14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1147 í B-deild Alþingistíðinda. (790)

18. mál, húsaleiga í Reykjavík

Frsm. (Einar Arnórsson):

Þetta frv. er svo til komið, að 14. maí í vor gaf stjórnin út bráðabirgðalög um húsaleigu í Reykjavík. Í þessum lögum var það tvent ákveðið, að ekki mætti segja mönnum upp húsnæði, og hitt líka, að leigan skyldi vera óbreytanleg frá því, sem þá var.

Nú hefir háttv. Ed. haft þetta frv. til meðferðar, og hefir hún ekki gert á því neinar verulegar efnisbreytingar. Þó hefir það ákvæði verið sett inn, að leigusali skuli geta sagt upp húsnæðinu, ef hann hefir brýna þörf á því sjálfur til eigin íbúðar, enda hafi hann orðið eigandi hússins fyrir 14. maí 1917.

Allsherjarnefnd hefir athugað frv., eins og Ed. skilaði því frá sjer, og leggur til, að það verði samþ. óbreytt. Nefndin játar, að mikil nauðsyn sje á að hafa hjer í Reykjavík slík lög sem þessi, enda má ráða það af líkum. Landsstjórnin gaf í vor út bráðabirgðalög um húsaleigu í Reykjavík, eftir tilmælum borgarstjóra og bæjarstjórnar. Lögin settu ýmsar hömlur á yfirráð húseigenda yfir húsum sínum. Engin óánægja hefir orðið út af ákvæðunum um húsaleiguna. En hitt hefir vakið nokkra óánægju, að ekki skuli vera hægt að segja upp húsnæði. Stjórnin og Ed. líta þó svo á, að nauðsynlegt sje að halda því ákvæði, til að koma í veg fyrir húsabrask og minka húsnæðisskort. Það er oft skilyrði fyrir, að hægt sje að braska með hús, að hægt sje að koma leigjendunum burt á vissum tíma. Húsunum er því haldið óleigðum af bröskurunum. Þetta er ástæðan til þess, að Ed. hefir bætt við ákvæðinu um, að menn þurfi að hafa eignast hús fyrir 14. maí 1917 til að geta sest að í því. Ef þetta ákvæði væri ekki í lögunum, myndu þau verða nokkurn veginn gagnslaus. Allsherjarnefnd hefir ekki sjeð ástæðu til að koma með neina brtt.

Frá háttv. þm. V.-Sk. (G Sv.) hefir komið fram brtt., á þgskj. 450, við 2. gr. Jeg hefi borið mig saman við samnefndarmenn mína, og jeg hygg, að jeg megi segja það fyrir hönd nefndarinnar, að hún telji ekki fært að samþ. þær. Það er í fyrsta lagi af þeirri ástæðu, að ef brtt. verður samþ., þá eru engar skorður settar við, að menn kaupi hús og selji, eins og þá lystir, og rými þeim burt, sem í húsinu búa. Í öðru lagi býst jeg við, að þeir verði margir, atvinnurekendurnir hjer í bæ, ef mönnum verður leyft að bæta við herbergjum til notkunar við atvinnurekstur sinn, því að ekki mun verða gott að færa sönnur á hið gagnstæða, ef menn segjast þurfa nokkurra herbergja í viðbót vegna atvinnu sinnar, þó að öllum sje kann ske vitanlegt, að það sje rangt. Ef á að samþ. brtt. á þgskj. 450, við 2. gr., þá er eins gott að fella 2. gr. alveg burt, og það annað í frv., sem snertir ákvæði hennar. Í Ed. kom fram brtt. lík þessari, en viðvíkjandi henni skrifaði borgarstjóri allsherjarnefnd, að ef hún yrði samþ., þá kæmu lögin að litlu eða engu haldi. Jeg vil því eindregið ráða háttv. deild frá að samþ. brtt. á þgskj. 450.