18.07.1917
Efri deild: 10. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1161 í B-deild Alþingistíðinda. (805)

21. mál, framkvæmd eignarnáms

Frsm. (Magnús Torfason):

Allsherjarnefndin, sem fjallað hefir um mál þetta, hefir orðið sammála um að leggja með því, að frv. verði samþykt, þó með nokkrum breytingum. Eru það mest orðabreytingar og grein gerð fyrir þeim í nefndarálitinu.

Viðvíkjandi 2. brtt. nefndarinnar, við 3. gr. frv., um að matsmenn ákveði sjálfir þóknun sína, þá vil jeg taka það fram, að álíta verður, að greiðandi matskostnaðarins hafi fullan rjett til að snúa sjer til dómstólanna og neita að greiða hann, ef hann telur hann ofháan.

Út af 5. brtt. c., við 6. gr. frv., þeirri, að stjórnarráðið kveðji yfirmatsmennina, skal bent á, að nefndinni þótti rjettara, að stjórnarráðið gerði það altaf, en ekki að eins þegar áfrýjandi krefðist þess.

Getur það litið út sem vantraust til dómarans, ef leyft er, að áfrýjandi gangi fram hjá honum, þegar svo stendur á, en slíkt kemur ekki til greina, ef haldið er orðalagi brtt.

Þá verður að geta þess um 9. brtt., við 10. gr. frv., þar sem sagt er, að fjárhæðin sje tekin frá til greiðslu síðar, að það er auðvitað á ábyrgð eignarnema, hversu vel fjárhæð sú er trygð.

Aðrar breytingar á frv. eru mest orðabreytingar. Hefir nefndin þar ýmist bætt við eða felt úr, eftir því sem henni þótti betur fara.

Að öðru leyti vil jeg geta þess, að nefndin ætlast ekki til þess, að lög þessi gildi um eldri sjerlagabálka, heldur að eins um venjuleg eignarnámslög, þeim til uppfyllingar, t. d. um áfrýjun.

Loks vil jeg taka það fram, að rjettara er, að fyrir »eignarbætur« í 7. gr., komi námsbætur, en sökum atvika komst sú breyting eigi að til þessarar umr.