14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1155 í B-deild Alþingistíðinda. (797)

18. mál, húsaleiga í Reykjavík

Frsm. (Einar Arnórsson):

Það vill mjer nú svo vel til, að jeg get að mestu leyti svarað í einu þeim háttv. þm., sem talað hafa með þessum brtt., því að það var hjer um bil sama vísan, sem þeir kváðu allir.

Hjer liggja fyrir þinginu bráðabirgðalög, sem landsstjórnin hafði fengi konungsstaðfestingu á. Og mundi nú mörgum þykja það líklegt, að gripið hefði verið til þessa neyðarúrræðis, nema brýn nauðsyn bæri til? (G. Sv.: Það er nú svo margt). Mjer vitanlega hafa ekki verið samin nema tvenn slík bráðabirgðalög, svo að það er ekki eins margt og háttv. þm. (G. Sv.) vill gefa í skyn. (B. J.: Þetta er ekki vísindaleg rökfærsla). Nei, en þetta er líkindarökfærsla. En annars vildi jeg mælast til þess við háttv. þm. Dala. (B. J.), að hann talaði úr sæti sínu, með leyfi forseta, samkv. þingsköpum, en grípi ekki fram í einhversstaðar utan úr sal.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) byrjaði ræðu sína á því, að þetta bætti ekkert úr húsnæðisleysinu. Og það er auðvitað rjett, að því leyti, að ekki fjölgar húsunum við þessi ákvæði, en þó geta þau bætt dálítið úr á annan hátt, og skal jeg nefna þess dæmi.

Það var hús hjer í bænum í vor með undir 20 íbúðarherbergjum, sem voru alskipuð leigjendum. Einn góðan veðurdag kom svo maður, sem kaupir hús þetta og ætlar sjer að kasta öllum þeim fjölskyldum, sem þar bjuggu, á dyr, en taka sjálfur alla íbúðina, eins og hún lagði sig, fyrir sjálfan sig. Þetta varð auðvitað til þess, að leigjendurnir báru sig upp fyrir húsaleigunefnd, og hún komst að þeirri niðurstöðu, að hann gæti látið sjer nægja 8 herbergi, en leigt hitt út. Með þessu móti varð sparað húsrúm fyrir 6—8 fjölskyldur, því að sum af þessum herbergjum voru mjög stór. Svo varð það að samningum eftir á, að hann leigði bæjarstjórninni alt húsið. Eins og allir sjá var þetta alt að þakka þessum húsaleigulögum, og eitt dæmi þess, að fjöldi fólks hefði verið á götunni, ef þau hefðu ekki verið komin á. Jeg gæti nefnt fleiri dæmi þessu lík, en sje ekki, að þess gerist þörf, því að hjer er ekki verið að semja lög fyrir einstök tilfelli, heldur nothæfa reglu, eða meðaltal af því, sem fyrir gæti komið.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) mintist á, að það hefði hingað til verið talið fullheiðarlegt að kaupa og selja hús. Það dettur engum í hug að neita því. En það gæti hins vegar oft verið mjög óheppilegt, ef nú húseigandi vill endilega koma leigjanda burt úr húsinu af einhverjum ástæðum, þá þurfi hann ekki annað en selja húsið. Þetta tel jeg að gæti verið mjög óheppilegt fyrir menn alment.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) byrjaði ræðu sína á því að segja frá frv. 1915, sem hefði verið miklu vitlausara en það, sem hjer liggur fyrir. Þá er fyrst því að svara, að það kom fram 1916, ekki 1915. Hann lauk miklu lofsorði á mig fyrir það, að jeg hefði ekki viljað sinna þessu frv. Jeg þakka auðvitað lofið, og er það að vísu rjett, að mjer þótti þetta frv. ekki aðgengilegt, en annað var það líka, sem olli því, að jeg fann ekki ástæðu til að hreyfa málinu þá. Það var búið að ákveða, að aukaþing skyldi koma saman þá um veturinn, og þá var í lófa lagið að fá þm. kaupstaðarins til að bera frv. fram á þinginu.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) sagði í ræðu sinni, að þetta frv., ef samþ. yrði, mundi fæla menn frá húsabyggingum. Jeg hygg nú, að hvort sem væri, þá mundu húsabyggingar verða í minna lagi, eða öllu heldur alls engar, meðan núverandi ástand stendur, og er margt sem liggur til þess. Og þó fyrst, eins og háttv. þm. (B. Sv.) sjálfsagt veit, að vinna er nú orðin alt að 100% dýrari en áður var, og líkt er að segja um öll efni; þau hafa stigið afskaplega í verði, en eru auk þess næstum ófáanleg, svo að það er hjer um bil frágangssök að reisa hús nú á tímum. Háttv. sami þm. (B. Sv.) skaut því enn fremur fram, að þetta frv. mundi fæla menn frá að byggja í framtíðinni. Þessi lög eiga auðvitað að eins að gilda meðan ástandið er eins slæmt og það er nú. Jeg vona, að enginn hafi skilið orð mín svo, að lögin ættu að standa um aldur og æfi. Jeg hefi skoðað þau sem hverja aðra stríðsráðstöfun, sem mundi því verða numin burt jafnskjótt og stríðinu er lokið.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) sagði það í ræðu sinni, að húsnæðisleysi stafaði enn fremur af því, að nú væri svo komið, að húseignir þættu slæmar eignir. Jeg verð að segja, að eftir því, sem mjer er kunnugt, þá er það af því, að menn hafa ekki haft nægilegt fje með höndum, og þótt lánskjör ekki svo aðgengileg, að þeir vildu leggja í að kaupa eða reisa hús.

Þar sem svo segir, að lög þessi öðlist þegar gildi, þá blandast engum hugur um, að hjer getur ekki verið átt við annað en staðfestingu konungs á lögunum, því að þau öðlast ekki gildi þann dag, sem Alþingi samþykkir þau, og við 14. maí getur hjer ekki verið miðað.

Jeg man nú ekki lengur, hvað markvert var við ræðu háttv. þm. Dala. (B. J.), en jeg hygg, að það hafi verið sama »hallelújaið«, sem hann söng, og hinir, og að jeg geti því slept að svara því. (B. J.: Það þýðir ekkert fyrir þm.; hann getur ekki hrakið það). Hann var víst eitthvað að tala um það, að hvernig sem á því stæði, þá væru allir, sem fengjust við húsakaup, vel efnaðir menn. Jeg verð að segja, að um það fer tvennum sögum. Jeg gæti bent háttv. þm. (B. J.) á marga menn, sem eru að bisa við að kaupa hús, og eru þó af engum taldir efnaðir menn. Eins og ástandið er nú, vilja menn alt til vinna til að fá þak yfir höfuðið. Menn klífa þrítugan hamarinn til að eignast einhvern húsræfil, svo að þeir sjeu ekki staddir á götunni með alt sitt fólk.

Háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) talaði mikið um, hversu ilt það væri og óheppilegt, að saklausir yrðu að gjalda fyrir aðra, og er það auðvitað rjett athugað. En hversu margir eru þeir ekki á þessum voðatímum, sem verða að gjalda fyrir aðra.

Það eru líka til lög, sem háttv. þm. Dala. (B. J.) o. fl. hafa gefið samþ. sitt, og mæla svo fyrir, að taka megi kol, salt o. fl. eignarnámi hjá þeim, sem hafa, ef svo færi, að almenningur yrði uppiskroppa. Mundi ekki útgerðarmanni þykja það hart, ef þetta væri tekið af honum, þegar hann væri nýbúinn að birgja sig upp fyrir sína útgerð? Hví skyldi ekki mega fara eins að með hús hjer í bænum, þegar eins brýn nauðsyn ber til og nú, að til stórvandræða horfir sakir húsnæðisskorts.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) fór mörgum orðum um þá óbilgirni, sem höfð væri í frammi, er mönnum væri meinað að fá húsrúm til að reka atvinnu sína. Og er það mikið rjett, frá vissu sjónarmiði. En þegar svo er ástatt sem nú, á löggjafarvaldið ekki annars kostar en að beita einstaka menn óbilgirni, þegar annars vegar er um almenningsheill að ræða.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meir um þetta, en vil að eins bæta því við, að jeg tel engum vafa bundið, að verði þessi lög feld, mun ástandið verða mjög miklu verra en það er nú. Því að þótt frv. bæti ekki beinlínis úr húsnæðisleysinu, þá mun reyndin verða sú, að fleiri verði hjer húsnæðislausir í bænum í haust en þyrftu að vera, ef frv. næði fram að ganga. Og þótt það kunni að sverfa hart að einstökum mönnum, þá er það mín skoðun, að meira tillit beri að taka til fjöldans en þeirra fáu manna.