06.08.1917
Neðri deild: 26. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (890)

37. mál, skipting bæjarfógetaembættisins í Reykjavík

Forsætisráðherra (J. M.); Jeg gat þess við 1. umr., að jeg myndi ekki skifta mjer mikið af meðferð þessa máls hjer á þingi. Jeg ætla mjer ekki heldur að leggja margt til málanna nú.

Úr því að lögreglustjórnin er ekki skilin alveg frá dómara- og tollstjóraembættunum, tel jeg miklu heppilegra, að hún verði látin fylgja tollstjórninni. Það fer áreiðanlega betur á því.

Í þessu sambandi vildi jeg skjóta því til háttv. nefndar, hvort hún hafi ekki athugað það, að það er dálítið óviðkunnanlegt, að undirdómarar hafi 5—6 þús. kr. laun, en yfirdómarar ekki nema 3500. Jeg er því ekki mótfallinn, að undirdómarar fái þessi laun, en hitt væri æskilegt, að nefndin athugaði, hvort ekki væri fært að breyta launakjörum yfirdómaranna. Það má náttúrlega segja, að annarsstaðar sje það ekki óalgengt, að undirdómarar hafi meiri tekjur en yfirdómarar, eða jafnvel hæstarjettardómarar, en það stafar undantekningarlaust frá aukatekjum, sem undirdómarar hafa. Vitanlega hafa undirdómararnir meira að gera. En yfirdómaraembættin ættu að vera veglegri. Þetta snertir ekki beint það mál, sem hjer liggur fyrir, en mjer þætti vænt að heyra undirtektir formanns nefndarinnar.