30.08.1917
Neðri deild: 47. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í B-deild Alþingistíðinda. (85)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Matthías Ólafsson:

Það var svo að heyra á háttv. 2. þm. S.-M. (B. St.), að honum hafi verið það vonbrigði, hvernig fjárveitinganefnd tók í till. hans um vitann, og hann furðaði sig á því, að jeg skyldi ekki greina mig frá nefndinni um það atriði.

Jeg get nú sagt háttv. þingmanninum (B. St.) það, að það er ekki venja mín að kljúfa þær nefndir, sem jeg er í. Jeg beygi mig venjulega undir meiri hlutann í þeim atriðum, sem ekki skifta því meira máli. En jeg get sömuleiðis frætt háttv. þingmanninn á því, að í þessu atriði stóð svo á, að jeg var nefndinni algerlega sammála. Að jeg var nefndinni sammála var af þessum þremur ástæðum. Í fyrsta lagi af því, að jeg vissi, að nú er nýbúið að setja þennan vita í frv. um vitabyggingar, sem er nú hjer fyrir deildinni og legið hefir fyrir sjávarútvegsnefndinni, sem við erum báðir í, háttv. 2. þm. S.-M. (B. St.) og jeg. Honum er þetta því fyllilega kunnugt.

Í öðru lagi var jeg sammála nefndinni um þetta af því, að jeg vil ekki að veitt sje neitt til vitabygginga í fjárlögunum. Jeg er sem sje á þeirri skoðun, að það sje rjett að hætta að þjarka hjer í þinginu um það, hver vitinn skuli fyrst bygður, heldur fela það algerlega vitamálastjórninni og landsstjórninni að ákveða það. Þær hljóta að hafa miklu víðtækari þekkingu á því máli heldur en þingmennirnir, þar sem hver togar sinn skækil og reynir sem best að hlynna hver að sínu kjördæmi. Enn fremur þykir mjer líklegt, að ekki verði mjög langt á milli bygginga þeirra vita, sem standa í kerfinu um vitabyggingar, og hinna, sem nú standa í fjárlögunum.

Í þriðja lagi var jeg sammála nefndinni af því, að jeg er ekki sannfærður um, að það sje sanngjarnt, að fyrsti vitinn, sem bygður er, verði reistur á Austfjörðum. Jeg held því sem sje fram, að Austfirðir sjeu ekki illa staddir hvað vita snertir. Til þess að dæma um vitaþörfina er það áreiðanlegast að gera sjer grein fyrir því, hvort skipströnd sjeu tíð eða ekki í þessum landshluta. En nú eru skipströnd þarna mjög fátíð, og bendir það á annað tveggja, að annaðhvort sje þarna hreinn sjór eða að siglingar þar sjeu ekki miklar. Jeg veit það, að vitaþörfin er meiri á Vesturlandi en á Austurlandi.

Háttv. 2. þm. S.-M. (B. St.) gat þess, að þessi viti hefði verið borinn undir stjórnina af vitamálastjóranum. Jeg skal ekkert um þetta segja, en ef hann heldur, að það sje undan mínum rifjum runnið, að gert er ráð fyrir, að Vestfjarðavitinn verði bygður á undan, þá get jeg frætt hann á því, að það er ekki rjett. Jeg átti þar engan hlut að máli, enda álít jeg aðra vita vera nauðsynlegri.

Jeg skal játa það, að jeg álít vitana fyrir austan ekki vera fullnægjandi, en Austfirðir eru þó ekki ver staddir en Vestfirðir, hvað þá Suðurland. Að vísu er þar þokusælla en annarsstaðar á landinu, en þá duga vitarnir ekki neitt; þá koma þokulúðrarnir einir að gagni.

Jeg hygg nú, að háttv. 2. þm. S.-M. (B. St.) sje svarað, og vona jeg, að hann sjái nú, af hverju jeg gerði ekki ágreining í nefndinni, og að jeg hefi í þessu máli á rjettara að standa en hann.

Háttv. 2. þm. Eyf. (E. Árna.) kvaðst vilja fella till. fjárveitinganefndar um að veita 5000 kr. styrk til þess að kaupa fyrir söngvasafn Jónasar heit. Jónssonar, þinghúsvarðar. Eins og menn muna þá var Jónas heit. starfsmaður þingsins í fjölda mörg ár og hafði styrk í fjárlögunum til að rannsaka íslenska sálmasöngfræði. Það hefði því ekki verið undarlegt, þótt ekkjan, sem er efnalítil, hefði leitað til þingsins um styrk, en þetta vill hún ekki gera. Hún vill miklu fremur fara þessa leið, að selja landinu safn þetta, af því að það var ósk Jónasar sáluga. Frá mínu sjónarmiði er það velgerningur af ekkjunni að selja landinu þetta safn við þessu verði, því að henni mun vera boðið hærra verð fyrir það, enda telja þeir, sem vit hafa á, safnið vera miklu meira virði en þetta, einungis peningalega sjeð, en auk þess er þar að finna miklar bókmentalegar upplýsingar, sem við eigum ekki kost á annarastaðar hjer á landi.

Jeg skal ekki orðlengja þetta frekar; vona, að menn samþykki tillöguna.