30.08.1917
Neðri deild: 47. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Framsm. fjárveitinganefndar (Bjarni Jónsson):

Jeg skal ekki stofna til neinnar deilu með orðum mínum.

Fyrst vildi jeg minnast á brtt. á þgskj. 880. Það er óefnilegt af ungum þm. að bera fram slíka brtt. Sumir af þeim liðum, sem þar er farið fram á að falli burt, mættu einmitt síst falla. Sparnaðarástæður geta naumast legið til tillögunnar. Er það auðsætt af því, að þessi ungi þm. (B.St.) og aðrir fleiri bera fram, brtt., sem mundu auka útgjöldin um tugi þúsunda kr., ef þær væru allar samþyktar.

Mjer er það ekki ljóst, hví ekki skuli keypt ódýrt safn nýdáins starfsmanns þingsins. Ekkjunni stendur nú til boða að selja safnið á 6 þús. kr., og fyrir því hefi jeg sögn kunnugra manna, að safnið muni vera fullra 10 þúsunda virði.

Jeg get ekki heldur skilið, að nokkur ástæða geti verið til að fella burt litla fjárupphæð, sem ætluð er til varðveiðslu íslenskra þjóðmuna. Það þarf ekki miklar skemdir á þjóðmunum til þess að vega upp á móti þessari fjárupphæð. Verði fje þetta ekki veitt, mun skaðinn nema henni margfaldri.

Sama er að segja um orðabókarstyrkinn. Það væri viturlega ráðið af þinginu og þakklátt að veita þennan styrk, og er mjer óskiljanlegt, að nokkur þm. skuli vilja hafa sig til að mæla á móti slíkri fjárveitingu. Jeg skal ekki rekja, hvernig þessi fjárveiting er til orðin, en tiltökumál væri það, ef þingið vildi halda henni í sama farinu.

Brtt. á þgskj. 735 varð að láta prenta sjer, því að þær höfðu gleymst.

Í fyrri liðnum er ætlast til, að sú launaviðbót, sem um er að ræða, komi að gagni nýja kennaranum, sem sennilega kemur í haust í stað dr. Björns frá Viðfirði.

Annar liðurinn er við 15. gr. Till. stjórnarinnar var 2000 kr., en nefndin áleit þá upphæð oflitla, þar sem hún lítur svo á, að besti styrkurinn til listamanna sje að kaupa verk þeirra af þeim. Jeg hefi ástæðu til að halda, að stjórninni sje þessi litla hækkun kærkomin. Jeg vil benda mönnum á, að það eru bestu kaup á því, sem keypt er nú er íslensk list hefst Það þurfa ekki að líða 10 ár til þess, að hvert verk verði mörgum sinnum dýrara. Það er því í sjálfu sjer gróðafyrirtæki fyrir landið að kaupa listaverkin nú.

Þá vil jeg með örfáum orðum minnast á skólann í Hjarðarholti, út af því, sem hv. 2. þm.

N.-M. (Þorst. J.) sagði til mín og hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.). Um það kemur mjer og háttv. 2. þm.

N.-M. saman, að það sje í raun og veru rangt að taka nokkra skóla út úr, en úr því að ekki er hægt að varna því, þá er gott að koma sem flestum góðkunnum skólum að. Í þetta skifti vanst þó ekki tími til að koma með till. um hækkun á styrknum í heild sinni. En þar sem brtt. var fram komin um að bæta skólanum á Hvammstanga inn í athugasemdina, þá gat jeg ekki annað en komið með brtt. um, að skólinn í Hjarðarholti fylgdi með. Það var sagt, að engin skjöl um skólann væru við höndina. Skólinn sendir árlega skýrslu sína fræðslumálastjóranum. Hjer á þinginu hefir verið minst á hann annaðhvert ár. Síra Ólafur í Hjarðarholti er þar að auki svo góðkunnur maður, að ekki mun þörf langrar ræðu til að sýna mönnum fram á, að þetta er rjett mál. Jeg vona líka, að menn verði fúsir á að greiða brtt. atkvæði.

Þá er skálda- og listamannastyrkurinn. Háttv. 1. þingm. Húnv. (Þór. J.) virtist hafa misskilið það, sem jeg sagði um þennan styrk á dögunum. Nefndin taldi nauðsynlegt, að hann væri hækkaður meðal annars af því, að mörg góð skáld, sem ekki hafa áður notið hans, munu sækja um hann. Jeg nefndi Sveinbjörn Björnsson, en man ekki, hvort jeg nefndi Jakob Thorarensen, sem jeg legg þó að jöfnu við Sveinbjörn. Þeir eru báðir ágæt alþýðuskáld. Það er nauðsynlegt, að styrkurinn verði svo rúmur, að hægt verði að bæta nýjum mönnum við. En ótækt væri að fella þá burt, sem áður hafa notið styrksins. Þingið í vetur neitaði skáldum og listamönnum um að bæta þeim hallann, sem þeir hafa beðið við verðfall peninga, eins og aðrir, og ætti því nú að vera full ástæða til að fara þá leið að hækka styrkinn.

Þá hefir verið mikið talað um sparnaðartill. tveggja þingm. á þgskj. 680. Sá sparnaður, sem þeir fara fram á, nemur 9600 kr. bæði árin. Þessir sömu háttv. þingm. eru annars við riðnir aðrar brtt., sem til samans fara fram á 36,800 kr. hækkun á útgjöldum. Þeir vilja því spara fje, sem nemur einum fjórða parti af því, sem þeir vilja hækka útgjöldin um. Jeg vil ekki ræða frekar við þá um þetta mál, síst þá fjárveitingu, sem 1. þingm. Árn. (S. S.) sagði um að væri, »því miður, ódrepandi, eins og maðurinn sjálfur«. Raunar vissi jeg eigi fyr, að hann vildi mig feigan, sem ráða má af þessum vel samsettu orðum hans. Jeg hafði ætlað mjer að gefa skýrslu um, hvernig jeg hefi farið með þetta fje, en geymi mjer það til einnar umræðu, sem líklega er eftir hjer í deildinni, um fjárlögin, eða sameinaðs þings.