fara í kringum ákvæðið.

Jeg vil vekja athygli á því, að lögum þessum er ekki ætlaður aldur til frambúðar, heldur að eins nú um sinn, á meðan þessi styrjöld geisar og þar til jafnvægi er aftur komið á. Þá verður þeirra ekki lengur þörf og þau úr gildi feld.