13.07.1917
Neðri deild: 9. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1205 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

37. mál, skipting bæjarfógetaembættisins í Reykjavík

Forsætisráðherra (J. M.):

Mig furðar dálítið á því, hvað háttv. flm (G. Sv.) hefir tekið illa upp orð mín, því að ekki hæddi jeg smið hans. Jeg átti ekki von á því, að hann myndi afbaka orð mín á margan hátt. Jeg sagði ekki, að aðalverkið væri framkvæmt af fulltrúum. Jeg sagði, að störfin, sem ljetta ætti af dómaranum, væru aðallega framkvæmd af fulltrúum, og svo er það annarsstaðar. Jeg veit ekki, hvernig það gæti öðruvísi verið. Þegar dómarar verða að segja upp dóma í málum svo að tugum skiftir á einni viku, er ekki tími til margs annars. Það er að eins eftirlitið með öllu, sem embættismaðurinn hefir. Það var óþarfi að vonskast út af þessum orðum mínum. (G. Sv.: Jeg var ekkert vondur). Jeg sagði ekkert annað en það, sem rjett er, og við gengst annarsstaðar.

Jeg sagði ekki heldur, að starfið væri ofmikið fyrir einn mann. Jeg sagði, að lögreglustjórnin yrði út undan, nema bæjarfógeti fengi aðstoð. Það er líka álitamál, hve stór embættin megi vera, svo að nokkurn veginn hæfur maður komist yfir að þjóna þeim. Óþarfi var það af flutningsmanni (G. Sv.) að vera að minnast á, hvort jeg hefði þjónað betur eða ver bæjarfógetaembættinu. Jeg fer ekki að verja mig sem bæjarfógeta hjer, á þessum stað. En jeg hygg, að þó að skift verði embættinu, eins og ætlast er til í þessu frv., muni litlu vera ljett af bæjarfógeta. Annars get jeg gefið flm. (G. Sv.) þær upplýsingar, þótt honum sje náttúrlega kunnugt um það áður, að t. d. í Danmörku er það altítt, að dómarar hafi ekkert annað en dómsmálin sjálfir; framkvæmd annara mála fela þeir fulltrúum, og hafa bara eftirlit með. Jeg sagði áður, að dómaranum myndi ekki nægja einn fulltrúi; jeg stend við það. Fulltrúi þarf altaf að vera viðstaddur á skrifstofu dómarans, vegna almennings, og fulltrúa þarf, að minsta kosti hálfan daginn til að framkvæma lögtak. Jeg get trúað, að nú sem stendur verði komist af með einn fulltrúa, en síðast þegar jeg var bæjarfógeti hafði jeg þrjá, eða 2½, ef háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) vill heldur, að það sje orðað svo. Þessi hálfi vann 4 klst. á dag, og jeg held, að hann hafi komist yfir töluvert verk á þeim tíma. Þess má og geta, að auk lögtakanna eru uppboð mjög tíð.

Jeg skal játa, að ekkert af þessu er neitt höfuðatriði, en háttv. flm. (G. Sv.) talar hjer um hluti, sem honum eru ekki nógu kunnugir. Aðalatriðið í þessu máli er, hvort lögreglustjórnin væri skilin frá dómaraembættinu. Um það eitt myndi muna. En jeg legg ekki til, að hún væri fengin í hendur tollstjóranum. Þá væri ofóskyldum störfum blandað saman.

Fleira skal jeg ekki telja til við þessar umræður.

Hvað snertir ávítur háttv. flm. (G. Sv.) í garð stjórnarinnar, fyrir að hún bjó mál þetta ekki til þings, þá vil jeg geta þess, að hann hefir ekki áður reynst mjer ósanngjarn. En nú er hann mjög ósanngjarn. Hann ætti þó að skilja, að ekki er mikill tími fyrir stjórnina, frá í febrúar til marsloka, til að athuga mörg stórmál, auk fjármála og annars, sem sjálfsagt er. Jeg hjelt, að það væri einsætt, að þm. gætu ekki búist við mikilli lagasmíð af stjórninni á jafnstuttum tíma. Það var ekki hægt að ætlast til, að stjórnin bæri fram annað en venjuleg stjórnarfrumvörp.