09.07.1917
Neðri deild: 6. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1179 í B-deild Alþingistíðinda. (844)

32. mál, vátrygging sveitabæja

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Jeg hefi leyft mjer af nýju að bera upp þetta frv., sem jeg lagði fyrir aukaþingið í vetur. Það komst þá ekki frá þinginu, dagaði uppi sökum tímaleysis. Það hafði þó gengið í gegnum 1. og 2. umr., og auk þess hlotið meðmæli landbúnaðarnefndar.

Það má því segja, að frv. hafi þegar fengið nægan undirbúning, og engar nýjar skýringar virðist þurfa, umfram þær, sem komu fram í vetur.

Mjer er að vísu kunnugt um það, að ýmsir, sem hlyntir eru frv., hafa þó óskað frekari breytinga á því. T. d. benti háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) á það í vetur, að gjaldið fyrir virðingar húsa í sveitum, væri sett svo lágt, að vafasamt væri, hvort nokkur fengist til þess að gegna þessu starfi. Mjer finst nú ekki vert að leggja svo mikið upp úr þessu atriði. Sveitarfjelögin geta að sjálfsögðu breytt gjaldinu, ef þeim líst, og má vera, að þess sje sjerstök þörf nú, þar sem kaupgjald yfirleitt fer langt fram úr því, sem það hefir nokkru sinni verið.

Enn fremur hafa ýmsir viljað hækka tillagið úr landssjóði, jafnframt því sem tryggingin er gerð umfangsmeiri og sniðin eftir Brunabótafjelagi Íslands. Jeg get ekki fallist á, að ástæða sje til þessarar hækkunar, þegar það er athugað, að þótt að eins sjeu komnir 30 hreppar í vátrygginguna, er sjóðurinn samt orðinn um 50 þús. kr., og jeg held ekki, að til þess sjeu knýjandi ástæður að svo komnu, meðan ekki kemur fram meiri hætta fyrir tryggingarsjóð, eða tíðari brunar en verið hafa.

Þess vegna flyt jeg frv. óbreytt, frá því sem það var samþykt við 2. umr. hjer í deildinni í vetur, og vænti góðra undirtekta sem þá. En til þess að tryggja sem best, að það verði ekki fljótfærnislega afgreitt, þá legg jeg til, að því sje vísað til landbúnaðarnefndar til nýrrar athugunar, svo að engu tækifæri sje slept til þess að tryggja sem bestan árangur.