13.07.1917
Neðri deild: 9. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1195 í B-deild Alþingistíðinda. (883)

37. mál, skipting bæjarfógetaembættisins í Reykjavík

Flm. (Gísli Sveinsson):

Jeg hafði ætlað það, og þóst mega ráða af sólarmerkjum í vetur, að landsstjórnin mundi leggja fram frv. í þessa átt. En þar sem það hefir ekki orðið, þá höfum við 3 þm. leyft oss að bera það fram af sjálfsdáðum, og liggur það nú fyrir, eins og sjá má.

Frv. fer fram á það í 1. lagi að skifta bæjarfógetaembættinu. Orsökin er sú, að embættið er mikils til ofumfangsmikið, að því verði þjónað af einum manni, svo að fullvel sje. Embættið er eitt hið erfiðasta á landinu, argsamt svo, að einn maður, hvað hæfur sem hann væri, getur ekki haft auga á öllu, og því síður tekið beinan þátt í framkvæmd verkanna. Það er reynsla, að ef stöður eru ofhlaðnar, þá hefnir það sín og verður þjóðfjelaginu til tjóns; þótt hitt kosti meira að hafa fleiri menn, þá er það þó þjóðinni ágóði. Það er svo með öll störf, ekki síst áríðandi störf, að ætlast verður til þess, að þau sjeu vel af hendi leyst, og ef embættismaður stendur ekki vel í stöðu sinni, þá er honum ámælt. Nú þótt þessi skifting kostaði meira, þá leiðir af henni trygging fyrir meira og betra eftirliti en ýmsum þykir nú eiga sjer stað, en sjerstaklega legg jeg áherslu á það, að koma má nýjum áríðandi störfum inn undir. Þetta embætti er langtekjumesta embættið, svo að ekki stendur í neinu hlutfalli við önnur embætti, er margfalt tekjumeira en tekjumestu sýslumannsembættin. Það er nú ekki sanngjarnt, að eitt embætti sje svo vel launað, að það yfirgnæfi margfaldlega hvert annað embætti, með því líka að engin algild trygging er fyrir því, að í embættið sjeu skipaðir þeir menn, sem hæfastir eru til þess að leysa starfið vel af hendi.

Ef nú litið er á tímann, þá stendur vel á að skifta því nú, með því að það er nú laust, og rjettast að nota tækifærið til framkvæmdar á því, sem margir hafa fundið til, sem sje að stofna sjerstakt eftirlit með tollunum, tollgæslu, er sje lögð undir annað það nýja embætti, sem lagt er til að stofna, sem sje tollstjóra.

Á þinginu 1914 var samþ. till. til stjórnarinnar um að rannsaka og koma fram með frv. um tollgæslu í Reykjavík. Þar var farið fram á fleira, sem nú er komið í kring, en höfuðatriði till. var þetta. Rökin þarf jeg ekki að rekja. 1915 var þessi till. árjettuð með fyrirspurn til ráðherra, hvað hann hefði gert í málinu. Ráðherra svaraði því, að þessu viðvíkjandi hefði ekkert verið gert, en samt virtist hann vera á því, að málinu þyrfti að sinna. Síðan hefir ekki neitt verið gert í málinu. Jeg þarf ekki að lýsa þeirri nauðsyn, sem er á tollgæslu; hingað flytjast inn ógrynni af vörum, og nú af sjerstökum ástæðum meira en ella, en samt voru og þegar fyrir stríðið farin að dragast mjög hingað til Reykjavíkur verslunarviðskifti landsins. Hjer voru komnir umboðssalar, sem deildu vörunni út um landið. Og í framtíðinni verður hjer miklu meira vörumagn heldur en var fyrir stríðið. Liggur það bæði í því, að líklegt er, að sambandið við Ameríku fari vaxandi, og við það einnig vörur, sem hjer leggjast og fara eiga út um land. Auk þess má telja líklegt, að landið fari að taka að sjer flutninga á ýmsum vörum til landsins, sem þá koma fyrst hingað til Reykjavíkur. Þannig styður alt að því, að vörumagnið flytjist hingað fyrst og að hjer verði þá greiddir mestir tollarnir. Enn fremur er sjálfsagt mörgum kunnugt um, að hjer ímynda menn sjer alment, að farið sje í kringum tolllögin, enda er hjer að eins tollheimta, en engin gæsla. Hjer hafa komið fyrir allstórkostleg tollsvik, og hefir það komist upp af tilviljun, en vel getur verið, að fleiri hafi átt sjer stað en uppvíst er orðið um, hvort sem þeim mönnum eru svikin sjálfráð eða um handvömm er að ræða; en þetta mundi alls ekki, eða þá að mjög litlu leyti, geta komið fyrir, ef hjer væri um örugga tollgæslu að ræða.

Auk þess er hjer og annarskonar gæsla á vöru, sem bannað er að flytja inn, á áfengi, og er grunur á, að það sje hjer innflutt ólöglega, sumir halda mest hjer í Reykjavík, sem eðlilegt er, af því að hjer er verslunin stærst og hjer ægir öllu saman og hjer eru mest viðskifti. Ef mönnum þykir ilt, að lög þessi sjeu brotin, þá má girða fyrir brotin með þessu frv. Það hagar svo til, að undir verkahring tollgæslumanns fellur að athuga þetta, því að um leið og hann athugar, hvað tollskylt er, þá athugar hann hitt um leið, hvort inn flytjist nokkuð, sem ekki er leyft.

Það er gert ráð fyrir því í frv., að bæjarfógetaembættinu sje skift í tvent, dómaraembætti, er undir leggist öll dómstörf og lögreglustjórn, en til hins leggist tollheimta, tollgæsla og skattheimta. Aftan við frv. er sýnishorn, sem sýnir í aðaldráttunum, hvernig má haga skiftingunni. Auðvitað má haga henni á annan hátt, því að stjórnarráðinu er falið að skifta málunum í nánari atriðum. Það gæti verið spurning um ýmislegt smávægilegt, t. d. að fleiri skýrslugerðir væru faldar tollstjóra, sem hjer eru taldar með störfum dómara (eða bæjarfógeta, sem hann ef til vill hjeti eftir sem áður).

Hjer er og prentað fgskj. um launakjör aðstoðar- og skrifstofumanna. Hjá dómara er gert ráð fyrir einum fulltrúa og einum föstum skrifara. En vera má, að stjórnarráðið vilji

t. d. hafa 2 fasta skrifara o. s. frv. Tollstjóranum er ætlaður einn fulltrúi, einn skrifari og 2 tollverðir, og þar að auk ríflegur skrifstofukostnaður. Laun aðalmannanna verða að vera rífleg, t. d. byrja með 5000 kr., er hækki upp í 6000 kr. Þetta er ekki ofhátt, því að gera ber ráð fyrir því, að í embættin verði skipaðir vel hæfir menn, með því að um vandasöm verk er að ræða og á tollstjóranum hvílir mikil ábyrgð, svo að vel þarf að launa, en hins vegar má telja launin eftir frv. fullsæmileg.

Tekjur embættisins nálgast nú 30 þús. kr. Fyrir stríðið voru þær milli 20 og 30 þús. kr., en 1916 kr. 28721,50. Það mætti nú segja, að verið gæti, að tekjurnar yxu ekki svo fljótt, og auk þess sjeu ýmsir tekjuliðir orðnir sáralitlir, en þeir mundu fljótt vaxa aftur eftir stríðið, t. d. afgreiðsla fiskiskipa, sem nam um 5000 kr. 1914, en 1916 um 900 kr. Eftir þessu verður enginn umframkostnaður til embættanna, þótt skifting fari fram, heldur hrökkva þær tekjur til þeirra beggja, sem nú fylgja embættinu einu. Ágóðinn af tollgæslunni yrði þá aukalegur. Mun mega telja það vel farið.

Jeg býst nú ekki við, að jeg þurfi fleira að mæla með frv., til þess að byrja með. Það gefur sjálft til kynna, hvernig fyrirkomulagið er hugsað, og mun jeg einnig vera fús til skýringa, ef þess er leitað.

Jeg býst við að hlýða þyki að vísa málinu til einhverrar nefndar, og sje jeg þá enga nefnd líklegri en allsherjarnefnd, og geri það að till. minni, að því sje vísað þangað.