27.08.1917
Efri deild: 40. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1217 í B-deild Alþingistíðinda. (903)

37. mál, skipting bæjarfógetaembættisins í Reykjavík

Halldór Steinsson:

Jeg hafði ætlað mjer að greiða atkvæði með þessu frv., en háttv. nefnd hefir gert við það brtt., sem gerir það mjög óaðgengilegt í mínum augum.

Það er brtt. nefndarinnar um laun yfirdómaranna. Brtt. þessi er í sjálfu sjer rjettlát og sjálfsögð, því að launin eru nú altof lág, en hið sama er um mörg laun önnur en þessi. Það er langt síðan augu manna opnuðust fyrir því, að mörg embættislaun væru oflág, og því var það, að milliþinganefnd var sett á fót til að athuga það efni. Henni hefir raunar mistekist starf sitt, en það má þó búast við því, að sá árangur verði af því, að strax er ófriðnum lýkur og komið er í rjett horf aftur, þá verði launamálið í heild sinni tekið fyrir. Og þar sem þetta liggur fyrir dyrum á næstu árum, þá er ekki rjett að breyta nú launakjörum eins flokks embættismanna.

Það má ef til vill segja, að yfirdómurinn sje einna svartasti bletturinn á launakerfinu; laun yfirdómendanna eru 3500 kr., en forstjóri landsverslunarinnar, sem að sögn er óreyndur unglingur, nýkominn frá prófborðinu, á að hafa að árslaunum 6000 kr. (Atvinnumálaráðherra: Launin eru ekki ákveðin enn). Hæstv. atvinnumálaráðherra bar ekki, að því er mjer fanst, þær ákúrur af landsstjórninni, sem á hana voru bornar á eldhúsdaginn í háttv. Nd. þessu máli viðkomandi, og ef hann gefur frekar ástæðu til, skal jeg sýna, að framkoma hennar í þeim efnum er ekki verjandi.

En þeim mun meiri og fleiri, sem gallarnir eru á launalögunum, þeim mun meiri trygging ætti að vera fyrir því, að þau yrðu tekin fyrir í heild sinni til endurskoðunar og umbóta. Að taka einn flokk út úr og bæta launakjör hans er því óheppilegt; það yrði að líkindum að eins til þess að tefja fyrir frekari aðgerðum í launamálinu. Næsta þing tæki ef til vill annan flokk, og svo framvegis, og það gæti því hæglega svo farið, að nokkur árin yrðu liðin áður en launamálið í heild sinni yrði komið í sæmilegt horf, og flestir núlifandi embættismenn yrðu þá líklega komnir undir græna torfu. Jeg gæti búist við, að með því móti yrði lítið samræmi í launalöggjöfinni.

Af þessari ástæðu get jeg ekki greitt þessari brtt. nefndarinnar atkvæði, þótt mjer þyki leitt, því að laun yfirdómaranna eru altof lág.

Jeg vil um leið taka það fram, að mjer hefði fundist rjettara, að þetta hefði verið borið fram í sjerstöku frumvarpi, heldur en hjer, þar sem um óskylt mál er að ræða.