21.08.1917
Neðri deild: 39. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í B-deild Alþingistíðinda. (8)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Einar Jónsson:

Jeg hefi að undanförnu ekki tekið mikinn þátt í eldhúsdegi hjer á þingi. Jeg vil lýsa yfir því, að mig furðar ekki, þótt núverandi stjórn verði fyrir álasi, eins og fyrverandi stjórnir hafa æfinlega orðið fyrir á liðnum tímum. Það vissu allir, þegar stjórninni var breytt og 3 ráðherrar settir, að tímarnir voru erfiðir, og þetta var gert til þess, að betur yrði ráðið fram úr þeim vandræðum, sem yfir dyndu.

Frá því er ráðherrar voru fyrst settir hefir þeim ávalt verið álasað fyrir það, sem þeir hafa gert eða látið ógert. Jeg vil nú minnast á nokkur sjerstök atriði, sem þjóðin er óánægð yfir. Menn eru þá fyrst afskaplega óánægðir yfir því, að ráðherrarnir hafa haldið opnum embættum á fjölmörgum sviðum. Þegar ráðherrarnir voru gerðir 3, urðu afskaplega mörg embætti opin, og það er illa liðið hjá þjóðinni og jeg kann því illa, að þau skuli ekki vera veitt. Meðan maðurinn er að eins settur ber hann ekki eins fulla ábyrgð á embættisverkum og finnur ekki eins til þeirrar ábyrgðar og hinn, sem skipaður er.

Mjer er alveg sama, hvort embættið heitir bæjarfógetaembætti í Reykjavík, prófessorsembætti við Háskólann, sýslumannsembætti í Borgarfirði eða bankastjóraembætti við Landsbankann. Öll þessi embætti losnuðu við síðustu stjórnarskifti, og þau hafa ekki verið veitt enn, heldur eru settir menn í þau öll. Þetta vekur verðskuldaða óánægju hjá þingi og þjóð. Í öðru lagi er það landssjóðsverslunin, sem er í höndum stjórnarinnar og mikið er að fundið. Auðvitað á stjórnin hægra með að koma fyrir sig vörnum í þessu atriði, þar sem þingið hefir skipað henni að takast á hendur þessa verslun til almenningsþarfa. Stjórnin varð því að gera þetta, og getur því afsakað sig með því, þótt skiftar geti verið skoðanir um afleiðingar þessarar verslunar. En nú er það nokkuð alment álitið, að landsstjórninni hafi farið forstaða verslunarinnar mjög illa úr hendi. Um það má náttúrlega deila, og jeg veit, að sumir muni segja, að forstaðan hafi yfirleitt verið góð. Jeg skal nú engan dóm á þetta leggja. En jeg get ekki að því gert, að jeg er að minsta kosti í sumum atriðum samþykkur þeim, sem álíta, að stjórninni hafi ekki farist verslunin sem best úr hendi. Jeg er samþykkur þeim, sem segja, að stjórnin hefði ekki átt að fara eins harðýðgislega með kaupmenn eins og hún hefir gert. Hún átti að vera hlynt því, að kaupmenn næðu í vörur frá útlöndum, og hún átti ekki að vera svo stíf, að segja við kaupmanninn, þegar hann var búinn að ná í einhverja vöru: »Þú mátt engum selja þessa vöru, nema eftir seðlum, sem stjórnarvöldin skulu gefa út.« Það er hart aðgöngu að meina þeim að fá peninga fyrir vöru sína, sem búnir eru að ná í hana með ærnum kostnaði og mikilli fyrirhöfn. Það er alveg víst, að kaupmenn hafa drjúgum hjálpað landinu og stjórninni, með peningum og útvegi, og það verður ekki varið, að landsstjórnin hefir farið alveg afskaplega með kaupmenn. Ekki síst ef það er satt, sem jeg nú heyri fleygt, að landsstjórnin selji vöru sína dýrara en kaupmenn, og ef það er satt, að stjórnin liggi með heilar birgðir af vörum, sem sjeu orðnar skemdar eða sjeu að skemmast í pakkhúsunum, heila stafla af mjölkýlum, sem rottur eru búnar að eta sig inn í og bera inn í ýmsan óþrifnað, svo að mjölið er ekki einu sinni ætt eða brúklegt til nokkurs hlutar. Ef stjórnin er þess utan hlutdræg í úthlutunum sínum til einstakra landshluta! Ef ríkismaðurinn fær vörubirgðir í stórsölu, en fátæklingurinn getur ekki fengið neitt! (Atvinnumálaráðherra): Er nú ekki komið nóg af þessum »ef«um?) — Það er ekki að furða, þótt hæstv. atvinnumálaráðherra sárni að heyra nefnd svona mörg ef, því að hann er í hringlandi vandræðum með öll »ef«-in, sem hrúgast í kringum hann og verða fyrir honum, hvert sem hann lítur og hvað sem hann ætlar að taka sjer fyrir hendur. Annars er víst öllum landsmönnum vel við atvinnumálaráðherrann sem mann. En þeir sjá nú, að hann er ekki maður fyrir þessari stöðu. Sumir sáu það strax, að hann mundi ekki vera vandanum vaxinn, en fáa hefir líklega grunað, að honum færist það jafnilla úr hendi og raun hefir á orðið. Jeg tek auðvitað undir með þeim, sem óska honum alls góðs í framtíðinni, og jeg óska þess sjerstaklega, eins og jeg veit að fleiri gera, að honum megi farast betur úr hendi það, sem hann á eftir að gera, heldur en það, sem hann hefir gert hingað til í ráðherrastöðu.

Mikil munnskálp og mas varð hjer í vetur út af ensku samningunum, og stjórnin fjekk mikið álas fyrir þá. Það var ekki núverandi stjórn, heldur sú næsta á undan. Jeg skal nú ekki fara mikið út í þá sálma. En jeg álít þá ekki betri í endurnýjuninni heldur en þeir voru áður, svo að þessi stjórn á ekki minni sök á þeim málum en hin. Það var ráðist á samningana hjer í salnum áður, en ekki er minni ástæða til þess nú. Þá var talað um það, að landbúnaðurinn hefði ekki átt málsvara við samningana. Úr þessu var ekki bætt, og ekki verður annað sagt en að illa hafi tekist að gæta hags sjávarútvegsins líka. Þessu á núverandi stjórn sök á. Margt bendir til þess, að þessi þriggja manna stjórn sje ekki betri en eins manns stjórn áður. Að vísu benda menn til, að nú sje verra ástand en nokkru sinni áður hafi verið, og skal jeg játa, að það er alveg satt.

Hæstv. forsætisráðherra játaði, að erfitt væri að greiða í sundur störf ráðherranna í stjórnarráðinu. Jeg hefði líka getað búist við því, að ráðherrarnir væru nokkuð svona ósamstæðir. Samt er mjer sagt af mönnum, sem kunnugir eru á hærri stöðum, að samvinna milli þeirra sje dágóð. En til hvers var þá verið að fjölga ráðherrunum, ef það lendir í því, að ekki er hægt að sundurliða störf þeirra? Jeg er ekki að segja þetta af því, að jeg búist við, að ráðherrann verði aftur gerður einn, meðan tímarnir eru eins og þeir eru nú. En að því ætti að hyggja, þegar fer að liðkast um, að stofna ekki fleiri embætti en nauðsyn er á. Og jeg vildi óska þess, að stjórnin væri ekki að taka að sjer störf, þó að þingið sje að troða þeim upp á hana, ef hún treystir sjer ekki til að framkvæma þau, eins og þingið ætlast til, eða sjer, að þau koma ekki að tilætluðum notum.

Að lokum vil jeg vara stjórnina við því að vera ofhörundssár eða kippa sjer upp við, þótt að henni sje fundið, en gera sitt ítrasta til að gera rjett, láta ekki hringla í sjer með tómum »ef«-um í kringum sig, og um fram alt láta ekki eigin hagsmuni ráða úrslitum nokkurs máls, nje heldur hagsmuni nokkurs flokks eða kjördæmis.

Svo mikið má segja um aðgerðir hæstv. landsstjórnar, að heill sólarhringur entist ekki til að tína það alt til. En jeg ætla að gefa gott fordæmi og hreyfa ekki við einum punkti meira en búið er. Aðalatriðið er þetta. Jeg er yfir höfuð að tala ekki ánægður með stjórnina, eins og hún er, og er mjög efablandinn um það, hvort hún gerir nokkurt meira gagn en eins manns stjórnin áður.