01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1225 í B-deild Alþingistíðinda. (913)

37. mál, skipting bæjarfógetaembættisins í Reykjavík

Frsm. (Einar Arnórsson); Jeg ætla að eins að skýra frá því, að allsherjarnefnd hefir athugað þetta frv. eftir að það kom frá háttv. Ed. Þar hefir verið gerð ein efnisbreyting á frv., sem gengur út á það, að konungur skuli veita tollstjóraembættið, eins og dómaraembættið. Nefndin hefir sjerstaklega athugað þessa breytingu og telur hana sanngjarna, þar sem í hlut á sá maður, sem skattheimtu landssjóðs á að hafa á höndum, og verður því að bera ábyrgð á miklu fje, sennilega meiru en nokkur annar gjaldheimtumaður landsins, sem gengur í gegnum hans hendur.

Jeg ætla svo ekki að orðlengja um frv. Aðrar breytingar eru ekki efnisbreytingar, heldur að eins til að skýra innihald frv. Nefndin leggur því til, að það verði samþ. óbreytt.