23.08.1917
Efri deild: 37. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1169 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

21. mál, framkvæmd eignarnáms

Frsm. (Magnús Torfason):

Hv. Nd. hefir breytt frv. þessu nokkuð. Eru sumar breytingarnar til bóta, en aðrar ekki. Að eins ein efnisbreyting hefir verið gerð á frv., sem sje það ákvæði, að ekki sje unt að krefjast sjerstaks yfirmats nema upphæðin, sem um sje að ræða, nemi 10,000 krónum, í stað 2000. Allsherjarnefnd verður að kannast við, að þessi breyting sje rjettmæt, þegar þess er gætt, að ætlast er til, að dómari úr yfirrjettinum taki þátt í matinu. Og þar sem stjórnin hefir tjáð sig þessu sammála, leggur allsherjarnefnd það til, að háttv. deild samþykki frv. óbreytt.