27.08.1917
Efri deild: 40. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í B-deild Alþingistíðinda. (906)

37. mál, skipting bæjarfógetaembættisins í Reykjavík

Eggert Pálsson:

Jeg er einn þeirra manna, sem geta ekki felt sig við þennan viðauka um hækkun á launum yfirdómaranna. Jeg get ekki sjeð, að það komi máli þessu beint við.

Það hefir verið sagt, að háttv. allsherjarnefnd vilji með viðauka þessum nema burt misrjetti það, sem yfirdómararnir eigi við að búa.

En, eins og háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) tók fram, þá miðar frumvarpið, eins og það kom frá háttv. Nd., einmitt í þá átt. Ef »brutto«-tekjur bæjarfógetans eru 30 þús. kr. og skrifstofukostnaður 10 þús. kr., en laun landsyfirdómara eins og lög ákveða, þá er misrjetti þetta miklu meira nú en verða mundi, ef farið væri eftir frv., eins og það kom frá háttv. Nd.

Þess ber líka að gæta, að ef hækkuð eru laun yfirdómara en ekki annara, þá upphefst ekki misrjetti þetta, heldur að eins flyst til yfir á hina hliðina. Þá yrðu aðrir embættismenn misrjetti beittir, í samanburði við þá. Jeg skal taka einfalt dæmi. Til eru ýms embætti, sem krefjast lærðra manna og vel hæfra, t. d. skrifstofustjóraembættin í stjórnarráðinu og bæjarfógetaembættin á Ísafirði, Akureyri og Seyðisfirði, og ýmsra annara embættismanna. En ekki er farið fram á breytingu á launakjörum þeirra manna, er þau skipa. Þar mundi því halda áfram misrjettið, ef samþ. yrði viðaukatill.

Annað er það líka, sem gerir viðauka þennan ísjárverðan í mínum augum. Hygg jeg helst, að hann gæti orðið málinu hættulegur. Eins og háttv. þingdm. er kunnugt var frv. samþ. í háttv. Nd. með miklum þorra atkv., og sjálfur hæstv. forsætisráðherra, sem er málinu kunnugur, greiddi atkv. með því, eftir breytingu þá, sem á var gerð, upphaflega frv., að lögreglustjórnin skyldi heyra undir tollstjóraembættið.

Ef viðaukinn yrði nú samþ. hjer og háttv. Nd. feldi sig ekki við hann og skæri hann burt, þá mundi málið koma aftur hingað, og hefðu nú háttv. þingdm. hjer neglt sig svo fast við viðaukann, að þeir gætu ekki sætt sig við að samþ. frv. án hans, þá gæti svo farið, að málið strandaði með öllu.

En nú tel jeg mjög varhugavert að láta málið stranda á þessu. Háttv. allsherjarnefnd telur það að vísu skaðlaust, að málið bíði næsta þings. En þá er þess að gæta, að ekki er víst, að það geti beðið í sama horfi.

Svo gæti farið, að embættið yrði veitt eins og það nú er lagað, og er þá loku fyrir það skotið, að breytt yrði á næsta þingi, eða að sú breyting kæmi til framkvæmda á nálægum tíma.

Jeg tel því mjög varhugavert að samþ. viðaukann, þar sem hann gæti riðið málinu að fullu, en því væri illa farið, því að allir munu á einu máli um það, að nauðsyn sje á skiftingunni.

En ef háttv. allsherjarnefnd er það áhugamál að hækka laun yfirdómara, þá ætti hún að bera fram sjerstakt frv. um það, en þá kemur til álita, hvort ekki beri að líta á kjör annara embættismanna, svo að komið yrði í veg fyrir misrjetti það, sem á sjer stað í þessum sökum, því að bæta úr því á einum stað, svo að það vaxi því meir á öðrum, eru engar sannar eða verulegar endurbætur.