06.08.1917
Neðri deild: 26. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1209 í B-deild Alþingistíðinda. (891)

37. mál, skipting bæjarfógetaembættisins í Reykjavík

Gísli Sveinsson:

Jeg og við flm. getum verið allsherjarnefnd þakklátir fyrir undirtektirnar. Hún er á sama máli og við um nauðsyn þessa máls, og um ástæðurnar, sem við færðum fyrir því.

Aðalbrtt. nefndarinnar er svo vaxin, að jeg geri engan ágreining um það atriði. Þó er rjett að geta þess, að jeg tel hana til engra bóta. Fyrir mjer vakti, að sje það svo, sem hæstv. forsætisráðherra fyr hefir talið, að einn maður geti annað embættinu, eins og það er núna, þá ætti sami maðurinn að geta annað dómara- og lögreglustjórastörfunum einum, einkum þar sem ráð er gert fyrir, að hann hafi, auk annars, sjerstakan lögreglufulltrúa sjer við hönd. Og ef nú lögreglustjórastarfinn er bundinn við tollstjórann, þá er þar með krafist, að hann sje lögfræðingur. Í öðrum löndum eru hagfræðingar, eða aðrir, oft hafðir fyrir tollstjóra, og væri óheppilegt, ef þeir væru með öllu útilokaðir frá þessu embætti.

Hitt er líklegt, að þegar fram í sækir, verði nauðsynlegt að hafa sjerstakan lögreglustjóra hjer í bæ, og þá kemst það í kring, eins og háttv. nefnd ætlast til, að dómarinn losnar við lögreglustörfin, og það án þess, að þeim þurfi að demba á tollstjórann. Annars hefir nefndin fallist á frv., að þessari einu umræddu breytingu fráskilinni; og það sjest á áliti hennar, að hún telur málið fullvel undirbúið til þess að fá framgang. Hæstv. forsætisráðherra ætti því nú að geta verið rólegri en hann virtist vera við 1. umr., að því er snertir undirbúning málsins, og býst jeg við, að hann muni styrkjast í því, að skifting sú, sem farið er fram á, sje engin frágangssök, við það, hvernig nefndin hefir litið á málið, eins og jeg, því að jeg þykist vita, að hann trúi nefndinni til þess, að hún hafi rannsakað grandgæfilega alla málavöxtu. Jeg efa ekki heldur, að hann muni vera skiftingunni hlyntur í sjálfu sjer, þar sem hún fellur einmitt að mestu saman við tillögur sjálfs hans, um sundurgreining umboðsvalds og dómsvalds, í milliþinganefndinni, sem átti að fjalla um eftirlauna- og launamálið.

Jeg ætla ekki að blanda mjer inn í það, hvort háttv. nefnd vill taka til greina athugasemd hæstv. forsætisráðh. um laun yfirdómaranna eða ekki; það kemur ekki þessu máli beint við. Hitt er satt, að ýmsir lægri embættismenn eru betur launaðir eða hafa hærri tekjur en yfirdómararnir; svo er t. d. um bæjarfógetana. Það skapast því eigi neitt nýtt ranglæti við það, þótt frv. þetta sje samþykt án þess að launakjörum yfirdómaranna sje breytt. Hitt er víst, að launakjör þeirra, eigi síður en ýmsra annara embættismanna, þurfa endurskoðunar við, svo fljótt sem kostur er á.