16.08.1917
Efri deild: 32. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1183 í B-deild Alþingistíðinda. (854)

32. mál, vátrygging sveitabæja

Frsm. (Guðjón Guðlaugsson):

Landbúnaðarnefndin hefir athugað frv. það, er hjer liggur fyrir, og leggur til, að það nái óbreytt fram að ganga, þótt hún í fyrstu væri að hugsa um að koma með breytingar á því og bærist till. um það frá einum háttv. þm. í Nd.

Eins og sjá má af nál. þá eru breytingar þær, sem frv. gerir á lögunum, aðallega þrjár.

1. breytingin er að hækka um 1/6 brunaskaða þann, er brunabótasjóður greiði.

2. breytingin er, að það sje heimilt að tryggja húsin, hvort heldur sem vill í innlendum eða erlendum fjelögum, sem trygg eru.

3.breytingin er, að oddviti hafi alla stjórn sjóðsins á hendi, en ekki sveitarstjórnin í heild sinni, eins og nú er, en að hún geti þó falið öðrum þessi störf, sem getur komið fyrir að hún vilji gera, bæði vegna annríkis oddvita og hins, að hún telji annan betur færari um það.

Það, sem allir hljóta að athuga fyrst og fremst, er það, hvort það sje hyggilegt að hækka útborgun eins mikið og hjer er gert, hvort sjóðurinn þoli það, og hvort þá þurfi ekki að hækka gjöldin.

Til þess að rannsaka þetta atriði fekk nefndin skýrslu hjá hagstofu Íslands um brunabótasjóðinn. Þessi skýrsla nær yfir 7 ár, eða árin 1910 til 1916, að báðum árunum meðtöldum, og ber hún með sjer, að þessi ár hefir verið hægt að leggja öll iðgjöld við sjóðinn, að brunaskaðarnir hafa alls ekki numið nema rúmlega helmingi vaxtanna. Nefndinni fanst, að það hlyti því að vera óhætt að bæta þessum við brunagreiðslu sjóðsins, og það er augljóst, að sjóðurinn hefði vel getað greitt það þessi ár, sem hjer er um að ræða. Við þetta er það vitanlega athugavert, að 7 ár er nokkuð stuttur tími, svo stuttur, að með öruggri vissu er ekki hægt að draga þá ályktun, að jafnan verði svo; það gætu komið önnur 7 ár, sem væru miklu verri, og þar sem margir brunar bæru að höndum, en þó virðist vera óhætt að fullyrða það, að sjóðurinn sje fær um að greiða eins og frv. gerir ráð fyrir, nema þá að verulega mikla stórbruna bæri að höndum, en af skýrslu hagstofunnar sjest, að brunarnir hafa flest árin verið smáir og óverulegir.

Eins og jeg gat um í upphafi þá barst nefndinni till. frá einum hv. þm. í Nd. Hún var meðal annars um það að breyta því ákvæði, sem nú er, að ekki megi tryggja neitt hús fyrir meiri upphæð en 6000 kr. Hann vildi, að upphæðin væri færð upp í 12000 kr. fyrir steinhús, en 10000 kr. fyrir önnur hús. En nefndin taldi ekki rjett, að þetta væri gert jafnframt og brunabótasjóðnum væri gert að skyldu að útborga meira fje, er brunaskaða ber að höndum. Það gildir hið sama um brunabótasjóðinn og sparisjóði, að hann vill heldur margar smáar tryggingar en fáar stórar, og það vegna þess, að þá þarf hann ekki að greiða jafnháa upphæð, þótt skaði skeði, eins og hann þarf að gera ef dýr hús brenna. Eins er það um sparisjóðina; þeir þurfa ekki að hafa í fjárhirslu sinni eins stórar fjárupphæðir til að greiða með þegar smáu upphæðirnar er um að ræða, því að þá er ekki hægt að krefjast eins stórrar útborgunar í einu.

Hinar breytingarnar eru þess eðlis, að óþarft er að skýra þær nánar, en taka vil jeg það fram, að það er ekki nema rjett, að tryggja megi húsin í erlendu brunabótafjelagi, ef það er áreiðanlegt.

Að svo mæltu vil jeg óska þess, fyrir nefndarinnar hönd, að frv. þetta verði samþ. óbreytt.