30.08.1917
Neðri deild: 47. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Jeg get ekki komist hjá því að svara háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) nokkru út af því, sem hann talaði til mín. Jeg geri ráð fyrir, að hann hafi ekki, er hann var að ryðja úr sjer, ætlað að syndga upp á náðina, af því að hann var dauður, í því trausti, að ekki mundi verða lagst mjög grimmilega á náinn. Háttv. þm. (Þorst. J.) fór mjög geistur og rasandi og talaði af þjósti allmiklum og vanstillingu, og var öllu háværari en hvað hann var sannfærandi. (Þorst. J.:

Jeg bið forseta að áminna háttv. þm.). Forseti gerir það sjálfsagt, ef honum sýnist þess þörf, en jeg þykist hafa ástæðu til ummæla minna, því að það er óvenjulegt hjer á þingi, að ráðist sje þannig persónulega á frsm. nefndar, eins og háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) rjeðst á mig. Hann ætti þó að vita það, að það, sem jeg talaði, talaði jeg sem umboðsmaður fjárveitinganefndar. Jeg talaði fyrir hönd nefndarinnar og samkvæmt hennar vilja; hagaði jeg því í sumum greinum nokkuð öðruvísi orðum en ef jeg hefði talað fyrir mig einan, og þá hefði það ekki verið honum í hag.

Háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) talaði um, að jeg hefði átt mikinn þátt í, að útgjöldin hafi orðið svo há.

Jeg hygg, að fáir aðrir sjái það mark á fjárlagafrumvarpinu, að mjer verði fremur öðrum eignuð sú stefna, sem fylgt hefir verið.

Það kom fram í ræðu háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.), að hann hafði hvorki gefið gaum því, sem sagt var um brúna á Hjeraðsvötnin, nje heldur lesið tillögu fjárveitinganefndar, að til hennar skyldi varið 10000 kr., en ekki 25000 kr., eins og háttv. þm (Þorst. J.) hjelt fram að ætlast væri til, að til hennar ætti að ganga.

Háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) bygði svo mikið á þessari sanngirniskröfu, sem Austfirðingafjórðungur hefði til aukinna fjárveitinga, þegar þess væri gætt, hve lítið hann hefði fengið, í samanburði við hina landsfjórðungana. Ef fara ætti út í það og halda því fram, að allir fjórðungarnir ættu jafnan að fá jafnmikla fjárveitingu hver um sig á hverju fjárhagstímabili, þá er jeg nú hræddur um, að Vestfirðingafjórðungur mundi reynast fremur afskiftur. En þessi samanburður og þessi fjárskiftaaðferð nær annars engri átt. Fjárveitingarnar verða mjög að fara eftir staðháttum og ástæðum í það og það skifti. Jeg býst ekki við, að Norðlendingafjórðungur muni fara að bera sig upp undan því, þótt honum sje ekki nú ætlað jafnmikið fje til áveitu og til varnar gegn landskemdum, eins og Sunnlendingafjórðungi.

Háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) lagðl mikla áherslu á það, að tilætlunin væri að hlutaðeigandi hjerað legði svo mikið fram móti landssjóðstillaginu til brúargerðarinnar á Hofsá, en ekkert slíkt væri boðið fram til brúargerðarinnar á Miðfjarðará og Hjeraðsvötnin.

Jeg býst við, að aðrir háttv. þingdm. sjeu það betur að sjer í vegalögunum, að þeir viti, að það hvílir lagaskylda á landssjóði að brúa þessi vatnsföll, en ekki Hofsá.

Jeg verð, að nokkru, að vefengja það sem háttv. þm. (Þorst. J.) sagði, að meiri hluti fjárveitinganefndar sje fylgjandi þessari fjárveitingu, eða að minsta kosti þrír menn. Jeg veit það, að í gærkveldi var talsverður meiri hluti nefndarinnar á móti henni. Jeg veit ekki, hvernig kann að hafa skipast síðan; þó þykja mjer lítil líkindi, að mikið hafi breyst síðan, en háttv. þm. (Þorst. J.) þykist má ske vita það betur, því að svo mikið þykir honum undir komið að hafa þetta brúarmál sitt fram, að hann hefir fátt annað gert í dag en ganga milli manna og leita atkvæðafylgis. (Þorst. J.: Sanni þingmaðurinn það). Það er ekki svo auðvelt að sanna það, síst svona umsvifalaust frammi fyrir öllum þingheimi. En undarlega kunnugur hlýtur háttv. þm. (Þorst. J.) að vera hugsunum þeirra, er fjárveitinganefnd skipa, þar sem hann lagði svo mikið upp úr því, að hann hefði fylgi hálfrar annarar stórnefndar í þessu máli. Þess er og að gæta, að tveir menn úr samgöngumálanefnd eru og í fjárveitinganefnd, og þarf ekki að gera ráð fyrir, að þeir skifti um skoðanir eftir því, í hvorri nefndinni þeir starfa. En við þetta breytist útkoman nokkuð.

Háttv. þm. (Þorst. J.) kvaðst ekki hafa leyfi til að taka tillöguna aftur, þótt hann vildi. Má vera, að svo sje. Þó geri jeg ráð fyrir, að samgöngumálanefndin mundi ekki víta hann harðlega fyrir það, þótt hann reyndar segi, að hún hafi komið tillögunni af stað. Háttv. þm. vildi ekki gera mikið úr eða vera bundinn við ályktanir þingsins 1915 í þessu máli. Það er nú svo, en nokkuð hæpin stjórnmálastefna og ekki alltíð er það að rugla áætlunum fyrirrennara sinna, þótt nýir menn komi til sögunnar; að minsta kosti þurfa að vera meiri ástæður til þess en hjer, ef vel á að fara og eitthvert samhengi í stjórnarstörfunum. Háttv. þm. (Þorst. J.) er annars í allgóðu samræmi við sjálfan sig um það að vilja ekki binda sig fast við stefnur og skoðanir fyrri þinga, úr því að hann ekki einu sinni bindur sig við sínar eigin stefnur eða skoðanir, sem hann hjelt fram fyrir nokkrum dögum. Því að þegar frv. um brúargerð á Hofsá og Selá var til umræðu hjer í deildinni fyrir skömmu, fórust honum þannig orð í ræðu, sem hann þegar hefir leiðrjett: »Jeg vona, að enginn misskilji frv. þetta svo, að við flutningsmenn ætlum að fara að bola þessum brúm fram yfir þær, sem áður hafa verið ákvarðaðar.« Kvað hann þó með þessu ætla að greiða götu málsins og auka hjeraðsbúum kjark til að byrja á fjársöfnun, en gangi út frá, að þetta geti ekki orðið svo fljótt. Það er því ekki ástæðulaust, þótt mjer finnist háttv. þm. (Þorst. J.) hafa skift um skoðun, síðan hann mælti framannefnd orð.

Jeg man ekki, hvort háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) komst þannig að orði, að jeg hefði ráðist grimdarlega á brtt., en jeg held það. Jeg veit ekki annað en að jeg hafi talað stillilega um málið og verið stiltari en hann. Ef hann ætlar að fara að álasa mjer fyrir það, að jeg er Húnvetningur, þá þykir mjer það dálítið skrítið, því að jeg fæ ekki sjeð, að það komi málinu nokkuð við. Ef jeg hefði verið í reipdrætti fyrir kjördæmi mitt hjer, þá hefði það átt við að tala um, hvaðan jeg væri. Það er ekki gott að segja nema jeg eigi eftir að koma þarna austur, en það get jeg sagt, að á síðustu árum hefir leið mín ekki legið oftar um Húnavatnssýslu, en aðra landshluta. Jeg get ekki varist þess að benda háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) á, að þegar við erum komnir inn á þing, verðum við að hafa víðari sjóndeildarhring en okkar eigið kjördæmi, ekki síst í stórmáli sem þessu. Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar og læt því hjer staðar numið, en vona, að háttv. deildarmenn kunni að meta hjer rök og rakaleysi.