27.08.1917
Efri deild: 40. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1218 í B-deild Alþingistíðinda. (904)

37. mál, skipting bæjarfógetaembættisins í Reykjavík

Sigurður Eggerz:

Háttv. þm. (H. St.) hefir tekið sumt fram, er jeg vildi sagt hafa, og alveg er jeg honum samþykkur um það, að laun yfirdómaranna sjeu ósæmilega lág, og það svo, að ekki sje hægt við að una, en jeg sje ekki, að umbætur á launum þeirra eigi heima í þessu frv., en það gæti hins vegar hæglega leitt til þess, að mál þetta — skifting bæjarfógetaembættisins — strandaði á þinginu.

En skiftingu þessa tel jeg heppilega, bæði vegna þess, að með henni er kominn vísir til tollgæslu hjer, og hennar er þörf, og hins, að ef embættið er óskift, þá getur dómarinn ekki varið eins miklum tíma og æskilegt er til að kveða upp dóma sína. En dómar hjer í Reykjavík eru mjög margbrotnir.

Jeg tel því breytinguna nauðsynlega, og rjett að hafa tollstjórnina og lögreglustjórnina saman, eins og jeg hygg að gert hafi verið eftir uppástungu frá mjer, því að með því fær dómarinn næði til að vinna að dómstörfum sínum, en það næði mundi lítið aukast, ef hann þrátt fyrir skiftinguna ætti einnig að gegna lögreglustjórastörfum, sem vitanlega hafa farið stórum vaxandi, eftir því sem bærinn stækkar. Að vísu getur einn maður gegnt embættinu óskiftu, en þá yrði hann að hafa það eins og sagt er að hjeraðsfógetar í Danmörku geri, að láta fulltrúa sína semja dómana, en það er efamál, hvort það er heppilegt. En það er ofraun einum manni að hafa umsjón með fje, kveða upp dóma, sjá um góða lögreglustjórn og tollstjórn, svo að alt sje vel gert, ef hann á einn að öllu leyti að gegna dómarastarfinu.

Játa skal jeg það, að laun yfirdómaranna eru ranglátlega sett, er litið er til launanna í þessu frv., en ekki verður ranglætið eða mismunurinn minni sje bæjarfógetaembættinu ekki skift, því að eftir skiftingunni gegnir bæjarfógetinn einnig umboðsstarfi, og því er ekki hægt að segja, að með þessu frv. skapist meira ranglæti en verið hefir; það yrði heldur minna.

Jeg vil skjóta því til háttv. nefndar, hvort hún vill ekki taka þessa brtt. sína aftur og bera hana fram í sjerstöku frv. Frv. þetta er því með öllu óskylt, og þessi brtt. gæti orðið því að falli.