14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1148 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

18. mál, húsaleiga í Reykjavík

Gísli Sveinsson:

Jeg hefi leyft mjer að koma með brtt. á þgskj. 450, við 2. gr. Hún er ekki fram komin að óhugsuðu máli. Frá mínu sjónarmiði hafa lög þessi verið gallagripur frá upphafi.

Þessi brtt. er alt annars eðlis en sú, sem kom fram í Ed. og borgarstjóri hefir lagt á móti. Orð hans er því alls ekki hægt að heimfæra upp á hana. Þessi tillaga er gerð til að rýmka lítið eitt þvingunina á þeim, sem eru svo óhepnir að eiga hús, ef svo mætti að orði komast. Eftir henni er ætlast til, að þeir, sem hafa gert sig seka um þá ósvinnu að eiga hús, fái að nota kofana til sinna þarfa. Eftir því, sem mjer er kunnugt um, þá eru ákvæði þessara laga strangari en þekkist annarsstaðar, þar sem lík lög gilda, eða hafa verið sett í vandræðum. Það má vera, að bæjarstjórnin vitni til húsnæðiseklunnar, en það ættu allir að sjá, að svona ákvæði bæta ekki úr þeirri eklu, eða að minsta kosti ekki það ákvæði, sem hjer er aðallega um að ræða. Ef ákvæðið hljóðaði svo, að hús mætti ekki nota nema til íbúðar eða nauðsynlegs atvinnurekstrar, þá ætti tilganginum að vera náð. Það skapast ekkert nýtt húsnæði við það að meina húseigendum að nota sitt eigið húsnæði. Jeg hefi vitað til, að menn væru í öngum sínum út af því, hvort þeir mættu bæta við sig einu herbergi eða svo til atvinnurekstrar síns. Eftir frv. er það með öllu bannað. Við skulum segja, að einhver maður hafi atvinnu hjá öðrum, en að það fyrirtæki fari forgörðum. Hvað væri þá eðlilegra en að hann mætti taka herbergi í sínu eigin húsi til að reka sömu atvinnu á eigin spítur? Í 2. gr. frv. stendur, að uppsagnir liggi undir dóm húsaleigunefndar. Með leyfi hæstv. forseta skal jeg lesa upp þann kafla greinarinnar, sem jeg á við:

»Uppsagnir á húsnæði, sem hafa farið fram, skulu ógildar, nema húseigandi sanni fyrir húsaleigunefnd, að hann hafi, áður en lög þessi voru sett, samið um leigu á húsnæðinu við einhvern húsnæðislausan, eða hann þurfi á húsnæðinu að halda fyrir sjálfan sig.«

Það er eigandi, sem á að sanna, að hann þurfi á húsnæðinu að halda, svo að nefndin þarf ekki að vera að hafa fyrir því að sanna hið gagnstæða, eins og háttv. 2. þm. Árn.

(E. A.) hjelt fram. Jeg tel það algerlega rangt að vera að fá Alþingi, sem eðlilega er ekki sjerstaklega kunnugt staðháttum hjer í Rvík, til að samþykkja lög, sem þvinga marga heiðarlega borgara hjer í bænum. Eftir frv. á húsaleigunefndin að úrskurða öll húsaleigumál, og yfir henni stendur enginn annar dómstóll. Það ætti að vera nóg til að tryggja það, sem sagt er að lögin eigi að tryggja. Mjer finst harla ótrúlegt, að hægt sje að fá nokkurt þing til að samþykkja að banna húseigendum að nota sín eigin herbergi til rekstrar sinni eigin atvinnu, sem hann og hans eiga að lifa á. En með ákvæðum, eins og þau nú eru í frv., er framið rjettarbrot á húseigendum að óþörfu og um skör fram, án þess að það gagni nokkuð tilætlun frv. Þetta vill brtt. lagfæra lítið eitt.