04.08.1917
Neðri deild: 25. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1165 í B-deild Alþingistíðinda. (816)

21. mál, framkvæmd eignarnáms

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg ætla að gera stutta grein fyrir brtt. allsherjarnefndar, á þgskj. 251.

1. brtt., að 3. málsgr. 3. gr. falli burt, stendur í sambandi við 4. brtt., um að inn í frv. bætist ný gr., er verði 9. gr., svo hljóðandi: »Matsmenn ákveða sjálfir þóknun sína. Nú verður ágreiningur um hana, og fellir þá stjórnarráðið fullnaðarúrskurð um þann ágreining«. Brtt. sýnir, að matsmenn verða yfirleitt bærir um að ákveða þóknun sína, í samræmi við frv., eins og það kom frá háttv. Ed. En nefndinni þótti rjett að láta matsmennina ekki vera alveg einráða, heldur sje hægt að skjóta ágreiningi um kaup þeirra undir úrskurð stjórnarráðsins. Hún telur óviðkunnanlegt að gefa einstökum mönnum óáfrýjanlegt úrskurðarvald um borgun til sjálfra sín, og hefir því lagt til, að skjóta megi þessu undir úrskurð stjórnarráðsins, ef ágreiningur verður.

Þá er 2. brtt., við 7. gr., um að í stað 2000 komi 10000. Eftir frv. stjórnarinnar, og eins og frv. kom frá háttv. Ed., þurftu námsbætur ekki að vera meiri en 2000 kr. til þess, að heimta mætti sjerstakt yfirmat. En sjerstakt yfirmat er dýrt og því virðist rjett að færa þessa upphæð upp. 2000 kr. þola ekki svo mikinn kostnað. Yfirmatið skipa 2 menn með sjerþekkingu og 1 dómari úr yfirrjetti. Ef þeir búa fjarri staðnum, sem mat á að fara fram á, getur þetta mat orðið afardýrt, svo að 10000 kr. lágmark er ekki ofhátt. 2000 kr. er því altof lág upphæð.

3. brtt., við 8. gr., er eiginlega orðabreyting, en jafnframt til að fyrirbyggja misskilning. í frv., eins og það kom frá háttv. Ed., stendur, að matsmönnum sje »skylt að rannsaka verð eignarinnar, eftir því sem verða má, bæði með því að krefjast munnlegra skýrslna af málsaðilum sjálfum og yfirheyra aðra sem vitni, ef nauðsyn krefur«. En vitaskuld geta matsmenn ekki yfirheyrt menn sem vitni, t. d. með því að taka þá í eið og þröngva þeim til að mæta. Þessi brtt. nefndarinnar gefur matsmönnum því alveg sömu rjettindi, en er skýrar orðuð.

Um 4. brtt. hefi jeg þegar talað.

Enn er 5. brtt., um upphaf 9. gr., er verði 10. gr. í frv. frá Ed. stendur: »skal miðað við alment gangverð í kaupum og sölum«, en nefndin leggur til, að sett sje í staðinn: skal miðað við það gangverð, er hún (eignin) mundi hafa í kaupum og sölum. Þetta er í raun og veru að eins orðabreyting, en nefndinni sýnist þetta viðkunnanlegra orðalag. Það getur vel verið, að um eign sje að ræða, sem aldrei hefir gengið kaupum og sölum, og því sje ómögulegt að segja um gangverð hennar og því síður »alment gangverð«. En matsverðið á að vera það verð, sem ætla má að eignin seljist þegar virðing fer fram.

Þá er síðasta brtt., við síðari lið 9. gr., um það, að sá, sem á einhver verðmæt rjettindi yfir eigninni, eigi að fá bætur. En eftir frv. stjórnarinnar, og eins og það kom frá háttv. Ed, lítur út fyrir, að slíkar bætur skuli ekki aðrir fá en þeir, er nota eignina alla eða að nokkru leyti. Jeg geng reyndar út frá því, að þetta sje að eins ónákvæmt orðalag, og að meiningin hafi verið frá byrjun, að þeir, sem einhver verðmæt rjettindi hafa yfir eigninni, fái einnig bætur að einhverju leyti. Nefndin taldi undir öllum kringumstæðum rjett að gera orðalagið nákvæmara.

Fleiri eru brtt. ekki.