12.07.1917
Neðri deild: 8. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1226 í B-deild Alþingistíðinda. (916)

43. mál, alidýrasjúkdómar

Flm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg skal ekki vera langorður, en að eins gera ofurlitla grein fyrir, hvers vegna við flm. þessa frv. förum fram á afnám þessara laga, án þess að setja nokkuð í staðinn. Er þá fyrst að athuga, á hvaða grundvelli skýrslurnar eru bygðar. Menn eiga á hreppaskilum að skýra frá, hvað þeir hafa mist af skepnum á árinu og úr hvaða sýki. Margir hreppstjórar hafa kvartað undan, hve ilt væri að fá þessar skýrslur og hve óábyggilegar þær væru. Í öðru lagi er það að athuga, að skepnur drepast oft úti í haga, án þess að eigendurnir hafi hugmynd um úr hverju þær hafa farist, eða jafnvel um, að þær hafi farist. Þau stjórnarvöld, sem skýrslunum hafa átt að safna og vinna úr þeim, leggja ekki mikið upp úr þeim. Og jeg hefi haft fyrir satt, að hætt sje að safna skýrslum þessum sumstaðar á landinu, og sje það látið óátalið. Margur hreppstjóri hefir sagt við mig, að hann yrði að búa til skýrslurnar frá eigin brjósti. Frá því 1906 hefir þessum skýrslum verið safnað og þær sendar til stjórnarráðsins. Þar hafa þær legið óhreyfðar í bunka þar til í vor, er þær voru sendar til hagstofunnar. Jeg hefi átt tal við hagstofustjórann um þær, og treystir hann sjer ekki til að vinna úr þeim neitt af viti. Dýralæknirinn hjer kveðst ekkert sjá eftir, þótt skýrslur þessar hverfi úr sögunni. Undir þessum kringumstæðum er lítil ástæða til að halda áfram að safna þessum skýrslum. Grundvöllur þeirra er óábyggilegur, og stjórnarráðið hefir ekki gert annað við skýrslurnar en hrúga þeim upp að gagnslausu. Lög þessi eru því pappírslög í orðsins sönnustu merkingu, og er sjálfsagt að afnema þau. Jeg sje ekki, að málið þurfi að fara til nefndar, og sting því upp á, að það verði látið ganga áfram nefndarlaust.